David Lynch er einn af mínum allra uppáhalds kvikmynda leikstjórum og þess vegna hef ég ákveðið að skrifa um hann hérna.
Það má segja að David Lynch sé einn furðulegasti, skrýtnasti og jafnframt frumlegasti kvikmyndaleikstjóri okkar tíma og síðustu þrjátíu ára enda eru verk hans í senn óskiljanleg, áhugaverð, fáránleg, hrollvekjandi, spennandi, stórfurðuleg og reyna jafnframt á öll þau skilningarvit sem mannskepnan býr yfir til þess eins að geta botnað eitthvað í því endalausa flæði drauma og martraða sem ráða ríkjum í nær öllum verkum hans.
Ég segi verk, því að það er í raun ekki hægt að skilgreina það sem hann hefur gert í gegnum árin sem eitthvað ákveðið form kvikmyndalistar enda er David Lynch ekki sá maður sem heldur sig við ákveðin skilgreind mörk, hann setur mörkin. Ég ætla nú að fara yfir feril hans og ævi og mun ég skipta því í viðeigandi kafla.
1946 – 1966: Uppvaxtarár og að upphafi kvikmyndaferils.
David Lynch fæddist þann 20. janúar árið 1946 í smábænum Missoula, Montana í Bandaríkjum Norður-Ameríku. Hann ólst upp við nákvæmlega þær smábæjar-aðstæður sem eru svo kunnuglegar frá t.d. Twin Peaks, Blue Velvet og öðrum verka hans og hefur það án vafa haft stór áhrif á hans uppeldi og verk síðar meir.
Faðir hans var rannsóknarvísindamaður við landbúnaðar ráðuneytið og móðir hans vann við tungumála kennslu. Hann öðlaðist stöðu Arnarskáta, hæstu mögulegu gráðu drengjaskáta og þjónaði við vígslu John F. Kennedy’s til forseta 15 ára að aldri. David Lynch byrjaði snemma að teikna og mála og var það eitt hans helsta áhugamál og það sem leiddi hann síðar út í kvikmyndagerð.
Gagnstætt flestum öðrum kvikmyndagerðamönnum hafði hann engan sérstakan áhuga á kvikmyndum og hefur hann sjálfur lýst því hvernig hann uppgötvaði hvernig það væri ef að ef myndir hefðu hljóð og hreyfðust. Þetta gæti útskýrt frumleika mynda hans og það hversu ólíkar öðrum myndum þær eru að stórum hluta.
Eftir að hafa lokið gagnfræðiskóla stundaði hann nám í listaskólum í höfuðborginni Washington og Boston og ferðaðist síðan til Evrópu með vini sínum Jack Fisk í því skyni að læra hjá Þýskum málara. Þó að hann hafi ætlað að vera þar í nokkur ár sneri hann aftur til Bandaríkjanna eftir aðeins 15 daga. Í staðinn flutti hann til Philadelphiu og stundaði nám í listaskóla þar sem hann gerði sínar fyrstu stuttmyndir.
1966 – 1980: Fyrstu Skrefin.
Árið 1966 eftir að hann hafði sest að í Philadelphiu gerði hann sína fyrstu stuttmynd Six Figures Getting Sick. Eftir það gerði hann þrjár aðrar stuttmyndir The Alphabet (1968), The Grandmother (1970) og The Amputee (1974).
Árið 1971 flutti hann til Los Angeles og hóf vinnu við Eraserhead, sína fyrstu mynd í fullri lengd. Það var þá sem hann vann fyrst með Jack Nance, en hann átti eftir að hafa misstór hlutverk í öllum myndum Lynch’s (fyrir utan The Elephant Man) allt fram til dauða síns.
Vegna skorts á fjármagni reyndist það heldur erfitt að gera myndina og var hún kvikmynduð öðru hvoru allt fram til ársins 1977 þegar hún var gefin út. Þó að hún hafi ekki verið mjög vinsæl vakti myndin töluverða athygli fjölda fólks m.a. leikstjóranna Francis Ford Coppola sem er sagður hafa haldið sýningar fyrir starfslið sitt við tökur á Apocalypse Now, Stanley Kubrick sem nefndi hana sem eina af sínum uppáhalds myndum og hélt sýningar á henni við tökur The Shining til þess að koma leikurunum í það skap sem hann vildi láta einkenna myndina, Mel Brooks (já, sá Mel Brooks) sem síðan réð Lynch til þess að leikstýra The Elephant Man, og George Lucas sem síðan bauð Lynch að leikstýra Return of the Jedi.
