Myndin Shooting dogs var önnur myndin á árinu 2005 sem fjallaði um þjóðarmorðið í Rúanda sem átti sér stað á 100 daga tíma bili árið 1994. Leikstjórinn er Michael Caton-Jones, sá hefur ekki verið mjög iðinn við kolann og aðeins gert um 12 myndir á 19 ára tímabili. Meðal mynda sem hann hefur gert er Rob Roy og Basic instinct 2 sem er hans nýjasta mynd.
Myndin fjallar um Joe Connor sem fer sem sjálfboðaliði til Rúanda árið 1994 til að vinna sem kennari í litlum kaþólskum skóla fyrir utan höfuðborgina Kígalí. Skólastjórinn er séra Christopher sem hefur gefið 30 ár af lífi sínu til Afríku og reynir eftir fremsta megni að innræta fólkið kristilegum kærleik ásamt grunnmenntunar. Myndin gerist á nokkurra daga tímabili í fyrrgreindum skóla eftir að forseti landsins hefur verið myrtur og blóðþyrstir Hútúar ganga um götur til að myrða minnihlutahóp Tútsa.
Myndin sýnir glögglega þá hræðslu sem fólkið bjó við ásamt þeim hrylling sem þarna átti sér stað. Við fáum innsýn inn í þá stöðu sem hermenn Sameinuðu þjóðanna voru settir í, þar sem þeir höfðu ekki leyfi til þess að skjóta að hinum trylltu Hútúum nema í sjálfsvörn. Titill myndarinnar vísar í þá staðreynd að hermennirnir höfðu einungis leyfi til að skjóta hundana vegna smithættu eftir mannakjötsát. Þetta aðgerðarleysi Sameinuðu þjóðanna hefur æ síðan verið harðlega gagnrýnt, vegna þess að aðgerðarleysið kostaði rúmlega 800 þúsund íbúa Rúanda lífið.
Aðalleikararnir eru þeir John Hurt sem fer með hlutverk prestins og hinn efnilegi Hugh Dancy sem fer með hlutverk Joe Connor. Flestir kannast eflaust við Hurt úr myndinni V for vendetta þar sem hann fór með hlutverk hins illa forsætisráðherra. Hinn ungi Hugh Dancy er talinn vera ein af vonarstjörnum Bretlands og má eflaust sjá hann blómstra á næstu árum. Leikur þessarra manna er afbragðs góður og sannfærandi, þeir túlka persónur sínar af mikilli sannfæringu og einlægni. Mynd sem hiklaust er hægt að mæla með, 4 stjörnur af fimm mögulegum.