Blood Diamond (2006) * * * * Á tímum borgarstyrjaldarinnar í Sierre Leone á tíunda áratugi síðustu aldar reyna demantasmyglarinn Danny Archer (DiCaprio) og fiskimaðurinn Solomon Vandy (Hounsou) að endurheimta sjaldgæfan, bleikan demant sem getur breytt örlögum þeirra beggja.

_________________________________________________

Blood Diamond er nýjasta kvikmyndin undir stjórn Edward Zwick, en hann er meðal annars maðurinn á bak við myndir eins og Glory og The Last Samurai. Eins og með þær tvær myndir, heldur hann sig hér við stríðsátökin, í þetta sinn einblínir hann á borgarstyrjöldina í Sierre Leona á tíunda áratugi síðustu aldar þar sem barist var hörkulega um demantanámur. Með góðri leikstjórn Zwick, góðu og þéttu handriti og frábærum leik Leonardo DiCaprio má segja að Blood Diamond sé hin fínasta skemmtun, bæði sem hasarmynd og dramatísk frásögn um þær hamfarir sem áttu sér stað í Sierre Leone á þessum tíma.

Blood Diamond er ekki hægt að skilgreina sem frábæra eða stórkostlega mynd. Hún fylgir meginstraumnum að mörgu leiti og heldur sig við þá formúlu sem hefur einkennt hasarmyndir í gegnum tíðina. Siðferðislegi boðskapur myndarinnar og frammistöður Leonardo DiCaprio og Djimon Hounsou lyfta henni þó á hærri stall.

Myndin sýnir, með mikilli nákvæmni þau átök og þau erfiði sem fólk þurfti að ganga í gegnum á þessum tíma og að jafnaði er hasarinn gífurlega skemmtilegur og spennandi. Það er ekki alltaf sem kvikmynd tekst upp að vera fallegur siðferðislegur boðskapur og eiturhörð hasarmynd á sama tíma og á því Blood Diamond hrós skilið. Hasarinn, áthættuatriðin og sprengingarnar eru þarna til að ýta söguþræðinum áfram en ekki bara til að ganga í augu áhorfanda sem gerir þetta akkúrat kvikmynd að mínu skapi.

Mér fannst örlítið vanta upp á frammistöðu Jennifer Conelly og hvergi jafn sáttur með hennar hlut eins og svo oft áður. Samt sem áður tókst henni að skila sínu á þokkalega sannfærandi hátt sem hin ákafa fréttakona sem er staðráðin í því að breyta heiminum. Persóna hennar virðist þó ekki gera mikið fyrir myndina og það virðist eins og henni hafi verið hent inn í myndina til að fylla upp í nokkrar holur í handritinu.

Kvikmynd á borð við þessa blómar og dafnar í takt við leikhópinn, og sem betur fer fara almennt allir leikarar myndarinnar vel með hlutverkin sín. Myndin er yfir höfuð fagmannlega gerð af Zwick og er Blood Diamond talsvert betri en flestar hasarmyndir undanfarna mánuði. Ef spennufíkillinn innra með þér þarf annan skammt, þá er Blood Diamond myndin fyrir þig.

* * * * /5

-TheGreatOne