Bandaríkjamaðurinn Paul Giamatti er tvímælalaust einn besti skapgerðar-/aukaleikari samtímans. Komiði honum ekki fyrir ykkur? Hann er lítill, léttkrullhærður, nokk feitur með framstæðan góm og leikur nánast alltaf menn sem verða undir í lífinu. Þetta er maður sem mun seint verða valinn “Sexiest man alive” í helvítis hégómadrulluritum á borð við Vogue. Það er öruggt. Eitt mikilvægasta hlutverk sitt til þessa hlaut hann þegar meistari Milos Forman fékk hann til að leika Bob Zmuda, sædkikkið hans Andy Kaufman í dramamyndinni “Man on the Moon” með Jim Carrey. Þar sýndi hann snilldartakta ásamt meistara Carrey, sérstaklega þegar þeir léku báðir gervipersónubjánann kostulega Tony Clifton. Giamatti hefði að mínu mati átt að verða tilnefndur til óskarsverðlauna fyrir aukahlutverk í kvikmyndinni, um útvarpsmanninn Howard Stern, “Private Parts”. Þar lék hann yfirmannsaumingjann hjá NBC, sem Stern niðurlægði ótt og títt, svo eftirminnilega að ég hef sjaldan séð annað eins. Atriðið í bláblá-endann á þeirri mynd (á eftir kreditlistunum) þegar Giamatti lýsir biturð sinni í garð Stern, er snilldarlega leikið og með fyndnustu atriðum kvikmyndasögunnar (quote: “There ain´t no god above while Howard Stern is walking the earth”). Þetta er leikari sem stelur ÖLLUM atriðum sem hann er í. Giamatti lék m.a. starfsmann sjónvarpsþáttarins í “The Truman Show” með Jim Carrey, fórnarlamb gíslatöku Samuels Jackson í “The Negotiator” með Kevin Spacey, var einn af öpunum í “The Planet of the apes” eftir Tim Burton og svo lék hann athyglisvert burðarhlutverk í mjög góðri, sannsögulegri sjónvarpsmynd frá HBO (sem er eina stöðin sem kann að búa til góðar sjónvarpsmyndir), um blaðamanninn Winchell, sem annar snillingur, Stanley Tucci, lék.
Giamatti verður seint eftirsótt stórstjarna. Í henni Hollywood þurfa menn víst að hafa “súkkulaði” í sér til þess. Það hefur hann ekki. En ég vill sjá hann í enn stærri hlutverkum. Þetta er maður sem býr yfir gríðarlegum leiklistarhæfileikum og sanniði til, það er aðeins tímaspursmál hvenær þessi maður fer að hljóta verðskuldaða athygli….. það er, athygli fjöldans.