Einnig öðlaðist myndin nánast samstundis svokallaðan “költ” status og var sýnd á miðnætursýningum næsta áratuginn. Eraserhead er álitin af mörgum ein af allra skrítnustu myndum David Lynch og stendur hún fyllilega undir þeim skilyrðum enda nánast gjörsamlega óskiljanleg í alla staði.
Myndin fjallar í stuttu máli um Henry Spencer leikinn af Jack Nance og þær hremmingar sem hann lendir í eftir að kona hans eignast viðbjóðslegt stökkbreytt barn. Eigin persónulegu lífsreynslur David Lynch’s s.s. ótti hans við það að verða í fyrsta sinn faðir 21 árs að aldri og það að hafa gengið í skóla í sérstaklega ofbeldismiklu hverfi í Philadelphiu höfðu mikil áhrif á myndina og má segja að hún líkist að sumu leiti hans eigin ævi á þessum tíma.
1980 – 1990: Frá Indie til Hollywood.
Árið 1980 fékk David Lynch sitt fyrsta stóra tækifæri eða “break” þegar leikstjórinn og framleiðandinn Mel Brooks réð hann til þess að leikstýra The Elephant Man, mynd um ævi Joseph Merrick’s Breta á Viktoríutímabilinu sem þjáðist af hræðilegum sjúkdómi sem afskræmdi allan líkama hans. Myndin vakti mikla athygli og varð geysilega vinsæl og var tilnefnd til 8 Óskarsverðlauna þ.á.m. til besta leikstjóra í fyrsta sinn fyrir David Lynch.
Þó að The Elephant Man sé ekki á meðal þeirra mynda sem aðdáendur David Lynch halda mest uppá er hún oft álitin ein af hans bestu myndum og markaði stór tímamót í ferli hans. Vinsældir The Elephant Man leiddu til þess að Lynch samþykkti að leikstýra mynd eftir vísindaskáldsögu Frank Herbert’s Dune.
Það var Ítalski framleiðandinn Dino De Laurentiis sem fékk David Lynch til að ganga til liðs við verkefnið með því skilyrði að hann fengi síðan að leikstýra annarri mynd þar sem hann hefði fullkomið frelsi til að gera það sem hann vildi. Dune reyndist vera hreint og beint stórslys.
Myndin sem hafði kostað yfir 40 milljónir dollara í framleiðslu stóð engan veginn undir væntingum og var sniðgenginn af bæði gagnrýnendum og áhorfendum. Flestir eru sammála um að myndin sé sú versta frá David Lynch og er hann sjálfur á sama máli enda var henni gjörsamlega slátrað af kvikmyndaverinu sem klippti hana á þann hátt að söguþráðurinn varð nánast óskiljanlegur.
Seinna var gefin út lengd sjónvarpsútgáfa án leyfis David Lynch og lét hann skipta út nafni sínu fyrir dulnefnin Alan Smithee (nafnið sem er oftast notað þegar leikstjórar láta fjarlæga nafn sitt frá kvikmyndum) og Judas Booth (samblanda af nöfnum Júdasar Ískaríot og John Wilkes Booth morðingja Abraham Lincoln). Þrátt fyrir stórslysið sem Dune varð stóð Dino De Laurentiis við orð sitt og gaf David Lynch fullkomið frelsi til að vinna að sinni næstu mynd, Blue Velvet.
Sú mynd átti eftir að festa hann í sessi sem einn virtasta Bandaríska leikstjóra samtímans og er af mörgum álitin ein af hans allra bestu myndum. Fyrir aðalhlutverkin fékk David Lynch til liðs við sig leikarana Kyle MacLachlan (sem einnig hafði leikið aðalhlutverkið í Dune), Laura Dern, Isabella Rossellini og Dennis Hopper sem illmennið, en frammistaði hans í myndinni er af mörgum álitinn sú allra besta í ferli hans.
