Down to Earth
Þegar grínarinn Chris Rock kom fyrst fram á sjónarsviðið í Saturday Night Live var ljóst að hér væri á ferðinni mjög fær og skemmtilegur grínari. Ferill hans hefur verið upp og ofan og hefur hann m.a. gert góða hluti með spjallþátt sinn á kabalstöðinni HBO. Í þessari nýjustu mynd leikur Chris sendil sem dreymir um frama sem standup grínari. Hann lendir í slysi og er fyrir mistök kallaður til himna. Til þess að leiðrétta mistökin er hann settur í líkama manns sem er nýdauður en enginn veit að er dauður. Sá galli er á gjöf njarðar að maðurinn er miðaldra, ríkur og það sem verst er hvítur. Hvernig á hann að geta fengið fólk til að hlæja að sér í þessum líkama? Hljómar þessi söguþráður kunnuglega? Ef þú hefur séð myndina Heaven Can Wait frá árinu 1978 með Warren Beatty í aðalhlutverki þá er ljóst að hér er um endurgerð að ræða. Það sem meira er þá er endurgerðin nokkuð trú fyrri myndinni sem sjálf var endurgerð á myndinni Here Comes Mr. Jordan frá árinu 1941. Í mynd Beatty var um að ræða fótboltakappa (þá á ég við amerískan fótbolta) en semsagt grínara í þessari nýjustu útgáfu. Chris Rock stendur vel fyrir sínu í þessari léttvægu gamanmynd og heldur í raun myndinni uppi. Aðrir leikarar standa sig ágætlega í sínum hlutverkum og má þar sérstaklega nefna Mark Addy (A Knight´s Tale, The Full Monty) og Chaz Palminteri (The Usual Suspects) en fer sá síðarnefndi á kostum sem Hr. King sem er næstur Guði í að stjórna hinum mikla skemmtistað sem himnaríki er. Hr. King líkist einna helst Tony Soprano eða öðrum slíkum mafíósum í hegðun og talanda. Ef þú hefur séð Heaven Can Wait þá muntu kannast mjög vel við framvindu þessarar myndar en það sem bætist við er húmor Chris Rock sem stendur sig með mikilli prýði. Létt gamanmynd sem fær mann til að brosa.