Casino Royale (2006) Casino Royale er 21. Bond myndin og er gerð eftir fyrstu skáldsögu Ian Fleming um persónuna. Daniel Craig fær þarna í fyrsta sinn að spreyta sig sem njósnari hennar hátignar og verð ég að segja að honum tekst bara nokkuð vel til. Maður hélt að maður myndi sakna Pierce Brosnan því hann var jú búinn að skipa sinn sess í þessu hlutverki en Daniel Craig fór nokkuð vel með þetta og stóð sig að mestu með stakri prýði. Eina sem ég get kannski sett út á er að Craig er í nokkrum atriðum hálf ósannfærandi í samræðum, eða svona mér finnst hann ekki nógu ákveðinn í samræðunum. Eva Green er flott sem Bond stúlkan en hún sagði samt í viðtali ekki alls fyrir löngu að hún hefði engan áhuga á því að hreppa þennan titil “Bond gellan” en ég held það sé nú of seint að segjast ekki hafa áhuga á því þegar hún er búin að leika í myndinni. Judi Dench skipar sem fyrr hlutverk M og hún er náttúrlega bara eins og hún er. Illmenni myndarinnar Mr. White er leikinn af Jesper Christensen og hann tók sig bara nokkuð vel út sem illmennið.

Myndin skartar samt alveg ótrúlega svölum atriðum og eru þau mjög vel gerð. Ég held að ég þori að fullyrða að þetta sé fyrsta Bond myndin sem Q kemur ekki við sögu. Eins og flestir vita þá lést Desmond Llewelyn í bílslysi í desember 1999 og var því ekki með í Die Another Day en arftaki hans, John Cleese, þótti greinilega ekki sýna nógu góðan leik í Die Another Day þannig þeir hafa líklega sleppt því að hafa hann með í Casino Royale. Þó hef ég ekki lesið bókina og veit ekki hvort eitthvað hafi verið minnst á hann þar.

Svo er það náttúrlega soundtrackið. Að þessu sinni var Chris Cornell söngvarinn í Audioslave sem fenginn var til þess að syngja Bond lagið og heitir það einfaldlega You Know My Name. Flott lag að mestu leyti en ekkert sérlega líkt öðrum Bond lögum þannig lagað. Eða mér hefði allaveganna aldrei dottið það í hug að þetta væri Bond lag ef ég hefði heyrt það í útvarpinu.

Þegar á heildina er litið þá er Casino Royale bara nokkuð góð Bond mynd og ég gef henni þrjár og hálfa stjörnu. Myndin er að mörgu leyti alveg ofursvöl en það var samt eitthvað… Maður var alltaf að bíða eftir einhverju sem svo bara skilaði sér ekki. Veit ekki hvað það var sem ég var að bíða eftir en kannski bara eitthvað rugl í mér.

Ég hvet alla til þess að skella sér í bíó á Casino Royale. Hún er vel þess virði að og fá sér stóra popp og kók með. Myndin verður sýnd bæði í lúxussalnum í Smárabíó og einnig í V.I.P salnum í Sambíóunum Álfabakka svo þeir sem vilja njóta hennar út í ystu æsar ættu að nýta sér þá kosti.
Forsalan er hafin og hægt að kaupa miða í kvikmyndahúsunum núna eða bara fara inná www.midi.is og kaupa sér miða þar.
Cinemeccanica