Í 80. skiptið verða Óskarsverðlaunin afhent við hátíðlega athöfn í Kodak leikhúsinu í Los Angeles þann 24. febrúar næstkomandi.
Það sem helst einkennir athöfnina í ár er að engin ein mynd sker sig úr í kapphlaupinu um að vinna til helstu verðlaunanna. No Country for Old Men og There Will Be blood fengu flestar tilnefningar eða átta talsins hvor. Í raun er engin ein mynd sem er með keppanda í öllum fimm stóru flokkunum, sem eru besta- mynd, leikstjóri, leikari í aðalhlutverki, leikkona í aðalhlutverki og handrit. Michael Clayton er eina myndin sem er með fleiri en einn leikara tilnefndan í besta leik eða leikkonu í aðal og/eða aukahlutverki. Það eru níu leikarar sem eru að fá sína fyrstu tilnefningu til Óskarsverðlauna, þrír karlar og sex konur. Hérna ætla ég að stikla á nokkrum af helstu verðlaunaflokkunum og nefni einnig hvaða myndir unnu til Golden Globe og BAFTA verðlaunanna, en það hefur reynst góð vísbending á hverjir koma til með að vinna til Óskarsverðlaunanna.
Besta myndin
Þær fimm myndir sem eru tilnefndar sem besta myndin eru eftirfarandi (í sviga kemur fram fjöldi tilnefninga sem hver mynd fékk): Atonement (7), Juno (4), Michael Clayton (7), No Country for Old Men (8) og There Will Be Blood (8). Atonement vann Golden Globe og BAFTA verðlaunin sem besta myndin. Allar myndirnar eru tilnefndar fyrir besta handrit og einnig er einhver leikaranna tilnefndur úr hverri mynd.
Besti leikarinn
Viggo Mortensen er eini leikarinn sem er að fá sína fyrstu tilnefningu en hann er tilnefndur fyrir hlutverk sitt í Eastern Promises.
Johnny Deep er eini leikarinn, af þeim fjórum sem hafa áður verið tilnefndir, sem ekki hefur unnið til Óskarsverðlauna. Þetta er hans þriðja tilnefning fyrir hlutverk sitt í Sweeney Todd: The Demon Barber Of Fleet Street, en hann vann Golden Globe verðlaunin fyrir það hlutverk.
George Clooney og Tommy Lee Jones hafa aldrei unnið til Óskarsverðlauna fyrir aðalhlutverk en báðir hafa þeir unnið fyrir aukahlutverk. Þetta er þriðja tilnefning hjá Tommy Lee Jones en George Clooney er að fá sína 4 tilnefningu, ef talið er með tilnefningu sem hann fékk árið 2005 fyrir leikstjórn og handrit fyrir myndina Good Night, and Good Luck. Það ár vann hann einnig Óskarsverðlaunin sem besti leikarinn í aukahlutverki í myndinni Syriana.
Daniel Day Lewis er búinn að vinna til Golden Globe og BAFTA verðlauna fyrir hlutverk sitt í There Will Be Blood. Árangur hans er einstakur, en fyrir síðustu 9 myndir sem hann hefur leikið í síðan árið 1989 hefur hann fjórum sinnum verið tilnefndur til Óskarsverðlauna og árið 1989 vann hann fyrir aðalhlutverk í My Left Foot.
Besta leikkonan
Marion Cotillard og Ellen Page eru að fá sínar fyrstu tilnefningar til Óskarsverðlauna. Marion Cotillard vann Golden Globe og BAFTA verðlaunin fyrir hlutverk sitt í La Vie En Rose.
Cate Blanchett er að fá sína fimmtu tilnefningu en hún er einnig tilnefnd fyrir aukahlutverk í ár. Hlutverkið sem hún er tilnefnd fyrir í myndinni Elizabeth: The Golden Age, er í raun sama hlutverkið og hún var tilnefnd fyrir árið 1998 en þá í myndinni Elizabeth. Árið 2004 vann hún fyrir aukahlutverk í The Aviator.
