Bláir, Gráir …og svartir
Bandaríska Borgarastríðið var háð árin 1861-65, eftir áralanga pólitíska spennu milli norðurs og suðurs. Stundum er tilgangur stríðsins einfaldaður í að það hafi beinlínis snúist um þrælahald, (var t.d. oft nefnt “Þrælastríðið” hér á landi). Í raun voru orsakir fleiri og flóknari, og sneru fyrst og fremst að gerólíkum efnahags-hagsmunum landshlutanna. Engu að síður átti þrælahaldsmálið stóran hlut, enda þar um einfalt hugsjónamál að ræða, sem auðvelt var að sameina fólk um. Ágreiningur norðan- og sunnanmanna “kristallaðist” í því máli, og það varð “fókus-punktur” stríðs sem í raun hafði miklu víðtækari orsakir.
Segja má að þrælarnir fyrrverandi, sá þjóðfélagshópur sem nú kallast Afrískir Bandaríkjamenn, hafi liðið fyrir þetta bitbeins-hlutverk sitt í Borgarastríðinu, því öfgar bæði sunnan- og norðanmanna í stríðinu og á eftir bitnuðu einna mest á þeim. Fyrrum þrælar Suðurríkjanna voru nú umsetnir af ofur-velviljuðu sannkristnu hugsjónafólki að norðan sem ólmt vildi draga þá inní bandarískt þjóðfélag í hvelli, algerlega ómenntaða og samfélagslega óviðbúna. Slíkt fólk gerði í raun illt verra, því þrælarnir fyrrverandi voru einnig umsetnir af álíka illviljuðum sunnanmönnum, sem kenndu þeim alfarið um þær hörmungar sem þeir höfðu orðið fyrir í stríðinu, og vildu halda “niggurunum” á sínum stað í þjóðfélaginu.
Í raun tókst hinum síðarnefndu ætlunarverk sitt. Með Borgarastríðinu voru bandarískir svertingjar vissulega lögformlega leystir úr ánauð, og urðu að nafninu til jafnir fyrir lögum. Í Suðurríkjunum var þetta að engu gert á næstu áratugum með ýmsum lagasetningum sem einu nafni voru kölluð “Jim Crow-lög”. Í raun voru svartir annars-flokks borgarar og varla það - einna helst í Suðurríkjunum, en alls ekki bara þar. Það var ekki fyrr en næstum öld síðar að aftur var farið eitthvað verulega róttækt að gera í þeirra málum.
Í millitíðinni var mikið reynt til að sætta norðan- og sunnanmenn, bæði á hinu pólitíska og menningarlega sviði. Ekki að fá þá til að gleyma hinu hrikalega stríði, heldur frekar að minnast þess sem hörmulegra mistaka sem aldrei mætti endurtaka sig. Hafa ber í huga að Bandaríska borgarastríðið var mannskæðasta stríð heims á 19. öldinni, og er enn í dag mannskæðasta stríð Bandaríkjanna hvað varðar eigið mannfall.
Á árunum eftir Borgarastríðið fóru Bandaríkin að þenja sig út og sækja í sig veðrið af krafti sem vart verður jafnað í mannkynssögunni hér eftir. Flóðbylgja evrópskra innflytjenda streymdi nú til landsins, og var (af atvinnurekendum og stjórnvöldum í það minnsta) tekin opnum örmum. Nokkuð var í húfi fyrir innfædda Bandaríkjamenn, jafnt norðan sem sunnanmanna, að sættast og verða “One Nation, Under God”. Innfæddir Bandaríkjamenn fundu fyrir þjóðarstoltinu, og innflytjendur tileinkuðu sér það þegar þeir námu ný lönd í vestri. Þeir flögguðu bandaríska fánanum við býli sín, þó þeir töluðu móðurmálið heima, og sendu börn sín í skóla til að læra sögurnar af George Washington og Abraham Lincoln. Börnum var kennt að landið hefði gengið í gegnum ægilega styrjöld, sem þó hafði orðið til að sameina þjóðina í trúnni á frelsið og lýðræðið. Samkvæmt þessari viðteknu söguskoðun, höfðu bæði norðan- og sunnanmenn einhvernveginn dáið fyrir þennan göfuga málstað, og engu líkara en að stríðið hefði nánast hafist af sjálfu sér – það var í það minnsta hvorugum stríðsaðila að kenna!
