
Sumarið 1977 er öllum New York-búum eftirminnilegt fyrir margra hluta sakir. Tvennt af því sem stendur þó örugglega upp úr í minningunni er hitabylgjan sem gekk yfir borgina þetta sumar, þegar hitinn hélst um og yfir 40 gráður í meira en sex vikur samfleytt, og skelfingin sem fjöldamorðinginn David Berkowitz vakti í borginni á meðan hann gekk laus undir heitinu Son of Sam.
Segja má að hitinn og morðin hafi í sameiningu gert það að verkum að margir borgarbúar urðu bæði pirraðir og hræddir við umhverfi sitt og í myndinni sýnir Lee okkur hvernig þetta hafði áhrif á vinahóp og nágranna í Bronx-hverfinu. Við kynnumst Vinnie og eiginkonu hans sem lifa frekar fábreyttu og gleðisnauðu lífi, enda er Vinnie ekki við eina fjölina felldur og heldur fram hjá eiginkonu sinni þegar hann getur. Morðmálið hefur vakið upp nokkra spennu í hverfinu og menn ræða um það sín á milli að morðinginn geti í raun verið hver sem er, jafnvel einn af þeim sem þarna búa. Smám saman taka þessar umræður á sig talsvert alvarlegri blæ en efni standa til og ekki líður á löngu uns allir eru farnir að gruna alla um græsku.
Og í gang fer ógnvænleg atburðarás sem enginn fær neitt við ráðið.