Jæja! Þá er ég loksins búinn að sjá myndina Hook aftur, eftir margra ára hlé.Þar sem þetta var frábær mynd í minningunni var ég nokkuð kvíðinn að sjá hana aftur. En hér kemur smá gagnrýni á henni:

Myndin fjallar um lögfræðinginn Pétur sem er hinn dæmigerði faðir í Hollywood myndunum: í starfi sem virðist í hans augum vera mikilvægara en fjölskyldan auk þess sem hann er óttalega “fullorðinn”.

Ein jólin, þegar fjölskyldan er í heimsókn hjá konu nokkurri sem var fyrirmynd Wendy í ævintýrinu um Pétur Pan, eru börn Péturs stolin af honum og bréf skilið eftir, undirritað af Hook (Dustin Hoffman). Málið tekur svo undarlega stefnu þegar Wendy (Maggie Smith)útskýrir fyrir honum að hann sé Pétur Pan og Tinkerbell (Julia Roberts) kemur fljúgandi inn í herbergið og flýgur með hann til Hvergilands.

Þar hittir hann týndu drengina (the lost Boys) og þarf að berjast við Hook til að endurheimta börnin sín. Málið flækjist svo enn meira þegar hann þarf að sæta stranga þjálfun til þess að breytast úr hinum áhyggjufulla, fullorðna og jafnvel lofthrædda vinnufíkil í Pétur Pan.

Yfirleitt er ég ekki hrifinn af framhöldum af klassískum myndum og ævintýrum en það verður að segjast eins og er að Steven Spielberg kann að gera góðar kvikmyndir. Söguþráðurinn er rosalega góður, tónlist John Williams skemmtileg(en þó ekki hans besta verk)og útlitslega séð er myndin mjög flott. Einnig er leikurinn almennt góður. Oft er erfitt að hafa börn án allrar leiklistarkennslu í myndum en krakkarnir í þessari stóðu sig með mikilli prýði.

Nokkur atriði voru þó svolítið klaufaleg og sum næstum kjánaleg. Einnig fannst mér sumir brandarar ekki skila sér alveg nógu vel.

En á heildinni litið ein besta framhaldsmynd á sígildri sögu sem ég hef séð og hef ég séð þær margar. (Öskubuska 2, Littla hafmeyjan 2) Ólíkt þessum myndum, sem virðast bara vera til út af peningum og hugmyndaleysi er Hook bæði vönduð og fellur vel inn í hið fallega ævintýri.
Veni, vidi, vici!