Og í allri þessari hrifningu gleymdist nánast þjóðfélagshópurinn sem Borgarastríðið átti að hafa verið háð um. Innflytjendur höfðu tæpast séð svertingja á ævi sinni í Austur-Evrópu, Þýskalandi, Norðurlöndum, Írlandi, eða jafnvel Ítalíu. Kannski höfðu þeir líkt og íslenskir vesturfarar heyrt eitthvað um “blámenn” og séð myndir af þeim í blöðum heima, en aldrei séð þá fyrr en í New York höfn. Ekki margir innflytjendur fluttu suður, flestir settust þeir að í norðurríkjunum eða þá í vestrinu. En sunnanmenn nýttu sér sættirnar við norðrið, og vanþekkingu innflytjenda þar, óspart til að koma sínum boðskap og söguskoðun á framfæri. Í fræðibókum og kennsluefni, og í skáldsögum. Og nú einnig í hinu nýja listformi kvikmynda, og um það fjallar þessi grein…
Þjóðarhríðir D.W. Griffiths
Einn af helstu meisturum þöglu myndanna (og kvikmyndasögunnar almennt) var D.W. Griffith. Hann hafði áður ætlað sér að ná langt í leikhúsbransanum, en uppúr aldamótum 1900 sá hann að jafnvel meiri sóknarfæri voru í hinum nýja og hratt vaxandi kvikmyndabransa. Á fyrstu árum 20. aldar vann hann við fjölmargar af hinum gamansömu stuttu þöglu myndum sem urðu sífellt vinsælli aþreying hjá almenningi.
En hann ætlaði sér meira með kvikmyndalistina. Árið 1915 kom út hans frægasta verk: Fyrsta “stórmyndin”, The Birth of a Nation. Önnur eins mynd hafði alrei áður sést á hvíta tjaldinu. Hér var eitthvað meira en létt afþreying, hér var komin þriggja tíma mynd sem rakti epíska dramatíska sögu, byggða á sögulegum raunveruleika sem elstu menn mundu enn árið 1915. Griffith beitti í fyrsta sinn mörgum helstu aðferðum kvikmyndagerðar sem æ síðan hafa verið standard, en voru þá nýjar fyrir almenningi. Myndin sló enda rækilega í gegn um öll Bandaríkin. Fyrsta kvikmyndasýningin í Hvíta húsinu var haldin þegar Woodrow Wilson forseti varð forvitinn um þessa mynd sem allir töluðu um. Umsögn forsetans hefðu allir Hollywood-menn í dag viljað fá á auglýsingaplaköt stórmynda sinna: "It is like writing history with lightning”.
En þó The Birth of a Nation sé enn í dag viðurkennd sem mikið listaverk og brautryðjendaverk í kvikmyndasögunni tæknilega séð, er efni hennar almennt fordæmt, og ekki nema öfgamenn taka mark á “söguskýringu” hennar. Hún var nefnilega gegnsýrð af samúð með málstað Suðurríkjanna í Borgarastríðinu, og ekki síður af hreinum rasisma, nánar tiltekið hatri á svertingjum.
