Borat: Cultural Learnings of America for Make Benefit Glorious Nation of Kazakhstan Leikstjóri: Larry Charles
Handrit: Sacha Baron Cohen, Anthony Hines og fleiri.
Aðalhlutverk: Sacha Baron Cohen, Ken Davitian og Luenell.

Borat skellti sér á toppinn í Bandaríkjunum nú um helgina en hún halaði inn 26,4 milljónir dala. Það er svo sem ekki mikið en miðað við að Borat er óþekktur karakter í Bandaríkjunum og Sacha Baron Cohen einnig alveg óþekktur, verður árangurinn að teljast nokkuð góður.

Á imdb.com fær myndin 8,5 af 10 í einkunn sem er með því hærra sem gamanmyndir hafa nokkurn tímann fengið. Það er nokkuð gaman að fylgjast með umræðunni á imdb.com um myndina en margir halda að Borat sé alvöru persóna sem kemur frá Kasakstan og er í alvörunni að gera þátt um menningu Bandaríkjanna, að hann sé ekkert að grínast með þetta. Það gerir þetta ennþá fyndnara því eins og flestir vita eru Bandaríkjamenn einstaklega viðkvæm þjóð sem móðgast við minnsta tilefni.

Ég skellti mér á Borat í gær og hún er vægast sagt alveg ógeðslega, brjálæðislega, viðbjóðslega drepfyndinn. Sacha Baron Cohen er snillingur, hann er fæddur gamanleikari og er einstaklega laginn við að snúa öllum aðstæðum upp í drepfyndið grín. Oft á tíðum hugsaði maður: “Hvað gerir hann næst?” því hvað eftir annað tókst honum að toppa sjálfan sig með hnyttnum athugasemdum. Myndin heldur nánast alltaf dampi og næstum öll atriðin eru hrikalega fyndin þó sum séu fyndnari en önnur.

Borat: Cultural Learnings of America for Make Benefit Glorious Nation of Kazakhstan fjallar um hvernig kasakski fréttamaðurinn Borat leggur leið sína til New York til þess að læra um menningu Bandaríkjanna. Til að byrja með tekur hann viðtöl við hina ýmsa Kana, m.a. einn mann sem kennir Borat að vera fyndinn en eins og honum er einum lagið snýr hann út úr svo úr verður vandræðalegt atriði en virkilega fyndið. Þegar Borat er búinn að vera í NY í tvo daga, er hann að horfa á Baywatch á hótelherberginu sínu og sér þar CJ Parker sem var einmitt Pamela Anderson í Strandvarðaþáttunum. Hann verður ástfanginn og sannfærir aðstoðarmanninn sinn Amazat til að ferðast þvert um Bandaríkin til Los Angeles en þar á einmitt CJ heima. Leiðin er löng og ströng fyrir Borat og aðstoðarmann hans þar sem mörg fórnarlömb lenda í klóm Borats. Þar ber hæst að nefna kurteisis/mannasiði-námskeiðið sem Borat fer á en ég grenjaði úr hlátri yfir því atriði.

Brandararnir eru flestir hverjir einstaklega lágkúrulegir að það liggur við að maður vorkenni viðmælendum Borats sem vita ekki hvernig þau eiga að haga sér. En það er einmitt það fyndna við myndina, fólkið gerir sér grein fyrir því að Borat kemur frá Kasakstan og það er mikill menningar munur á löndunum tveimur svo það sýnir honum mikla þolinmæði og skilning. Þar sem Borat er múslimi, kennir hann gyðingum um allt það slæma í heiminum og telur alla gyðinga ógn við mannkynið og að þeir séu réttdræpir. Og þegar hann hittir gyðing, þá verður hann lafhræddur við að hann ætli að drepa sig.

Þegar öllu er á botninn hvolft, þá er Borat fyndnasta mynd síðan Wedding Crashers kom út í fyrra. Það mætti jafnvel taka dýpra í árinni og segja að Borat sé hugsanlega fyndnasta mynd allra tíma því að mínu mati er Wedding Crashers sú allra fyndnasta mynd sem ég hef séð, ásamt Borat. Þegar maður kemur út úr bíóinu, þá verkjar manni í magann, augun og munninn.

Ég mæli hiklaust með Borat fyrir þá sem vilja leita að mikilli skemmtun og taka góða magaæfingu í leiðinni.
Lífið gengur út á að vera númer 1, ekki númer 2.