Fyrstu myndir kvikmyndasögunnar voru ekki lengri en nokkrar mínútur. Eftir því sem tíminn hefur liðið hafa myndirnar sífellt orðið lengri. Frægustu myndir kvikmyndasögunnar eru í mörgum tilvikum einnig með þeim lengstu og á síðari árum hafa leikstjórar í auknum mæli gerst stórkallalegir og lengt myndirnar sínar (að því er virðist) aðeins til að þær séu gjaldgengar í þennan flokk. Svo virðist að almenna álitið sé að því lengri sem myndin er því betri sé hún. Í þessari grein vil ég tala sérstaklega um spennu/hasarmyndir því þær varpa hvað best ljósi á þessa tilhneigingu.
Á 9. og 10. áratug síðustu aldar voru gerðar margar hasarmyndir sem falla undir sígildar myndir og má þar af nefna Die Hard myndirnar, Bad Boys, The Rock, Seven, Face/Off og Speed. Allar þessar myndir eru nokkuð yfir annan tímann og virðist meðaltíminn vera rúmlega 130 mín. Ef við skoðum aðalmyndirnar sem komu út í sumar sjáum við að meðaltíminn hefur færst í rúmlega 150 mín. Þar af má nefna Pirates of the Carribean-framhaldið sem er litlar 150 mín. og Superman Returns sem er 154 mín. að lengd.
Besta dæmið er þó líklega Bad Boys myndirnar eftir Michael Bay. Fyrsta myndin kom út árið 1994 og var 118 mín. að lengd. Önnur myndin kom út árið 2003 og var 147 mín. að lengd. Munurinn er heilar 29 mín. og ég get ekki séð að þessar 29 mín. hafi gert aðra myndina betri. Þvert á móti fannst mér alls ekki mikið til seinni myndarinnar koma á meðan fyrsta myndin var fínasta skemmtun.
Staðallinn á spennu/hasar-myndum hefur skv. þessari óvísindalegu rannsókn lengst um u.þ.b. 20 mín. á nokkrum árum. Mér finnst þessi þróun ekki jákvæð og segjast verður eins og er að myndir nútímans eru oft á tíðum langdregnar. Eru þetta snobbtilburðir í leikstjórum nútímans sem lengja myndina óhóflega í því yfirskini að gefa sögunni það rúm sem hún þarf? Hægja endalaust á atburðarásinni til að nógur tími sé tekinn í að varpa ljósi á persónurnar¬? Þessi orð eru blekking. Sagan verður ekki betri þótt myndin sé lengri og sama á við um persónurnar.
Fleiri rammar þýða ekki meiri gæði. Myndin verður ekki betri þótt minna af efni lendi á klippigólfinu. Ég vona að afturþróun verði á þessari lengdaraukningu á næstu árum því allt stefnir í að venjulegur poppkornsþrillir verði þrír klukkutímar árið 2020. Leikstjórar ættu að hætta þessum stælum og átta sig á að það gerir myndina ekki menningarlegri eða alvarlegri að hafa hana lengri.