Of langt mál væri hér að rekja söguþráðinn, en myndin fjallaði um tvær fjölskyldur, norðan- og sunnanmegin, og áhrif Borgarastríðsins á líf þeirra. Síðari hluti myndarinnar, sem gerist eftir stríðið, er sá sem mesta úlfúð hefur vakið. Hér eru suðurríkjamenn sýndir sem saklaus fórnarlömb fégráðugra og hefnigjarnra peningamanna að norðan og handbenda þeirra, hinna nýfrjálsu svertingja sem æða um ruplandi og rænandi. Alræmdasta senan er þegar ein aðalkvenpersónan fleygir sér fyrir bjarg á flótta undan svörtum þrjóti með illan ásetning. (Sá var reyndar leikinn af hvítum leikara með svart meik, því svartir leikarar máttu ekki snerta hvítar leikkonur). En heimamenn snúast til varnar gegn þessu ofbeldi, stofna leynisamtök og snúa vörn í sókn. Norðan-kvikindin og negra-þý þeirra fá makleg málagjöld, og myndin fær þar með sinn “happy ending” eins og vera ber. Ku Klux Klan er hér lýst sem miklum frelsishetjum og föðurlandsvinum.
Furðu lítið var um mótmæli frá menntamönnum gegn þessum boðskap á sínum tíma, aðeins heyrðist frá hinum nýstofnuðu NAACP, Réttindasamtökum blökkumanna. Líklega hefur samt sitt sýnst hverjum, en ekki viljað vera að skemma sættir norðurs og suðurs útaf einni bíómynd, og hvað þá útaf svertingjum. Og í kjölfar vinsælda myndarinnar var “Hefnd Suðursins” haldið áfram í Hollywood, þó svertingjahatrinu væri framvegis stillt í meira hóf – Það hafði þrátt fyrir allt farið afar misjafnlega í áhorfendur, hatursboðskapur var eitthvað sem menn vildu greinilega síður sjá í Hollywood-myndum.
Oh, I wish I was, in the land of cotton…
Sameiginlegt með flestum myndum á þessum tíma sem á einhvern hátt fjölluðu um Borgarastríðið, voru nokkur atriði í söguskoðun og persónusköpun. Í grófum dráttum má draga þau saman í svonefnda “Suðurríkjarómantík”. Suðurríkin, “Dixieland” voru í Hollywood útmáluð sem paradís sveitasælu. Hér var landið fagurt og frítt, og hinar miklu plantekrur með sínum ættar-óðölum báru vott um hagsæld íbúanna. Mannlífið og menningin blómstraði á gömlum grunni “séntilmennsku” og virðingu fyrir föstum siðum og venjum. Efnalitlir menn sem sáust í þessum myndum voru yfirleitt skemmtilegir og hjartahlýjir kallar - þó e.t.v. þætti þeim sopinn góður – og voru ávallt tilbúnir með munnhörpu eða fiðlu ef lífga þurfti uppá myndina með lagi. Þetta var nú eitthvað annað en fyrir norðan, þar sem stórborgamenningin ríkti með sinni stanslausu ys & þys, með tilheyrandi eymd fátæklinga.
Einna ánægðastir með hlutskipti sitt í dixie-paradísinni voru þó þrælarnir. Þeir voru ekki síður söngelskir en fátækt hvítt fólk, og undu sér vel sem vagnstjórar, eldabuskur eða bara við bómullartínslu. Þeir voru húsbóndahollir fram í fingurgóma, og skildu lítt í þessu “afnáms” tali sem barst að norðan. Í stað þess að svertingjar væru sýndir sem nauðgarar og ribbaldar eins og í The Birth of a Nation, voru þeir nú sýndir sem saklausir einfeldningar, hálfgerð börn. Og nú var brátt komið að annarri Hollywood-stórmynd um Borgarastríðið, þar sem þessi sjónarmið voru gegnum gangandi.
Seinni hluti kemur bráðlega, og þar skoðum við hápunktinn á “Hefnd Suðursins”, stórmyndina “Gone with the Wind”. Og síðan hvernig þessi söguskoðun fór smám saman að láta undan síga í Hollywood, og víkja fyrir raunsannari túlkunum samhliða svipuðum straumum í sagnfræði og menningunni yfirleitt.
_______________________