Hin vægast sagt óvenjulega Hoover fjölskylda leggur af stað í langt ferðalag, staðráðin í að koma yngsta meðlimnum, litlu stelpunni Olive, í fegurðarsamkeppnina ,,Little Miss Sunshine” sama hvað það kostar. Það er svo óþarfi að benda á að fjölskyldan litskrúðuga lendir í alls kyns ævintýrum á leið sinni.
_________________________________________________
Little Miss Sunshine er gamanmynd sem hunsar algjörlega þá formúlu sem Hollywood hefur skapað í kringum þær tegundir kvikmynda á undanförnum árum. Hún fer sínar eigin leiðir og gerir það sem mörgum myndum í sama flokki hefur ekki tekist að gera í þó nokkurn tíma, hún fær mann til að hlæja. Þess vegna verður hún að kallast kærkomin tilbreyting og einstaklega góð byrjun á lofandi ári gamanmynda.
Little Miss Sunshine er ekki fyrsta gamanmyndin til að bjóða upp á ferðalag furðulegrar fjölskyldu, en það væri þó vægt til orða tekið að segja að hún svipar ekki til neinna annarra mynda sem fylgja sömu grunn hugmyndinni. Í stað grunnhyggna persóna, eru þær mannlegar, trúverðugar og, það sem meira er, fyndnar. Þegar líður á myndina byrjar maður að kynnast fjölskyldunni og manni finnst jafnvel eins og maður þekkir hana þegar að lokum kemur.
Myndin grípur þig ekki frá fyrstu mínútunni. Hún sígur hægt og rólega inn, byrjar á því að kynna fjölskylduna, síðan hefst ferðalagið, en það er þó aldrei dauður punktur og myndin almennt fyndin strax frá byrjun.
Ofan á þetta er svo einvala lið leikara sem eru hér hreint og beint frábærir. Hér eru þekkt nöfn eins og Greg Kinnear, Toni Collette, Alan Arkin og að sjálfsögðu hin gríðarlega vinsæli Steve Carrell. Svo er það hin unga Abigail Breslin sem fer með hlutverk litlu stelpunnar Olive og á hún lof skilið fyrir frábæra frammistöðu.
Little Miss Sunshine er nokkuð gróf á tímum og þetta er ekki grínmynd sem höfðar til yngri kynslóðarinnar og alls ekki til þeirra sem taka kvikmyndum of alvarlega. Fyrir alla aðra, er Little Miss Sunshine frábær mynd sem stendur uppi sem, ekki bara frábrugðin öðrum myndum í sama flokki, heldur einnig sem talsvert dýpri og fyndnari en öðrum myndum í sama flokki. Hún er ógleymanlegt ferðalag með ógleymanlegum persónum og þótt bíóárið sé rétt að hefjast, þá er ég ekki frá því að fáár gamanmyndir eiga eftir að feta í sömu fótspor og Little Miss Sunshine á næstunni.
* * * * /5
-TheGreatOne