Myndin segir frá unga manninum Jeffrey (MacLachlan) sem eftir að hafa fundið afskorið mannseyra á víðavangi uppgötvar að friðsæli smábærinn Lumberton er ekki allur þar sem hann er séður. Myndin fékk mjög jákvæð viðbrögð í heildina séð og voru margir kvikmyndagagnrýnendur sammála um að hér væri á ferðinni sannkallað meistaraverk og fékk David Lynch sína aðra Óskars tilnefningu en þó voru skiptar skoðanir og var t.d. Roger Ebert sérstaklega ósanngjarn í garð myndarinnar og gaf henni einungis 1 stjörnu en hann er einmitt þekktur fyrir að gjörsamlega rakka niður myndir David Lynch.
Myndin markaði einnig önnur tímamót þar sem þetta var fyrsta mynd Lynch þar sem Angelo Badalamenti samdi tónlistina en hann hefur síðan þá samið tónlistina í öllum verkum hans.
1990 – 1994: Sjónvarpsárin.
Árið 1990 var stórt ár fyrir David Lynch, það var þá sem sjónvarpsserían Twin Peaks sem átti eftir að verða einn stærsti sjónvarps viðburður allra tíma var fyrst sýnd og einnig kom út myndin Wild At Heart sem vann m.a. Gullpálmann á Cannes kvikmyndahátíðinni.
Wild At Heart sem var byggð á samnefndri skáldsögu eftir Barry Gifford fjallar um parið Sailor og Lula sem fara í ferðalag eftir Bandaríska þjóðveginum og reyna að flýja undan öllum þeim furðufuglum sem móðir Lulu hefur ráðið til þess að drepa Sailor. Með aðalhlutverkin fóru Nicolas Cage, Laura Dern. Diane Ladd (sem leikur móður Lulu og er einnig alvöru móðir Lauru Dern) og Willem Dafoe en myndin skartaði líka fjölbreyttu liði leikara í smærri hlutverkum s.s. Harry Dean Stanton, Crispin Clover, Isabella Rossellini, Freddie Jones en einnig höfðu líka nokkrir leikaranna í Twin Peaks hlutverk.
Í myndinni eru margar tilvísanir til m.a. sögunnar um Galdrakarlinn í Oz og Elvis Presley en það sem er sennilega eftirtektarverðast fyrir okkur Íslendinga er það að kvikmyndaframleiðandinn Sigurjón Sighvatsson var einn af framleiðundunum en hann hefur einnig unnið með David Lynch í öðrum verkefnum.
Það var sjónvarpsframleiðandinn Mark Frost sem David Lynch vann með að Twin Peaks þáttunum og var fyrsti þátturinn sýndur á ABC sjónvarpsstöðinni þann 8. apríl 1990. Þættirnir fjalla um íbúa í Bandaríska smábænum Twin Peaks og þau áhrif sem hrottalegt morð unglingsstelpu úr bænum hefur á líf þeirra og morðrannsóknina sem fylgir.
Bærinn virðist við fyrstu sýn vera ósköp venjulegur og friðsæll og fullkominn vinalegur smábær en það kemur brátt í ljós að það er alls ekki allt sem sýnist og allir hafa leyndarmál að fela. Að þessu leiti líkjast þættirnir mjög Blue Velvet en Kyle MacLachlan fer einnig með eitt aðalhlutverkið í þeim. Kynningarþátturinn sem var hvorki meira né minna en 1 og hálfur tími á lengd (lengri en Eraserhead) var tekinn með auka endi til þess að það væri hægt gefa hann út á myndbandi ef að það skyldi ekki vera gerð þáttaröð.
Það reyndist ekki vera mikil þörf á því enda urðu þættirnir svo vinsælir að þeim hefur verið líkt við menningarlegt stórfyrirbrigði og enn þann dag í dag hefur ekkert af verkum David Lynch fengið svipaðar vinsældir. Þegar á seinni seríuna leið féllu áhorfskannanir niður töluvert og eins og með svo marga aðra góða sjónvarpsþætti var þeim aflýst árið 1991.
