Peter Jackson er fæddur árið 1961 í Nýja-Sjálandi. Hann er einkabarn foreldra sinna og ólst upp í rólegu úthverfi höfuðborgarinnar Wellington. Hann eignaðist sína fyrstu kvikmyndatökuvél 1969 og var það 8mm vél. Þar sem hann átti engin systkini varð hann að finna sér eithvað að gera og heillaðist hann af kvikmyndagerð. Peter og vinir hans byrjuðu að gera bíómyndir og árið 1973 gerðu þeir bíómynd sem átti að gerast í seinni heimsstyrjöldinni. Meðal annars grófu þeir stórar holur í garð foreldra Jacksons og áttu þær að vera sprengjugígar(foreldrar hans voru ekki ánægðir). Peter hélt áfram að gera stuttmyndir með vinum sínum en svo kom að því að hann vildi ganga skrefi lengra. Hann fékk sér vinnu á blaði og eignaðist þá loksins nóga peninga til að kaupa sér alvöru 16mm vél.
Þetta var árið 1983 og byrjaði hann á myndinni sem átti eftir að gera hann frægann. Myndin heitir Bad Taste og er grín splatter mynd af bestu gerð. Peter átti að sjálfsögðu engan pening til að gera myndina svo hann fékk vini sína til að leika í henni og vann aðallega við hana um helgar því á virkum dögum vann hann sína venjulegu vinnu sem blaðamaður. Peter náði einnig að kreista út smá pening úr kvikmyndasjóði Nýja-Sjálands þrátt fyrir andstöðu nefndarmanna sem voru ekki alltof hrifnir af splatter myndum. Ástæðan var sú að formaður sjóðsins var maður að nafni Jim Booth og var hann hrifinn af Jackson. Seinna stofnuðu þeir saman kvikmyndafyrirtækið WingNut Films sem sér meðal annars um framleiðslu á Lord of the Rings myndunum. Vegna fjárhagsins kláraðist myndin ekki fyrr en 4 árum seinna eða 1987. Á því ári var Bad Taste sýnd á Cannes hátíðinni og voru flestir gagnrýnendur mjög hrifnir af henni. Myndin var seld til 30 landa og borgaði sig upp á örfáum dögum og gott betur en það. Peter Jackson hafði núna skapað sér nafn í kvikmyndaheiminum.
Eftir velgengnina í Cannes skrifaði Jackson handritið af myndinni Braindead með konu sinni Fran Walsh og manni að nafni Steven Sinclair. Erfitt reyndist að fjármagna myndina svo að Peter ákvað að fresta henni. Gerði í staðinn brúðumynd sem heitir Meet the Feebles. Hún var gerð 1989 og er stórfurðuleg svo vægt sé til orða tekið. Að henni lokinni byrjaði hann á splatter zombie grín myndinni Braindead. Þessi mynd er ein af mínum uppáhalds myndum. Hún er bara svo stórkostlega fyndin. Hver kannast ekki við slátturvéla atriðið? Eitt mesta snilldar atriði sem ég hef séð. Þessi mynd er ótrúlega blóðug og hefur reyndar verið kölluð blóðugasta mynd allra tíma.
Á þessum tímapunkti var Hollywood komin með áhuga á Peter Jackson. Peter var fenginn til að skrifa handrit af 6 Nightmare on Elm street myndinni. Handritið er sagt vera mjög gott en Hollywood ákvað að nota eitthvert klisju handrit eftir annan höfund. Peter varð fjúkandi reiður því hann hafði lagt mikla vinnu í handrtitið. Hann hafði nú eignast stóran hóp aðdáenda sem biðu spenntir eftir næstu splatter mynd. Þeim varð ekki að ósk sinni því Jackson hafði meiri metnað en það og byrjaði að vinna í handriti af mynd sem heitir Heavenly Creatures. Þetta er drama og er byggð á sönnum atburðum sem áttu sér stað á 6 áratugnum í Nýja-Sjálandi. Þá urðu tvær vinkonur nánari og nánari þangað til að það fór að vera sjúklegt og endaði það með morði á móður einnar stelpunnar. Peter fékk Kate Winslet til að leika eina stúlkuna og var það þessi mynd sem kom henni á kortið. Myndin kom út árið 1994 og fékk einróma lof gagnrýnenda. Handritið var tilnefnt til óskarsverðlauna og er myndin með 88% á Rotten Tomatoes.