Julie Christie er einnig að fá sína fjórðu tilnefningu fyrir hlutverk sitt í Away From Her en hún vann Golden Globe fyrir hlutverk sitt í þeirri mynd. Hún vann til Óskarsverðlauna árið 1965 fyrir aðalhlutverk í Darling.
Laura Linney sem tilnefnd er fyrir hlutverk sitt í The Savages er að fá sína þriðju tilnefningu, en hún hefur aldrei unnið til Óskarsverðlaunanna. Árið 2004 var hún tilnefnd sem besta leikkona í aukahlutverki fyrir myndina Kinsey, en tapaði fyrir Cate Blanchett í The Aviator.
Besti leikarinn í aukahlutverki
Casey Affleck og Hal Holbrook eru að fá sínar fyrstu tilnefningar til Óskarsverðlauna.
Javier Bardem er að fá sína aðra tilnefningu. Hann er tilnefndur fyrir hlutverk sitt í No Country for Old Men en hann hefur unnið Golden Globe og BAFTA verðlaunin fyrir hlutverk sitt í þeirri mynd.
Philip Seymour Hoffman er tilnefndur fyrir hlutverk sitt í Charlie Wilson´s War, en hann vann árið 2005 fyrir aðalhlutverk í myndinni Capote.
Tom Wilkinson, sem tilnefndur er fyrir hlutverk sitt í Michael Clayton, er að fá sína aðra tilnefningu.
Besta leikkonan í aukahlutverki
Cate Blanchett tilnefnd fyrir hlutverk sitt í I´m Not There en þetta er hennar fimmta tilnefning eins og áður kom fram. Hún vann Golden Globe verðlaunin fyrir þetta hlutverk.
Allar hinar leikkonurnar eru að fá sínar fyrstu tilnefningar. Ruby Dee er tilnefnd fyrir American Gangster, Saoirse Ronan fyrir Atonement, Amy Ryan fyrir Gone Baby Gone og Tilda Swinton fyrir Michael Clayton, en hún vann BAFTA verðlaunin fyrir það hlutverk.
Besti leikstjórinn
Það er enginn í þessum flokki sem hefur áður unnið til Óskarsverðlauna sem besti leikstjórinn. Bræðurnir Joel og Ethan Coen eru að fá sína aðra tilnefningu sem bestu leikstjórar en Joel Coen var áður tilnefndur sem besti leikstjórinn árið 1996 fyrir myndina Fargo (Ethan Coen var ekki titlaður sem leikstjóri þeirra myndar þótt hann hafi komið talsvert mikið við sögu þar). Þeir eru einnig tilnefndir fyrir besta handritið og fyrir bestu myndina með mynd sína No Country for Old Men. Þeir unnu BAFTA verðlaunin fyrir leikstjórn á þeirri mynd.
Paul Thomas Anderson er að fá sína fyrstu tilnefningu sem leikstjóri fyrir myndina There Will Be Blood, en hann er einnig tilnefndur fyrir besta handrit og besta mynd. Hann hefur áður fengið tvær tilnefningar fyrir besta handrit.
Hinar leikstjórarnir eru allir að fá sína fyrstu tilnefningu. Julian Schnabel er tilnefndur fyrir myndina The Diving Bell and The Butterfly, en hann vann Golden Globe verðlaunin fyrir leikstjórn á þeirri mynd. Jason Reitman er tilnefndur fyrir Juno og Tony Gilroy fyrir Michael Clayton en hann er einnig tilnefndur fyrir besta handritið.
Það eru samtals 58 myndir sem eru tilnefndar og flokkarnir í heild eru 24 þannig að þessi þriggja tíma útsending frá Óskarsverðlaununum þarf að renna mjúklega í gegn. Heilmikil dagskrá er inn á milli afhendinga og allar stóru Hollywood stjörnurnar eru að vanda fengnar til að afhenda verðlaunin. Kynnir hátíðarinnar í ár er grínistinn Jon Stewart, en hann var einnig kynnir árið 2006. Hægt er að fara á www.oscar.com og fá ýtarlegan lista yfir alla sem eru tilnefndir.