Árið 1992 gerði David Lynch svo kvikmyndina Twin Peaks: Fire Walk With Me sem gerist viku fyrir morðið á Lauru Palmer og segir frá afdrifum hennar, en sú mynd misheppnaðist algjörlega í miðasölunni og fékk mjög neikvæðar gagnrýnir. Á meðan þáttunum sjálfum stóð voru einnig gefnar út þrjár meðfylgjandi Twin Peaks bækur: The Autobiography of F.B.I. Special Agent Dale Cooper: My Life, My Tapes sem var skrifuð af syni Mark Frost og er safn af afritum eftir upptökunum sem FBI fulltrúinn Dale Cooper (MacLachlan) gerir í hverjum þætti fyrir Diane, The Secret Diary of Laura Palmer skrifuð af dóttur David Lynch og er safn af dagbókarfærslum skrifuðum af Lauru Palmer allt fram að morði hennar og einnig var gefin út bókin Twin Peaks: An Access Guide to the Town sem er skopstæling á ferðahandbók og segir frá bænum.
Næstu verkefni David Lynch’s voru líka í sjónvarpi en frá 1992-1993 vann hann að þáttunum On the Air og Hotel Room. On the Air fjallar um þau skrípalæti sem eiga sér stað í sjónvarpsþætti á 6. áratugnum og Hotel Room segir frá þeim atburðum sem eiga sér stað í sama hótelherberginu á árunum 1936, 1969 og 1992.
1997-2006: Breyttir Tímar og Nýjar Stefnur.
Lynch vann aftur með Barry Gifford höfundi Wild At Heart árið 1997, en hann skrifaði handritið ásamt David Lynch að mynd hans Lost Highway. Þó að myndin hafi ekki verið mjög vinsæl og fengið blendin viðbrögð gagnrýnenda (“tvo þumla niður” frá Siskel & Ebert) hefur hún síðan orðið að sígildri Lynch mynd í augum aðdáenda hans og er hún af mörgum álitin ein af hans betri myndum.
Það að ætla að reyna lýsa Lost Highway í nokkrum málsgreinum er næstum ómögulegt og hreinlega bara spillandi fyrir þá sem ekki hafa séð hana en það er hægt að segja það án nokkurs vafa að hún er ein sú furðulegasta og áhugaverðasta mynd sem hefur komið út á síðari árum og fullkomin Lynch formúla með tilheyrandi furðulegheitum, hryllingi, ráðgátum, spennu og er alveg mögnuð kvikmynda upplifun sem allir ættu að kynna sér.
Með aðalhlutverkin fóru Bill Pullman, Patricia Arquette og Balthazar Getty en með önnur hlutverk fóru Robert Loggia, Robert Blake, Richard Pryor og Jack Nance (báðir í sínum síðustu hlutverkum). Lögin í myndinni sem voru eftir tónlistarmenn og hljómsveitir eins og t.d. Rammstein (sem er uppáhaldshljómsveit David Lynch), Marylin Manson (sem sést í örhlutverki nálægt endanum), Nine Inch Nails og Smashing Pumpkins hjálpaði sennilega David Lynch að hluta við að öðlast nýja unga aðdáendur.
Árið 1999 kom David Lynch öllum á óvart og leikstýrði myndinni The Straight Story í samstarfi við Disney, myndin sjálf er sennilega ólík öllu öðru sem hann hefur áður gert og náði til nýrri og fjölbreyttari áhorfenda heldur en aðrar myndir hans höfðu gert. Myndin sem er byggð á sannri sögu fjallar um gamlan mann sem leggur af stað í 300 mílna ferðalag á garðsláttuvél til þess að reyna að sættast við veikan bróður sinn sem hann hefur ekki hitt í áraraðir.
Myndin var jafnframt sú síðasta sem leikarinn Richard Farnsworth lék í en hann framdi sjálfsmorð ári síðar áttræður að aldri, dóttir hans var leikin af Sissy Spacek og Harry Dean Stanton lék bróðurinn.
Næst reyndi David Lynch aftur fyrir sér í sjónvarpsbransanum og fékk grænt ljós frá ABC sjónvarpsstöðinni að leikstýra tveggja tíma löngum kynningarþætti fyrir seríuna Mulholland Drive.
