Ég er nokkuð viss um að það sé óhætt að fullyrða að Inland Empire er metnaðarfyllsta og persónulegasta kvikmynd sem David Lynch hefur gefið frá sér. Í þessari grein ætla ég að reyna að fjalla um upplifun mína af þessari mynd en ég tek fram að ég er bara búinn að sjá hana einu sinni og því verður þetta líklega ekki alveg nógu góð lýsing á henni. Myndirnar hans Lynch krefjast endurtekins áhorfs og mikillar einbeitningar, þú færð jafn mikið út úr þeim og þú leggur í þær.

Áður en ég byrja vill ég aðeins fjalla um leikstjórann ef einhver skyldi ekki þekkja til hans. David Lynch er einn af mestu ráðgátunum í kvikmyndum í dag. Það sem hann hefur látið frá sér er:

Eraserhead
The Elephant Man
Dune
Twin Peaks (þættir)
Twin Peaks: Fire Walk With Me
Wild at Heart
Lost Highway
The Straight Story
Mullholland Drive

Ásamt fleiru. Mjög skiptar skoðanir eru um myndir hans en flestir eru þó sammála um að hann sé gríðarlega mikilvægur og góður leikstjóri. Hann gerir aðallega óhefðbundnar eða „avant-garde“ kvikmyndir sem erfitt eða ómögulegt getur verið að komast til botns í.

Þá snúum við okkur að efni greinarinnar:

Inland Empire (2006)

Leikstjóri: David Lynch

Laura Dern: Nikki Grace/Susan Blue
Justin Theroux: Devon Berk/Billy Side
Jeremy Irons: Kingsley Stewart
Harry Dean Stanton: Freddie Howard

Auk þess koma fyrir nokkur þekkt andlit í gestahlutverkum s.s. Naomi Watts, Scott Coffey, William H. Macy, Nastassja Kinski, Laura Harring o.fl.

Mjög erfitt er að lýsa því hvað Inland Empire fjallar í rauninni um, sérstaklega eftir aðeins eitt áhorf. Til dæmis bendi ég á „tagline“ myndarinnar sem er einfaldlega:

„A woman in trouble“.

Einnig er hér eitt af því fáa sem David Lynch hefur viljað láta uppi um söguþráð myndarinnar:

„[It’s] about a woman in trouble, and it's a mystery, and that's all I want to say about it“.

En ég ætla þó að gera heiðarlega tilraun til að reyna að segja eitthvað um söguþráð hennar. Myndin fylgir allavega leikkonunni Nikki Grace (Laura Dern) sem fær tækifæri til að leika í stórri kvikmynd. Hún og mótleikari hennar komast þó síðar að því að myndin er gerð eftir pólsku handriti sem reynt var að gera að kvikmynd áður en það endaði með skelfilegum hætti. Eftir það fara skrýtnir hlutir að gerast.

Þetta er eiginlega það eina sem ég vill segja um innihald myndarinnar því ég tel að best er að koma að henni með sem minnstri vitneskju um hana. En ég fullvissa ykkur þó um að ofangreind lýsing er alls ekki tæmandi. Mun meira gerist í henni sem tengist þessu ekki beint (eða hvað?).

Til gamans bendi ég líka á „vísbendingu“ sem Lynch hefur stundum látið hafa eftir sér um hana áður en hann sýnir hana:

„We are like the spider. We weave our life and then move along in it. We are like the dreamer who dreams and then lives in the dream. This is true for the entire universe“.

Það fyrsta sem maður tekur eftir þegar á myndina er horft er hvernig hún er tekin. Lynch skaut alla myndina á Sony DSR-PD150 myndavél og það gefur henni mjög einstakt útlit. Myndin hefur verið gagnrýnd fyrir þetta og réttilega að vissu leyti, t.d. er myndin stundum úr fókus, stundum er of dimmt o.s.frv. en mér finnst þetta passa vel við andrúmsloft myndarinnar og er fullviss um að það var akkurat það sem Lynch var að leita eftir.

Annars hafa gagnrýnendur haft skiptar skoðanir um myndina. Sumir hafa kallað hana meistaraverk og aðrir hafa rifið hana í sig. Það er of snemmt áður en ég get dæmt um það endanlega hvað mér finnst um hana. Til dæmis fannst mér Eraserhead og Mullholland Drive ekkert sérstakar fyrr en við þriðja eða fjórða áhorf. Því er ég fullviss um að skoðun mín á Inland Empire muni einnig breytast. En það sem ég get sagt er að Inland Empire er þvílík upplifun, ekki er hægt að efast um það. Sama hvaða skoðun þú hefur á myndinni þá er ekki hægt að segja að manni leiðist yfir henni.

Ég held að það sem er mikilvægt að hafa í huga er að David Lynch er að prófa algjörlega nýja leið til að gera kvikmyndir hér. Eins og ég greindi frá að ofan þá skaut hann hana alla á tiltölulega ódýrri myndavél og einnig skrifaði hann handritið að atriðinu sem hann var að fara að taka upp kvöldið áður. Því vissu leikararnir ekkert um hvað myndin var fyrr en þeir sáu hana sjálfir í kvikmyndahúsi. Þar af leiðandi má ekki búast við neinni eðlilegri söguframvindu eða uppbyggingu því þá verðið þið eflaust fyrir miklum vonbrigðum (fólk sem þekkir eitthvað til Lynch ætti þó að vita þetta nú þegar). Ég legg til að maður fylgi bara myndinni, einbeiti sér bara af því hvað er að gerast á skjánum án þess að vera að reyna í sífellu að raða hlutunum saman í einhverja skiljanlega heild. Það er ekki það sem Lynch er að fara fram á. Hægt er þó að eyða endalausum tíma í að finna mögulegar lausnir, hluti sem passa saman o.s.frv. en ég tel að aldrei muni vera hægt að finna hina endanlegu skýringu sem tekur fyrir allt sem er að gerast í myndinni.

Annað sem verður að taka fram er leikur Lauru Dern. Persónulega hef ég aldrei verið mikill aðdáandi hennar en hér er leikur hennar vægast sagt ótrúlega góður. Gagnrýnendur hafa líka keppst við að hlaða á hana lofi og reyndi Lynch meira að segja að fá hana tilnefnda til óskarsverðlauna en hafði ekki erindi sem erfiði. En myndin er næstum því þess virði að sjá bara út af stórkostlegum leik hennar, hún leikur einhverjar 3-4 persónur á svo sannfærandi hátt að það er með ólíkindum.

En annars er lítið annað sem vill eða get sagt um myndina. Ég mæli bara með að þið farið að sjá hana, helst í bíó því ég tel að þar nýtur hún sín langbest.

Komið svo endilega með ykkar skoðanir á henni því þetta er mynd sem hægt er að ræða fram og tilbaka.