Skipið í myndinni er óneitanlega stórfenglegt og fallegt, meðan það er á réttum kili. 86.000 tonna rafdieselrisi með öllu því sem hugsast getur um borð í slíkum farkosti.
Skip fá á sig brotsjói og til eru brot sem geta hvolft slíku skipi. Slíkt hendir, shit happens. Það er svosem ekkert við aðdraganda slyssins að athuga, skipið er þungt og lætur ekki að stjórn svo auðveldlega og því fer sem fer þegar ekki tekst að snúa því upp í ölduna.
Það er eftir slysið sem skrítnir hlutir fara að gerast. Þeir sem lesið hafa sögu Estoniu sem fórst á Eystrasalti 1994 geta verið mér sammála um það. Estonia fór ekki strax á hvolf. Hún lagðist á hliðina og lá þannig um stund. Dauðastríð hennar tók um 40 mínútur, en meðan á því stóð brotnuðu stóru hliðargluggarnir sem í sjó lágu einn af öðrum, þó dýpið væri aðeins fáeinir metrar.
Hvað Poseidon varðar, þá hvolfir honum strax í einni andrá. Ekki óeðlileg hegðun skips sem fer yfir jafnvægispunkt sinn. Stóru hliðargluggar samkomusala skipsins fara undir sjávarmál svo nemur 10 metrum eða meir, án þess þó að nokkur þeirra brotni. Brú skipsins fyllist hins vegar samstundis og þar deyja allir.
Hér með er því lokið sem teljast má eðlilegt við þessa mynd og það sem á eftir fer brýtur flest lögmál tækni og vísinda.
Spurningarnar hrannast upp, en sú áleitnasta er: Hvaðan fær skipið orku, löngu eftir að því hvolfir. Svo virðist sem albjart sé um allt skip og það eru ekki bara neyðarljós sem lýsa, heldur öll ljós í hverju rými fyrir sig.
Eftir að brú skipsins fyllist af sjó logar þar á öllum siglingatækjum, mælum og ljósum. Nokkuð sem kæmi sér oft vel þegar skip fá á sig brot og sjór kemst í brú, en því miður eyðileggjast öll slík tæki við eina væna sjógusu, hvað þá að kaffærast varanlega.
Gríðarlegar sprengingar kveða við um allt skip og eldar kvikna á ólíklegustu stöðum. Slíkt er svosem ekki óeðlilegt í eldhúsi og vélarúmi, en í hæsta máta furðulegt í öðrum rýmum.
Ein af þjónustulyftum skipsins hefur verið stödd niðri í botni þess þegar því hvolfir. Það kviknar einhverra hluta vegna eldur undir (yfir) henni, þar sem hún hangir. Eðlilegt er að lyftan hangi þarna, þar sem hún virðist ekki ganga á spori eins og lyftur almennt gera, en hvað varð um andvægi hennar og lyftibúnað?
Þar sem þetta er rafdiesel skip má ætla að vélar þess séu allmargar og samanlagt milli 30 – 40.000 hestöfl. Vélarnar geta verið staðsettar hvar sem er í botni skipsins og staðsettar eftir hentugleikum.
Það sem þó er verulega dularfullt er hvernig ein af vélunum tekur skyndilega upp á því að detta úr skipinu, rífa sig gegn um a.m.k. eitt þilfar, en stöðvast svo í lofti viðhafnarsalarins án þess að fara þar í gegn.
Á eftir vélinni streymir gríðarlegt magn vökva sem sennilega er eldsneytisolía og auðvitað kviknar í henni um leið og hún snertir sjóinn í salnum. Dieselolía logar ekki fyrr en hún hefur verið hituð allmikið.
Eftir mikið stímabrak og ferð eftir loftstokk sem, merkilegt nokk, liggur milli brunarýma og vatnsþéttra rýma, kemst fólkið niður (upp) í þjónustugang vélarýmis. Það má vel vera að þar undir leynist kjölfestutankar skipsins, en að hægt sé að komast í þá um lúgu af þeirri gerð sem sýnd er má með ólíkindum teljast. Skipaskoðun þyrfti að komast í þetta mál.
Þegar í kjölfestutankinn er komið fer leikurinn að æsast. Fyrir það fyrsta virðist vera albjart niðri í tönkum skipsins. Þessir sömu tankar eru ætlaðir fyrir sjó og eru ætíð lokaðir nema þegar skipið er tekið í slipp.