Sjónvarpsþáttunum var aflýst en með hjálp frá frönskum dreifingaraðilum breytti Lynch kynningarþættinum í mynd og var hún gefin út árið 2001. Mulholland Drive er alls ekki ósvipuð Lost Highway enda er hún með hans skrítnustu myndum og hefur hvorki reglulegan né skiljanlegan söguþráð.
Þær Naomi Watts og Laura Elena Harring eru í aðalhlutverkunum í Mulholland Drive og í öðrum hlutverkum eru m.a. Justin Theroux, Ann Miller, Michael J. Anderson, Robert Forster, Angelo Badalamenti ofl. Það þarf varla að taka það fram að myndin vakti mikla athygli og var lofuð af gagnrýnendum almennt og meira að segja David Lynch-hatarinn Roger Ebert gaf myndinni fjórar stjörnur.
Einnig vann Lynch verðlaun sem besti leikstjóri á Cannes kvikmyndahátíðinni og frá Kvikmyndagagnrýnenda Samtökum New York Borgar. Myndinni er best lýst sem dularfullri ráðgátu um myrku hliðar Hollywood sem umlykur tvær konur og teygir sig yfir drauma og martraðir á sama tíma.
Næstu árin vann hann að margskonar verkefnum í tengslum við vefsíðu sína davidlynch.com og leikstýrði m.a. þáttunum Dumbland (sem voru síðan gefnir út á DVD), Rabbits og stuttmyndinni Darkened Room.
David Lynch kláraði nýjustu mynd sína Inland Empire fyrir ekki svo löngu síðan og var hún frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum þann 6. september þar sem honum voru veitt heiðursverðlaun fyrir ævistörf sín og framlag sitt til kvikmyndalistarinnar.
Inland Empire var kvikmynduð að mestu leiti í Póllandi og var það jafnframt í fyrsta skipti sem hann notaði stafræna tækni til kvikmyndatöku, en David Lynch hefur heitið því að hætta alveg að notast við filmur á meðan aðrir leikstjórar svo sem Martin Scorcese, Oliver Stone og Steven Spielberg hafa heitið því að notast aldrei við stafræna tækni.
Enn sem komið er hafa bara verið haldnar nokkrar sýningar á myndinni og er ennþá ekki einu sinni komið út sýnishorn eða plakat fyrir myndina. Þó er vitað að hún fjallar að einhverju leiti um leikara sem fá það verkefni að leika í kvikmynd saman og verða ástfanginn en svo fer þeirra persónulega líf að blandast saman við myndina og eftir það verður erfitt að skera úr um hvort þau séu þau sjálf eða persónurnar sem þau eru að leika.
Það eru Laura Dern og Justin Theroux sem leika leikarana, Jeremy Irons leikur leikstjórann og einnig leika Harry Dean Stanton, Grace Zabriskie, Scott Coffey ofl. í myndinni.
Hugleiðingar um David Lynch.
Það stundum sagt um myndir David Lynch’s að þú annaðhvort elskir þær eða hatir þær. Það er að mörgu leiti satt enda er varla hægt að hafa hlutlausa skoðun eða finnast eitthvað jafn sérstakt og undarlegt eins og t.d. Lost Highway og Eraserhead bara svona mitt á milli.
Annaðhvort nær maður því eða maður nær því ekki. Það sem er nefnilega öðruvísi við David Lynch myndir en aðrar myndir er að það er eiginlega ekki hægt að læra að meta þær, þær eru nefnilega svo sérstakar og sér á báti og það er eiginlega ekkert annað sem er líkt þeim sem er í gangi í dag fyrir utan kannski nokkra “indie” kvikmyndaskóla nemendur.
Eins og með flest annað þá eru sennilega jafnmargir sem hata myndir hans og þeir eru sem dýrka þær. Hatursmenn David Lynch hafa allir margskonar rök fyrir því af hverju myndir hans séu lélegar en næstum því öll þeirra er hægt að afsanna með einfaldlegum rökræðum.
Það sem nær alltaf er sagt af Lynch-höturum er það að myndir hans séu merkingarlausar og óskiljanlegar.
