Kvikmyndaklúbburinn Fjalakötturinn hefur göngu sína Kvikmyndaklúbburinn Fjalakötturinn hefur sýningar 25. febrúar næstkomandi. Skráning stendur nú yfir á filmfest.is. Félagsgjald er 4000 krónur og veitir aðgang fyrir einn að öllum sýningum klúbbsins fram í maí auk afsláttarkjara á Alþjóðlega kvikmyndahátíð í Reykjavík sem fram fer í september og október. Stakir miðar verða í boði á 900 krónur.

Alls verða um 25 myndir á dagskrá klúbbsins í vor. Sýningar Fjalakattarins munu fara fram í Tjarnarbíói alla sunnudaga og mánudaga fram í maí. Sýningar fara að sjálfsögðu fram án hlés og leikinna auglýsinga.

Í febrúar verður riðið á vaðið með því að sýna allar myndir James Dean sáluga, auk nýrrar heimildarmyndar um ævi hans og störf. Samhliða því sýnir Fjalakötturinn fjórar rússneskar myndir sem spanna fimmtíu ára tímabil, allt frá árinu 1957 til 2004. Í framhaldinu verða á dagskrá kvikmyndirnar Kyrrmynd (Still Life) og Dong sem gerast báðar á áhrifasvæði stærstu stíflu í heimi í Kína; heimildarmyndar kvikmyndagerðar-mannsins Raymond Depardon, úrval ljósblárra mynda frá Japan áttunda áratugarins, auk sýninga sem annars vegar Kviksaga og hins vegar Reykjavik Documentary Workshop munu standa fyrir. Í haust tekur síðan við nýtt misseri hjá Fjalakettinum, en til stendur að skipta árinu í þrjú misseri í framtíðinni.

Meðlimir munu einnig fá sent ítarlegt fréttabréf sem inniheldur fróðleik og greinar um þætti dagskrárinnar, en einnig upplýsingar um aðra óháða kvikmyndagerð. Þá eru ótalin sérstök kjör á veitingahúsinu Fjalakettinum, Aðalstræti.

Sem fyrr segir er skráning hafin á heimasíðu klúbbsins: filmfest.is, og þar eru einnig upplýsingar um dagskrána sem uppfærast reglulega.

Fjalakötturinn er í samvinnu við fagfélög kvikmyndagerðarmanna og hefur nafn sitt frá samnefndum kvikmyndaklúbbi Friðriks Þórs Friðrikssonar síðan á áttunda áratugnum. Reykjavik Grapevine er styrktaraðili Fjalakattarins og þar verður hægt að nálgast upplýsingar um myndir og sýningartíma.

Hér á eftir fylgir listi og upplýsingar um staðfesta titla fyrir vormisseri 2007:


JAMES DEAN
- febrúar og mars

James Dean er ef til vill eitt þekktasta andlit bandarískrar menningar fyrr og síðar. Allir þekkja söguna af leikaranum snoppufríða sem dó ungur og varð fyrirmynd heillrar kynslóðar, en færri hafa séð myndirnar sem hann lék í, en þær voru þrjár talsins. Þá verður ný heimildarmynd um ævi og störf James Dean sýnd.

Syndir feðranna (Rebel Without a Cause), Nicholas Ray, 1955
Austan við Eden (East of Eden), Elia Kazan, 1955
Risi (Giant), George Stevens, 1956
Eilíf æska (James Dean: Forever Young), Michael J. Sheridan, 2005.

RÚSSLAND FYRR OG NÚ
- febrúar og mars

Rússar eru ábyrgir fyrir nokkrum af merkilegustu kvikmyndaverkum sögunnar. Fjalakötturinn bregður örlítilli ljósglætu á kvikmyndasögu þjóðarinnar með því að sýna eftirfarandi myndir:

Trönurnar fljúga (Letyat zhuravli), Mikheil Kalatozishvili, 1957
Andrei Rublev, Andrei Tarkovsky, 1969
Solaris, Andrei Tarkovsky, 1972
Dauðinn á ferð (Vsadnik po imeni smert), Karen Shakhnazarov, 2004

