Ég hef lengi ætlað að skrifa um Apocalypse Now og hér læt ég loksins til skarar skríða.
Ég horfði á Apocalypse Now í fyrsta sinn fyrir langa löngu vitandi af þeirri staðreynd að hér er á ferðinni klassísk mynd. Ég hef velt því fyrir hvort það breyti einhverju þegar maður horfir á mynd sem er með visst orðspor, hvort maður sé búinn að byggja mynd svo rosalega upp í huganum að þegar sú stund kemur loksins að maður sér hana skilur maður ekki hvað allt hype-ið snýst um. Það hefur gerst fyrir mig, í fyrsta sinn þegar ég sá Dr. Strangelove var ég ekki að ná því hvers vegna þessi mynd hefur verið talin ein sú besta frá upphafi. En þegar ég horfði á Apocalypse Now í fyrsta sinn þá vissi ég að hér var á ferðinni mynd sem aldrei verður jöfnuð. Stundum get ég ekki útskýrt það nógu vel hvernig mér líður en það er sérstök tilfinning sem maður fær þegar maður horfir á vissar myndir.
Apocalypse Now er byggð á skáldsögunni Heart of Darkness sem gerist í Afríku en Francis Ford Coppola flutti sögusviðið yfir í eitthvert hörmulegasta tímabil 20. aldar, þegar Vietnam-stríðið stóð sem hæst. Margar myndir hafa tekið á stríðinu og afleiðingum þess á hinn venjulega mann en meðal þeirra frægustu eru The Deer Hunter, Born on the Fourth of July, Platoon og Full Metal Jacket ásamt Apocalypse Now. Fyrir mér er enginn vafi á því hvaða mynd stendur uppi sem sigurvegari Vietnam-mynda-keppninnar, það er síðasta meistaraverk Francis Ford Coppola.
Til að ná réttu skotunum og landslaginu hélt Coppola ásamt tökuliði til Filippseyja þar sem skjóta átti myndina. Sú dvöl varð miklu lengri og kostnaðarsamari en menn hafði grunað og tók hún gífurlega á Coppola, andlega, líkamlega, og fjárhagslega en hann fjármagnaði myndina sjálfur með tekjum sem Godfather-myndirnar tvær höfðu aflað örfáum árum áður. Ef myndin hefði ekki náð að hala inn mikið fé í kvikmyndahúsum hefði Coppola þurft að lýsa yfir gjaldþroti og það blés ekki vel til sóknar í byrjun. Sviðsmyndir og fleiri hlutir voru eyðilagðir í miklum stormi, þyrlur sem nota átti í tökur var sífellt verið að kalla til baka enda voru þær í eign Filippseyja og svona mætti lengi telja. Martin Sheen fékk alvarlegt hjartaáfall og þurfti að vera frá í fleiri vikur en á meðan var bróðir Sheen, Joe Estevez, fenginn til að taka upp nokkur atriði og tala inn á myndina fyrir bróður sinn. Svo loks er kóngurinn sjálfur (Marlon Brando) mætti á svæðið kom í ljós að hann hafði ekki passað hvað hann hafði látið ofan í sig og var alltof þéttur fyrir hlutverk sitt í myndinni. Að auki hafði hann ekki lesið bókina góðu og var þ.a.l. alls ekki tilbúinn í hlutverkið. Myndin var síðan tekin upp í pörtum og það tók yfir ár að setja þá rétt saman.
Myndin fékk blendnar viðtökur þegar hún kom út árið 1979 en var þrátt fyrir það tilnefnd til 8 Óskarsverðlauna og hlaut tvenn. Sigurvegari það árið var myndin Kramer vs. Kramer og almennt er talið er að ástæðan fyrir því að Apocalypse Now hafi ekki hlotið helstu Óskarsverðlaun, t.a.m. fyrir bestu mynd hafi verið sú að önnur Vietnam-mynd, The Deer Hunter, hafði verið sigurvegarinn árið áður og við vitum öll að það mega ekki tvær svipaðar myndir vinna tvö ár í röð…
Flestir hafa nú séð Apocalypse Now, í það minnsta Redux útgáfuna sem sýnd hefur verið tvisvar á RÚV. Hún segir frá Kapteini að nafni Willard (Martin Sheen) sem, eins og svo margir aðrir á þessum tíma, leikinn hefur verið grátt af stríðinu. Hann fær háleynilegt verkefni upp í hendurnar en hann á að koma sér upp til Kambódíu þar sem ofursti að nafni Walter E. Kurtz (Marlon Brando) hefur tekið sér bólfestu. Á fundi sem haldinn er til að ræða þessa för kemur í ljós að Kurtz er snarbilaður maður sem hefur tekið sér hlutverk Guðs á þessum um rædda stað og að “his methods became unsound… unsound” eins og það var orðað. Willard er sagt að hann eigi að ljúka þessari valdatíð Kurtz, e. Eins og frægt var sagt: “terminate with extreme prejudice”. Willard ferðast með bát og í honum eru fylgdarmenn en vegna eðlis þessa verkefnis fá þeir hvorki að vita áfangastað, eða tilgang Willards. Á bátnum er góðkunnur leikari en Laurence Fishburne en hann leikur þarna ungan mann að nafni Clean og er mjög skemmtilegur. Með í för er líka kokkurinn Chef, brimbrettagaurinn Lance og stýrimaðurinn Chief.
