Drama / Spennutryllir
Leikstjóri: Joel Schumacher
Handrit: Fernley Philips
Aðalhlutverk: Jim Carrey, Virginia Madsen, Logan Lerman, Danny Huston, Mark Pellegrino, Lynn Collins, Rhona Mitra
Tónlist: Harry Gregson-Williams
Kvikmyndataka: Matthew Libatique
—
Tungumál/Land: Enska/Bandaríkin
Lengd: 95 mínútur
Aldurstakmark: 16
_________________________________________________
Ósköp venjulegur maður (Carrey) verður heltekinn af bók sem virðist vera byggð á hans eigin lífi og hvernig talan 23 kemur við sögu í nánast öllu sem á sér stað í heiminum. Bókin endar svo á hrikalegum verknaði sem á enn eftir að gerast.
_________________________________________________
The Number 23 er nýjasta myndin frá Joel Schumacher sem hefur heldur betur átt skrautlegan feril. Síðast kom frá honum endurgerðin Phantom of the Opera árið 2004 en sú mynd heppnaðist gríðarlega vel. Ferill Schumacher’s er yfir höfuð góður og hefur hann verið óhræddur við að fara nýjar leiðir og má m.a. benda á hina gífurlega vanmetnu mynd hans frá 1999, 8MM. Ef það ætti að líkja The Number 23 við einhverja af eldri myndum Schumacher’s, þá er það án vafa 8MM. Báðar þessar myndir eru dimmar, yfirþyrmandi og svalar. Helsti munurinn er þó sá, að á meðan að 8MM var frábær frá upphafi til enda, þá virðist The Number 23 vera meiri spretthlaupari heldur en maraþonhlaupari.
Hugmyndin á bak við The Number 23 er frábær og fersk. Myndin lifir upp eftir væntingum fyrstu tvo þriðjungana eða svo, en eftir það tekur Hollywood kvikmyndargerðarmennskan við eins og hún gerist best og endar myndin á klisju- og yfirborðskenndan hátt sem skilur ekkert eftir sig.
Myndin er vel gerð og lítur alveg gríðarlega vel út. Þær senur sem sýna hvað er að gerast í bókinni jaðra við það að vera listrænar og án nokkurs vafa eru þær frábært augnkonfekt. Jim Carrey, sem flestir þekkja sem gamanleikara, fer hér með alvarlegt hlutverk og gerir hann það ótrúlega vel. Ekki hans besta frammistaða, en hann er þó klárlega fær um fleira en að leika gamansama hálfvita. Virginia Madsen kemur vel út sem hin áhyggjufulla og elskandi húsmóður, þrátt fyrir að vera ekkert sérlega áberandi í hlutverki sínu. Logan Lerman stendur sig einnig í stykkinu sem sonurinn á heimilinu. Danny Huston var svo feyki fínn en því miður sést full lítið af honum í myndinni.
Myndin byrjar sem áhugaverð og ný taka á spennutryllum og lofar gríðarlega góðu, en svo virðist handritshöfundur myndarinnar, Fernley Philips, missa þráðinn og loka niðurstaðan er hörmung. Ef þú vilt njóta The Number 23, yfirgefðu kvikmyndahúsið þegar, segjum 23 mínútur eru eftir af myndinni.
* * /5
-TheGreatOne