JAPÖNSK ERÓTÍK: BLEIKAR MYNDIR
- apríl

Á áttunda áratugnum reyndist kvikmyndagerðarmönnum í Japan erfitt að fá fjármagn til að gera myndir nema þær væru ljósbláar (eða bleikar, eins og það var nefnt í Japan). Þessi kreppa leiddi af sér ógrynni af sérkennilegum myndum sem eru ekki erótískar í grunninn þótt frásögnin sveigi inn á þær brautar til að þóknast fjárfestunum. Helsti leikstjóri „bleiku myndanna“ var Tatsumi Kumashiro og því sýnum við þrjár mynda hans:

Rauðhærða konan (Akai kami no onna), Tatsumi Kumashiro, 1979
Ástarinnar krókaleið (Koibito tachi wa nureta), Tatsumi Kumashiro, 1973
Veröld geisjunnar (Yojohan fusuma no urabari), Tatsumi Kumashiro, 1973

ÞRIGGJA GLJÚFRA STÍFLAN: KYRRMYND / DONG
- mars og apríl

Kínverski leikstjórinn Zhang Ke-Jia gerði myndirnar Kyrrmynd (e. Still Life) og Dong eftir að hann heimsótti áhrifasvæði einnar stærstu stíflu í heimi í Yangtze ánni í Kína. Þó að hvorug myndanna fjalli beinlínis um stífluna þá bregða þær ljósi á breytta lífshætti á svæðinu eftir byggingu stíflunnar, sú fyrrnefnda með því að skoða ástarsamband en sú síðari er heimildarmynd um listmálara sem hefur tileinkað ævistarf sitt svæðinu.

Kyrrmynd (Sanxia haoren), Zhang Ke-Jia, 2006
Dong, Zhang Ke-Jia, 2006

RAYMOND DEPARDON
- apríl

Depardon hóf ferilinn sem ljósmyndari og blaðamaður. Hann tók að útbúa fréttir fyrir sjónvarp og kvikmyndahús og í framhaldinu fór hann að gera heimildarmyndir. Á þeim rúmlega fjörutíu árum sem eru liðin frá því að hann gerði sína fyrstu mynd er hann orðinn að einum virtasta leikstjóra Frakklands. Myndir Depardons verða sýndar í samstarfi við frönsku menningarhátíðina „Pourquoi Pas?“. Um er að ræða átta myndir, sjö þeirra í fullri lengd og eina stutta, sem hafa verið teknar saman í þrjá dagskrárhluta sem nefnast Blaðamaðurinn (Le Reporter), Réttlætið (Le Justice) og Bændurnir (Le Monde Paysan). Myndirnar spanna nær allan feril Depardon, eða síðastliðin 33 ár.

1974, une partie de campagne, Raymond Depardon, 2002
Reporters, Raymond Depardon, 1981
Les Années déclic, Raymond Depardon, 1985
Délits flagrants, Raymond Depardon, 1995
10ème chambre, instants d'audiences, Raymond Depardon, 2004
Profils paysans: L'Approche, Raymond Depardon, 2001
Profils paysans: Le Quotidien, Raymond Depardon, 2005
Quoi de neuf au Garet?, Raymond Depardon, 2005

NÝJAR ÞÝSKAR
- febrúar

Harðjaxl (Knallhart, 2006) verður sýnd fyrstu sýningarhelgi Fjalarkattarins. Þar segir frá fimmtán ára dreng úr fínu úthverfi sem neyðist til að flytja í fátæklegt innflytjendahverfi í Berlín með móður sinni, eftir að ríkur elskhugi hennar fleygir þeim út á gaddinn. Leikstjórinn Detlev Buck er þekktur leikari í Þýskalandi sem hefur snúið sér að leikstjórn. Hann hefur aðallega einbeitt sér að gamanmyndum, en Harðjaxl fer myrkari leiðir í frásögn sinni af erfiðu lífi á götum Berlínarborgar.

…OG FLEIRA

Fjalakötturinn er í samstarfi við Kviksögu og Reykjavik Documentary Workshop um reglulegar sýningar á heimildarmyndum auk umræðna. Franska menningarhátíðin „Pourquoi Pas?“ er einnig í samstarfi; auk dagskrárinnar um Raymond Depardon verða franskar stutt- og heimildarmyndir í boði. Þá verður dagskrá með myndum byggðum á sögum Astrid Lindgren verði í boði í vor. Það er því af nógu að taka!