Er Willard ferðast upp þessa ána les hann möppuna sem honum var færð um Kurtz og sekkur Willard gjörsamlega inn í heim hans. Í Se7en greininni sem ég skrifaði fyrir þónokkru mintist ég á að mér hefði fundist uppbyggingin að John Doe vera eitt það besta við myndina, sömuleiðis er hin stutta en magnaða uppbygging að Hannibal Lecter í The Silence of the Lambs ein sú besta sem ég hef séð. Ég held samt að undanfari Col. Walter E. Kurtz slái allt út. Willard “narratar” fyrir okkur það sem að hann kemst að um ofurstann geðveika og byggir það upp mikla spennu. “I knew the risks, or imagined I knew. But the thing I felt the most, much stronger than fear, was the desire to confront him.” Aðdáun Willard á Kurtz eykst jafnt og þétt í gegnum alla myndina og jafnframt okkar líka.
Myndin fangar andrúmsloftið og geðveikina sem var í Vietnam á ógleymanlegan hátt. Mörg atriði eru þar sem skipsfélagar hegða sér á sturlaðan hátt eða að sturlaðir hlutir verða á vegi þeirra sem einkenna hvernig Vietnam stríðið virkilega var en Coppola naut aðstoð margra fyrrverandi hermanna úr stríðinu við gerð súrrealísku atriðanna sem flest voru byggð á frásögnum þeirra. Hegðun Lance verður sífellt róttækari og atriðið þegar hann situr á bátnum öskrandi eins og svín segir mörg orð. Grimmdin er líka mikil og ofbeldið sem menn urðu vitni að skildi líklega eftir ófá örin á sálinni. Þegar Chef og Lance koma þá höndum sínum yfir hvolp vilja þeir báðir eiga hann því þarna í miðju helvíti er eitthvað sem er hreint og saklaust, eitthvað sem dreifir huga þeirra frá öllum hörmungunum í kringum þá.
(Spoiler, eftirfarandi eru hugrenningar um atriði í enda myndarinnar) Að lokum kemst Willard á leiðarenda og þar hittir hann Kurtz sjálfan og deilir Kurtz með okkur sýn sinni á stríð og hvað virkilega þarf til að sigra stríð. Hann segir frá því þegar hann upplifði þær hörmungar er breyttu lífi hans. Hugsunarháttur Kurtz er ekki bara ógnvænlegur heldur beinlínis hættulegur, í huga hans vinnast stríð með því að geta drepið án samvisku, án tilfinninga eða dóms. “You have to have men who are moral… and at the same time who are able to utilize their primordial instincts to kill without feeling… without passion… without judgment… without judgment. Because it's judgment that defeats us.” Að hafa svona hermenn getur haft alvarlegar afleiðingar, ekki bara fyrir okkur sem mannverur heldur á allan heiminn því grimmd af þessu tagi getur ekki leitt til neins nema myrkari staði sálarinnar en þangað er Kurtz kominn. Hann er orðinn tilfinningalaus, við sjáum lítið af andliti hans fyrst þegar Willard heimsækir hann, það er mest í skugganum því andlitið er eini staðurinn sem sýnir mannlegar tilfinningar. Höfuð liggja út um allt, höfuð sem ekki hafa verið nógu sterk til að bæla niður þær tilfinningar sem Kurtz líður ekki og því sá Kurtz leið í því að fjarlægja þær.
Samskiptin við Kurtz hafa mikil áhrif á Willard. Hann á erfitt með að fá sig til að myrða manninn enda er hann vægast sagt stórbrotinn en þegar hann ákveður að myrða hann málar hann andlit sitt með dökkri málningu og er þar með kominn á sama stall og Kurtz. Hann getur drepið hann án þess að finna til nokkurra tilfinninga. Eftir að hafa drepið Kurtz gengur Willard að fólki Kurtz og hendir niður vopnum sínum og í kjölfarið gera allir það sama. Willard hefur möguleika á því að taka stöðu Kurtz og verða Guð en ákveður þess í stað að yfirgefa svæðið því þar er ekket nema myrkur. (Spoiler endar)
Árið 1991 var síðan gefin úr heimildarmynd sem greinir frá tökum og vandræðum í framleiðslu Apocalypse Now en myndin nefnist Hearts of Darkness: A Filmmaker's Apocalypse. Ég á nú eftir að kíkja á þá ræmu en það á eftir að breytast.
Apocalypse Now er mynd sem skapar ógleymanlegt andrúmsloft og frábærar persónur sem leiknar eru af alkunnri snilld af Sheen, Brando, Dennis Hopper að ógleymdum Robert Duvall sem á línuna frægu “I love the smell of napalm in the morning”. Myndin markaði endalok Francis Ford Coppola en það verður að segjast að hann hefur ekki skapað mynd eftir Apocalypse Now sem kemst nálægt henni í klassa sem er synd því Coppola er góður. Hann lagði allt í sölurnar varðandi þessa mynd og það er því við hæfi að myndin er í hópi þeirra allra bestu. Metnaðurinn sem einkennir myndina er engum líkur og atriðið þegar ráðist er á þorpið og Ride of the Valkyries er spilað undir er eitt það flottasta sem ég hef séð. Árið 2001 gaf hann út lengri útgáfu af myndinni og kallaði hana Apocalypse Now Redux. Ég verð að segja eins og er að sú útgáfa er erfiðari en upprunalega, það eru atriði í henni sem eru óþarfi þannig ég mæli frekar með upprunalegu útgáfunni af henni. Hún er ein af mínum uppáhaldsmyndum, sígilt meistaraverk. Ég ætla að enda þetta á stuttri tilvitnun í Coppola sjálfan um myndina:
"My film is not about Vietnam, it is Vietnam."