Það er að mörgu leiti satt, en þarf virkilega alltaf allt að hafa einhverja sérstaka þýðingu, getur ekki kvikmynd bara staðið fyrir sínu sjálf og bara verið eins og hún er án þess að það þurfi að mata hvert einasta atriði og atburð með teskeið ofan í fávísa kvikmyndahúsgesti sem geta ekki séð út fyrir það sem gerist á tjaldinu og myndað sínar eigin skoðanir.
Það á líka heldur ekki að pæla um of í David Lynch myndum, ein verstu mistök sem þú getur gert þegar þú horfir á slíkar myndir er að pæla vandlega í hverju atriði, hugsa um hvað það gæti þýtt og reyna eins og þú getur að finna einhverjar litlar vísbendingar sem gætu útskýrt myndina.
Ef þú gerir það þá áttu auðvitað eftir af verða fyrir vonbrigðum því að þú átt aldrei eftir að komast að neinu.
Suma hluti á hreinlega bara ekki að skilja og David Lynch hefur meira að segja sagt það sjálfur að ástæðan fyrir því að hann tekur ekki upp commentary og talar aldrei um merkingu mynda sinna sé vegna þess að hann ætlast til þess að hver myndi sína eigin skoðun á því hvað myndir hans eru um.
Ég hef einnig lesið á spjallborðum að myndir hans hafi engan raunverulegan söguþráð og vegna þess að aðrir leikstjórar skrifi ýtarleg handrit og af því að það er hægt að lesa þau og skilja hvernig myndin mun vera þá séu þeir “betri” leikstjórar.
Það er ekkert nema hreint og beint kjaftæði.
Vissulega er oft enginn sérstakur söguþráður og það er dagsatt að David Lynch skrifi ekki ýtarleg handrit, en það er líka af því að kvikmyndir hans eru ekki sögur. Tökum til dæmis mynd eins og Chinatown (sem er vissulega algjört meistaraverk og ég er ekki að meina að hún sé léleg á neinn hátt), hún er saga og reiðir sig ekki á sjónrænar eða tæknilegar brellur að neinu tagi til að bæta útkomuna heldur fellst snilld hennar í því hversu vel hún er gerð listrænt séð og hversu vel Polanski kvikmyndagerðamönnunum tókst að flytja áhorfendurna til þessa sérstaka tímabils og draga upp trúverðuga mynd af aðstæðunum sem persónurnar lenda í.
Berum hana svo saman við t.d. Lost Highway, það sem gerir hana að góðri mynd er ekki það hvað hún hefur góðan söguþráð eða það hversu góð listræna hliðin er.
Það sem gerir hana góða er fullkomið samspil þess sjónræna og hljóðræna og hversu vel Lynch tekst að setja saman hljóð og mynd og vekja þannig upp tilfinningar innst inni með okkur sem annaðhvort límir okkur við skjáinn að hreinni skelfingu eða hrífur okkur með í þessu magnaða samspili.
Það er líka það sem kvikmyndir David Lynch eru, þær eru myndir sem hreyfast skeytt saman við hljóð og tónlist. Þær eru andstaða sagna, þær eru kvikmyndaformið nýtt til hins ýtrasta.
Við verðum líka að taka með þá staðreynd að það sem vakti áhuga hans á að gera kvikmyndir var ekki það að hann vildi segja sögur heldur það að hann vildi sýna myndir sem hreyfðust og hefðu hljóð og tónlist með, enda liggur bakgrunnur hans í því að mála og teikna en ekki að skrifa sögur.
Það eru ekki allir sem þekkja til verka David Lynch en ég hvet alla þá sem hafa einhvern áhuga á kvikmyndum að kynna sér þau enda er það algjör nauðsyn fyrir alla alvöru kvikmynda áhugamenn að þekkja til þeirra.
Ég vona að ykkur hafi fundist þessi lesning fræðandi og áhugaverð og muni fá ykkur til að kynna ykkur verk þessa umdeilda snillings kvikmyndalistarinnar. En hvort að David Lynch sé í raun og veru snillingur eða bara sjúkur pervert eins og titillinn gefur til kynna fáum við sennilega aldrei að vita.