Eins merkilegt og það má teljast, þá er lítill og léttur loki (krani) þarna niðri sem getur opnað 60 cm svert rör út í opið hafið. Handhægur búnaður það. Ekki nóg með það að hægt sé að fara niður í tankinn til að fylla á hann, þá eru lúgur milli samliggjandi tanka sem springa opnar við þrýsting.
Ákaflega þægilegt ef gat skyldi nú koma á einn tank að fá sjálfvirka áfyllingu á alla tanka í þeirri hlið skipsins til að tryggja góða slagsíðu. Það gat svo ekki öðruvísi farið en að lúga væri opin á öðrum kjölfestutanki framar í skipinu, bara svona til að tryggja öryggi þess á opnu Atlantshafinu.
Strax í upphafi myndar má sjá að skipið er búið 3 bógskrúfum. Hver skrúfa er í röri sem gengur þvert í gegn um stefni skipsins og eru rörin góðir 4 metrar í þvermál. Í botni skipsins liggur þjónustugangur með nokkrum vatnsþéttum hurðum og fólkið fer eðlilega þessa leit til að komast að bógskrúfunum.
Það að láta sér detta það í hug að komast út um bógskrúfugöngin er nógu ævintýralegt, en að finna síðan lúgu sem þar að auki opnast inn í skipið er gersamlega til að trompa allt hugmyndaflug. Þó er nú brandarinn rétt að hefjast og nú æsast leikar.
Það kemur semsé í ljós að í hverjum göngum eru tvær skrúfur í stað einnar. Skrúfurnar eru hvor í sínum enda gangnanna. Látum svo vera, ekkert að þessari hönnun, nema það að engin grind er fyrir skrúfunum til að hindra að þær dragi til sín rusl eins og kafara og hákarla.
Ég hef áður spurt hvaðan skipið fái orku eftir að það tók upp á því að snúa kjölnum upp? Látum vera þó einhversstaðar væri svo haganlega gerð túrbína að hún gæti gengið á hvolfi í klukkutíma og framleitt einhver hundruð kílówatta.
Það kemur hins vegar í ljós að allar hliðarskrúfur skipsins eru í gangi og á fullri ferð. Skrúfurnar eru 6 að tölu og aflið sem þær þurfa er þúsundir kílówatta. Stjórnklefi fyrir skrúfurnar er löngu kominn á kaf í sjó, en þar er samt fullt ljós og rafbúnaðurinn virkar fullkomlega. Óskaplega væri nú þægilegt ef rafbúnaður væri svona laus við áhrif af söltum sjó.
Áður en brotið reið á skipinu var sett fullt afl á skrúfurnar til að snúa skipinu á stjórnborða. Það þýðir að allar skrúfurnar eru að þrýsta frá sér á bakborða og eftir að þær lyftust úr sjó stendur loftstraumur í gegn um rörin frá stjórnborða til bakborða. Þessi hugtök breytast ekki þó skipið snúi kjölnum upp.
Gamli borgarstjórinn fer og skiptir um snúningsátt á skrúfunum til þess að gera eitthvað áður en hann drukknar. Þá víkur svo við að eitthvað bilar í fyrsta skipti svo vitað sé og aðeins stjórnborðsskrúfan skiptir um snúningsstefnu. Þetta hefur náttúrulega þau áhrif að skrúfugöngin breytast í ryksugu sem sogar til sín allt úr skrúfurýminu.
Það er ekkert sem ein flaska af acetylen gasi getur ekki bjargað. Merkilegt að botninn fór ekki af skipinu þegar hún fór í skrúfuna, en vissulega hafði sprengingin sín áhrif og stöðvaði þessa einu skrúfu án þess að valda neinu frekara tjóni. Allar aðrar skrúfur gengu fínt eftir aðgerðina og auðvitað sló ekkert út neinum yfirálagsvörnum, enda sjókældar.
Skipið sekkur svo bara eins og skip gera, en þá bregður svo við að nokkrar lokasprenginar verða í skrokknum og öll ljós hverfa á augabragði.
Vísindaskáldsögur eru skemmtilegar ef velt er upp áhugaverðum möguleikum og svo skemmtilega vill til að sumar vísindaskáldsögur síðustu aldar eru raunveruleiki dagsins í dag. Myndin Poseidon mun þó ekki verða annað en afþreyingar B mynd sem í besta falli móðgar skynsemi áhorfandans lítillega.
Björgvin Árnason