The Last King of Scotland - Stutt umfjöllun Var að sjá þessa, og tók eftir að enginn hefur skrifað um hana hér, þannig að here I go:

The Last King of Scotland er gerð eftir samnefndri skáldsögu og segir frá Nicholas Garrigan, ungum skoskum lækni árið 1970 sem ólmur vill komast út í heim og upplifa eitthvað nýtt og spennandi. Fyrir algera tilviljun verður Austur-Afríkulandið Úganda fyrir valinu hjá honum. Hann ræður sig á lítinn spítala sem rekinn er af trúboðum, og rekur sig fljótlega á að starfið er ekki jafn ævintýralegt og hann hélt. Hann er þó ákveðinn í að gera sitt besta og kynnast landi og þjóð. Dag einn kemur hinn nýji forseti landsins, Idi Amin í heimsókn til nálægs smábæjar, og fyrir forvitni sakir ákveður læknirinn að fara og sjá hann halda ræðu. Hann hrífst strax að því sem honum sýnist vera hálf-barnaleg einlægni Amins og vilji til að gera hinni vanþróuðu þjóð sinni gott.

Síðar þann dag þegar forsetinn lendir í óhappi og brýtur hönd sína, er Garrigan kallaður til að sinna honum. Hefjast þá kynni hans af Idi Amin, sem eiga eftir að reynast örlagarík. Amin er svo ánægður með lækninn unga að hann ákveður að gera hann að einkalækni sínum.

Myndin segir svo frá samskiptum Garrigans við Amin næstu árin. Í fyrstu er hann haldinn aðdáun á hinum nýja húsbónda sínum, og jafnframt stolti yfir hinni nýju og þægilegu stöðu sinni í “innsta hring” hans. Þetta verður til þess að hann lokar augunum fyrir ýmsu sem miður fer í kringum hann, sem og þeirri sífellt augljósari staðreynd að Amin er geðsjúkur og hættulegur bjáni sem ekkert hefur í embætti þjóðarleiðtoga að gera. Þegar þetta rennur loks endanlega upp fyrir Garrigan, er hann kominn í bráða lífshættu.


Rétt er að taka fram að myndin er aðeins “hálf-sannsöguleg”. Nicholas Garrigan er skáldsagnapersóna. En Idi Amin var raunverulegur, einhver sá alræmdasti og brjálaðasti af mörgum alræmdum og brjáluðum einræðisherrum Afríku. Amin varð á valdatíma sínum “erkitýpan” af afrískum einræðisherra, og fáránleg uppátæki hans (eins og þegar hann nefndi sig “Síðasta konung Skotlands”) urðu aðhlátursefni um allan heim. Úgandabúum þótti hann hinsvegar ekki jafn fyndinn, því menn hans myrtu a.m.k. 300 þúsund þeirra, og var mörgum fleygt fyrir krókódílana í Viktoríuvatni.

Forrest Whittaker kemur geðveikis-duttlungum persónunnar til skila á frábæran hátt. Hann er nánast óhugnanlega góður í þessu í hlutverki, og ætla ég ekki að fara að nota allar klisjurnar um hvernig hann “verður persónan” – Hvet bara þá sem ekki hafa enn séð myndina til að sjá sjálfir. En Forrest hlýtur eftir þetta og Óskarsverðlaunin að skipa sér á bekk með frægustu svörtu stórleikurum eins og Morgan Freeman og Denzel Washington.


Helsti galli myndarinnar er sá að hún reynir ekki að gefa áhforfandanum tilfinningu fyrir heildarsögunni, semagt því sem gekk á í Úganda á valdatíma Amins. Lengst af fáum við aðeins hið þrönga “innsta hrings” sjónarhorn læknisins. Hann veit að ekki er allt með felldu í landinu, fær um það fjölmargar vísbendingar. En hann lokar augunum fyrir því. Betra hefði verið að við fengjum strax frá byrjun betri skýringar á því hvað nákvæmlega það er, sem hann er að loka augunum fyrir. Ekki er öllum jafn kunnugt um sögu Idi Amins.

Tæknilega er ekkert yfir myndinni að kvarta. Hún er klippt á þann “no-frills” máta sem tíðkaðist á þeim tíma sem hún gerist, og jafnframt er áferð myndarinnar oft eins og sú sem við eigum að venjast í ‘70s fréttamyndum. Þetta gefur myndinni meiri raunveruleikablæ, okkur finnst eins og þetta hafi allt raunverulega skeð þá, sé ekki seinni tíma sviðsetning.

Þegar upp er staðið er The Last King of Scotland hin ágætasta mynd þó ekki sé hún gallalaus. Hennar verður líklega helst minnst fyrir frábæran leik Forrests Whittaker.


Að endingu má svo geta þess að þetta er fyrsta “alvöru” myndin sem gerð er um Idi Amin. Árið 1981 var gerð Rise and Fall of Idi Amin: http://www.imdb.com/title/tt0081430/
Þetta svokölluð “exploitation” mynd (megin-áherlsan á sjokk, blóð og ofbeldi). Hún hlaut ekki mikla frægð, en gekk þó sæmilega á hinum þá-nýja vídeómarkaði, enda voru þá sögurnar af Idi Amin enn í fersku minni.

Gíslatakan og árás Ísraelsmanna á Entebbe-flugvöll (sem kemur við sögu í lok myndarinnar) voru efni tveggja mynda. Raid on Entebbe http://www.imdb.com/title/tt0076594/ og hinnar mun slakari Operation Thunderbolt http://www.imdb.com/title/tt0076398/ . Báðar voru gefnar út á vídeómarkaðinn við sæmilegar undirtektir á sínum tíma.
_______________________