Þar sem það er ekki hægt að senda inn könnun og ef svo væri hægt þá myndi hún örugglega ekki koma fram fyrr en eftir nokkra mánuði þá ákvað ég að skrifa grein. Mig langar að spyrja ykkur hvað eru fimm lélegustu myndir sem þið hafið séð og svo líka litla greinargerð um hvers vegna þær myndir komast inn á listann ykkar.
Minn listi er:
1: Anaconda. Ótrúlega leiðinleg mynd með leiðinlegum leikurum. Eric Stoltz er hundleiðinlegur, JLo er leiðinlegri en leiðinlegastur og lélegastur af öllum er rapparinn (man ekki hvað hann heitir). Það sem kemur samt mest á óvart er hversu illa Jon leikur snákafangarann. Ég átti bara erfitt með að ímynda mér að þetta væri hann með þennan furðulega macho svip þegar hann var að tala. Versta atriði myndarinnar er í lok hennar þegar Jon spýtist einhvern veginn út úr snáknum og blikkar Jennifer áður en snákurinn gleypir hann aftur.
2: Godzilla. Alveg ótrúlegt hvernig Hollywood tekst alltaf að gera lélegar myndir með svona óhóflegt fjármagn eins og þessi mynd hafði. Leikararnir hver öðrum tilgerðarlegir og lélegri. Stelpan sem lék fréttamanninn var samt langverst af öllum. Það sem ég skil hinsvegar ekki og kannski eru þetta smámunir hjá mér en það er hvernig Godzilla getur að því er virðist gleypt málm og tuggið hann án þess að meiða sig. Þegar hann gleypir þyrluna úr loftinu þá get ég ekki annað en ímyndað mér að hann hefði fengið einhverjar meltingartruflanir en það er náttúrulega bara ég.
3: Independence day. Ein önnur mynd þar sem peningaflæðið er endalaust en engu að síður þá er ekki hægt að gera almennilega mynd. Leikaravalið í þessari mynd er skömmunni skárri en í godzilla og er þessi mynd í alla staði mun betri en samt sem áður er hún mjög léleg. Öll þessi þjóðernisást fer bara ekki vel ofan í mig, og ég er sjálfur að hluta til Bandaríkjamaður. Ég get bara vel ímyndað mér hversu illa hún fer ofan í aðra Íslendinga.
4: Batman og robin. Ég get ekki annað en fundið til kátínu þegar ég vel þessa mynd. Ég skemmti mér vel yfir fyrri myndunum því þar var ætíð eitthvað sem gerði myndina skemmtilega. Alla þrjár fyrstu myndirnar voru fínar með skemmtilegum og fyndnum vondum gaurum. Vondi maðurinn í Batman og Robin er bara ekki fyndinn, því miður þá er Arnold búinn að sýna það í mörgum grínmyndum. Allir leikararnir keppast við að ofleika en versta frammistaðan er hjá leikkonunum tveimur, Alicia Silverstone og Uma Thurman. Ég taldi ávallt af Uma væri leikkona sem gæti farið með létt hlutverk með ákveðinni fíngerð en svo er ekki. Ótrúlega lélegur endir á góðri kvikmyndaseríu.
5: 5: Brother. Hún er líklegast ekki sú mynd sem ég myndi velja hefði ég gefið mér meiri mynd í fimmta sætið en þessi mynd situr bara svo mikið í mér. Ég hef þegar skrifað einhverja greinargerð um myndina á þessari síðu sem svar við lofgjörð einhvers af myndinni. Ég bara skil ekki hvað allir sjá við myndina. Hún er ótrúlega samhengislaus, ótrúverðug og langdregin!! Atburðarrásin gerist að svo miklu leyti utan skjásins að manni finnst eins og það sé viljandi gert að halda áhorfendanum utan atburðarrásinni. Ekki góð vinnubrögð.
Ég vona að sem flesti skrifi svar því og tel ég að fimmta val mitt á örugglega eftir að valda einhverjum leiðindum.
Greatness:)