"Keppni - The Matrix vs. Equilibrium" The Matrix er fyrir löngu orðin goðsögn í kvikmyndaheiminum. Wachowski bræður voru titlaðir snillingar sem höfðu skrifað einhverja bestu sögu fyrr og síðar. Tæknibrellurnar voru bylting. Bardagaatriðin, skotatriðin og myndatakan - þetta var eitthvað sem fólk hafði aldrei séð áður. Myndin fór sigurför um heiminn árið 1999 sem leiddi af sér tvær framhaldsmyndir sem þóttu ekki sama snilldin og forverinn. En það er önnur saga.

Margar kvikmyndir hafa “copy-að” eitthvað úr The Matrix og þá aðallega atriðið þar sem Neo forðar sér undan kúlunum, en samkv. Imdb.com þá höfðu 20 myndir hermt eftir því atriði árið 2002. Það var því aðeins tímaspurnsmál hvenær yrði gerð mynd sem yrði titluð sem “copy” af Matrix. Sú mynd var Equilibrium. Og þannig var hún auglýst, sem hin nýja Matrix. Það var því með nokkurri eftirvæntingu sem ég fór út á leigu fyrir nokkrum árum síðan og tók hina umtöluðu eftirlíkingu af Matrix.

Í einu orði sagt er sú samlíking með The Matrix og Equilibrium; BULL. Ókei, það er hægt að segja eitt og annað sem er líkt með myndunum en að segja að Equilibrium sé eftirlíking af Matrix er hestaskítur.

Söguþráður:
Í fyrsta lagi eru sögurnar svo ólíkar, algjörlega svart og hvítt. Í sem stystu máli fjallar The Matrix um draumaheim, baráttu tveggja forrita um yfirráð í draumaheiminum og líf fólksins í raunveruleikanum sem berjast við útsendaraforritið í draumaheiminum. Tölvuhakkarinn Neo grunar að ekki sé allt með felldu í þessum svokallaði “heimi” og leitar þessara manna sem eru “raunverulegir”. Söguþráðurinn er flókinn og margslunginn, mikil snilld að mínu mati, að ekki er hægt að troða honum í eina málsgrein. Equilibrium fjallar hins vegar um hvernig tilfinningum fólks er haldið í skefjum með lyfi þar sem tilfinningar eru uppspretta alls ills. Útsendari ríkisins, John Preston, sem vinnur við að drepa og útrýma fólki sem sýnir tilfinningar, rís upp gegn kerfinu með því að minnka lyfjaskammtinn og kemst þá að því að ekki er allt með felldu. Einu líkingarnar sem ég sé í söguþráðunum tveimur er að það er einn maður sem á að bjarga heiminum. Það er gamalt og löngu fyrir tíma Matrix.

Ég hef séð á netinu að fólk er að bera þessar myndir saman og talar þá mikið um útlit myndanna tveggja, búninga og bardagaatriði.

Útlit:
Útlit myndanna er ekki svipað, að mínu mati er Matrix tveggja útlita mynd, annars vegar það sem gerist í raunveruleikanum en þá er myndin mjög hrá og gróf, hins vegar er einmitt það sem gerist í draumaheiminum öfugt við raunveruleikann. Útlit EQ er eiginlega svart/hvítt í gegnum alla myndina sem á að gerast í framtíðinni, frekar dökk en mikið um andstæður. En það er líka alveg magnað þegar það kemur nýr og ferskur litur inn í myndina eins og blóðrauður sloppur og hvítur galli í þessa litlausu mynd.

Búningar:
Þeir eru svipaðir að því leyti að þeir eru svartir og einfaldir. Búið. Það er mikið um frakka í báðum myndunum en Matrix eru leðurtöffarar á meðan Equilibrium eru meira bómullartöffarar :-). Það sem Matrix hefur líka fram yfir EQ eru sólgleraugun. Þau eru KILLER og fá þar með vinninginn yfir EQ.

Bardagaatriðin:
Þau eru eiginlega það sem er hvað líkast með myndunum, en samt eru þau svo ólík. Bardagaatriðin eru gríðarlega flott í báðum myndum, mjög vel útfærð og mikið hugsað um útlit. Þau eru svipað uppbyggð; kata bardagastíllinn er ráðandi en á meðan bardagaatriðin í Matrix eru frekar óraunveruleg (enda gerast þau í draumaheiminum) og hæg, eru þau miklu hraðari og raunverulegri í EQ, mikið spilað á ljós og hraðar klippingar í EQ. Það er meira um byssuatriði í EQ á meðan meira er barist með höndunum í Matrix. Mér fannst líka kúl að það voru samúrasverð í EQ. Maður sér að Quentin Tarantino hefur fengið lánað úr báðum myndunum fyrir meistaraverk sitt Kill Bill: Vol 1.

Það er eitt atriði þar sem sjá má líkingu með myndunum tveimur að það er engu líkara en Kurt Wimmer, leikstjóri og handritshöfundur EQ, hafi tekið lobbí atriðið í Matrix upp á sína arma og sniðið það að sínu höfði í EQ. Það er allavega skuggalega líkt en á sama hátt og áður, samt ekki. Á meðan lobbí atriðið í Matrix gerist í slow motion, með byssukúlum í allar áttir og steypu skjótast úr veggjunum, er sama atriði í EQ mun hreinna og hraðara og styttra. En ég fyrirgef Kurt Wimmer að hafa “stolið” atriðinu því stemning myndarinnar og útlit bíður upp á þetta atriði. Bæði þessi atriði fundust mér þau flottustu í báðum myndunum.

Niðurstaða:
The Matrix er ein af topp5 myndunum mínum, mér finnst hún ein mesta snilld allra tíma. Mér finnst aðdáunarvert hvernig hægt er að hafa svona fjörugt ímyndunarafl eins og Wachowski bræður. Handritið er svo flókið að það þurfti allavega þrjú skipti fyrir mig að skilja það til fulls. En eins flókið og það er, þá er handritið er skothelt því það gengur upp og útlit myndarinnar er flott, tæknibrellur geðveikar og bardagaatriðin draumi líkastur. Ég held að Matrix komi nálægt því með að vera fullkomin mynd frá upphafi til enda.
Equilibrium þótti mér leiðinleg í fyrsta áhorfi, líklegast af því ég var alltaf að vonast eftir Matrix dæmi sem aldrei kom. Olli mér vonbrigðum en hefur vaxið ásmegin og er í dag ein af mínum uppáhalds myndum. Það er viss stirðleiki til að byrja með en seinni hluti myndarinnar er mun betri en sá fyrri. Hugmyndin er góð og hún virkar, að vissu leyti er þetta alveg rétt, tilfinningar eins og græðgi, reiði, afbrýðisemi og fleira eru einmitt það sem stuðlar að morðum og mörgum stríðum.

The Matrix og Equilibrium eru tvær ólíkar myndir, mjög góðar hvor á sinn hátt. Matrix er betri, á því er enginn vafi, sagan er bara svo miklu betri, en Equilibrium er engu að síður frumleg og flott mynd.
Lífið gengur út á að vera númer 1, ekki númer 2.