Árið 1995 var heimildarmynd að nafni Forgotten Silver sýnd í Ný-Sjálenska ríkissjónvarpinu. Myndin fjallaði um mann sem hét Colin McKenzie og átti að hann að vera frumkvöðull mikil. Hann átti meðal annars að hafa myndað mann fljúga flugvél 9 mánuðum áður en Wright bræður flugu sinni vél., gert mynd með lit löngu áður en litur kom í sjónvarp og gert mynd með hljóði langt á undan öllum öðrum. Nýsjálendingar fóru nú að velta fyrir sér afhverju þeir hefðu ekki heyrt um þennan mann áður. Staðreyndin var sú að Colin McKenzie var aldrei til. Peter Jackson hafði gert myndina og gabbað alla þjóðina upp úr skónum. Mikið fjaðrafok var um þessa mynd en hún hefur fengið frábæra dóma. Þetta er eina myndin eftir Peter Jackson sem ég hef ekki séð.Næst gerði Peter sína fyrstu Hollywood mynd eða The Frightners. Þetta er draugagrínmynd og kom hún út 1996. Myndin fékk ekkert sérstaka aðsókn en mér fannst hún bara ágæt þótt þetta sé ekki á meðal hans bestu mynda.
Eftir þetta byrjaði Jackson á einu stærsta og dýrasta kvikmyndaverki sögunnar. Hann ætlaði að gera 3 myndir byggðar á meistaraverki Tolkiens, The Lord of the Rings. Hann ætlaði að taka þær upp allar í einu, back to back, og er kostnaðaráætlun um 300 milljónir dollarar. Í raun er þetta einstakt að kvikmyndafyrirtæki (New Line Cinema) í Hollywood sé tilbúið að fjármagna allar 3 myndir í einu með leikstjóra sem hefur aldrei átt vinsæla mynd í Hollywood. Tökur hófust 9 október 1999 og enduðu 22 desember 2000 eftir 15 mánaða tökur. Myndin er öll tekin á Nýja-Sjálandi og er það sagt spara 100 milljónir dollara vegna ódýrari þjónustu. Tæknubrellufyrirtæki Jacksons Weta Digital sér um tæknibrellurnar í myndinni. 26 mínútna bútur úr myndinni var sýndur á Cannes hátíðinni nú í ár og átti engin orð yfir því hversu magnað allt væri. Leikarar í myndinni eru margir mjög góðir og má nefna Ian McKellen(Gandalfur), John Ryes Davis(Gimli), Elijah Wood(Fróði), Cristopher Lee(Saruman), Viggo Mortensen(Aragorn) og svo Ian Holm(Bilbó). Fyrsta myndin verður frumsýnd 26 desember hér á landi og fylgja hinar myndirnar svo næstu tvö jól á eftir.
Peter Jackson birtist alltaf augnablik í sínum myndum (cameo) og er að því leyti líkur Hitchcock. Að mínu mati er einn efnilegasti leikstjórinn í Hollywood. Hann er frumlegur, fer sínar eigin leiðir og gerir alltaf áhugaverðar myndir. Þegar síðasta Lord of the Rings myndin kemur út mun hann hafa eytt 8 árum af lífi sínu í það verkefni og er það aðdáunarvert. Vil bara þakka honum fyrir að koma uppáhalds bókinni minni á hvíta tjaldið og er ég mjög ánægður að hann sé að gera myndirnar en ekki einhver sæmilegur leikstjóri úr Hollywood. Vitað er að hann hefur mikinn áhuga að gera mynd sem á að gerast í fyrri heimsstyrjöldinni svo hver veit nema það eigi eftir að verða myndin sem hann gerir á eftir LOTR. Ég mun allavega bíða spenntur eftir öllum myndum Peter Jacksons.