Ég skrifaði þessa grein fyrst inná www.kvikmyndir.is, fyrir nokkuð löngu síðan, þegar myndin var í bíó.
Bíóferðin mín á Narniu byrjaði svona eins og ósköp venjulegar bíóferðir: Þegar ég kem í bíóið er ekki þverfótað fyrir fólki. Þegar ég loksins kemst í röðina átta ég mig á því að ég hef gleymt gleraugunum mínum heima. Ég hleyp heim og þegar ég kem aftur er engin röð að miðasölunni. Ég kaupi miða og ætla að fara að kaupa mér popp og gos en kemst þá að því að öll röðin að miðasölunni hefur færst að sjoppunni… Dæmigert. Sem betur fer fékk ég það allt endurgreitt og svo mikið meira.
The Chronicles of Narnia: The Lion, the Witch and the Wardrope er byggð á samnefndri bók eftir C.S. Lewis. Narniu bækurnar eru mínar uppáhalds bækur, og þrjár þeirra standa uppúr: The Silver Chair, The Voyage of the Dawn Treader og The Lion, The Witch and the Wardrope; bókin sem þessi mynd er gerð eftir. Þegar ég frétti að gera ætti mynd um hana varð ég (auðvitað) alveg rosalega spenntur, fór látlaust inná heimasíðu myndarinnar til að skoða fréttir af henni og var alltaf að horfa á auglýsingar (trailera) eða stuttmyndir um gerð myndarinnar.
The Lion, the Witch and the Wardrobe er gerð eftir fyrstu Narníubókinni sem C.S. Lewis skrifaði en annarri bókinni í tímaröðinni (á eftir The Magicians Nephew) og hún fjallar um fjögur börn sem eru send uppí sveit til frænda síns, Digory Kirke, á meðan seinni heimstyrjöldin vofir yfir. Yngsta stelpan, Lucy, finnur einn daginn gríðarstóran skáp og ákveður að fela sig í honum, þar sem að krakkarnir eru í feluleik. En hún kemst að því að þetta er töfraskápur sem liggur beint inn í töfralandið Narniu. Hún kemst að því að í Narniu hefur verið vetur í heila öld. Ástæðan fyrir því er að Hvíta Nornin (The White Witch) hefur skipað sig sjálfa drottningu yfir Narniu og látið ríkja endalausan vetur þó að engin jól komi…
Tölvufyrirtækið Weta sér um tæknibrellur myndarinnar, sem eru gjörsamlega frábærar, enda sama fyrirtækið og vann við gerð The Lord of the Rings myndanna. Ef ég hefði ekki séð þátt um gerð myndarinnar hefði ég líklega haldið að ljónið Aslan væri alls ekki tölvugert, svo flott og eðlilegt er það (kannski ekki alveg en…).
Tónlist myndarinnar er eftir Harry Gregson-Williams og ég verð að segja að þetta er ein yndislegasta tónlist sem heyrst hefur í bíómynd að mínu mati (fyrir utan tónlist eftir Danny Elfman og tónlistina í The Lord of the Rings eftir Howard Shore).
Síðan eru það leikararnir: Georgie Henley leikur yngsta systkinið, Lucy, og gerir það alveg ágætlega miðað við hversu ung hún er. Skandar Keynes virkar ekki alveg í hlutverki Edmunds. Hann er ekki nógu svona… “Illgjarn” eins og hann á að vera; svíkur systkini sín fyrir nammi og níðist á yngsta systkini sínu. Anna Popplewell leikur síðan næstelsta systkinið, Susan, mjög vel, enda er hún auðvitað aðeins eldri en Georgie og Skandar (þó að það segi kannski ekkert alltof mikið um leikarana). Hins vegar er William Moseley frábær sem elsti bróðirinn, Peter. Hann er gjörsamlega alveg eins og ég ímyndaði mér hann; hugrakkur og hugljúfur unglingsstrákur sem gætir systkina sinna vel en samt svolítið hræddur við að beita sverði. Síðan er það Tilda Swinton sem leikur Hvítu nornina eða The White Witch. Hún leikur hana mjög vel en samt er það karakterinn og útlitið sem fer í taugarnar á mér. Í bókinni er hún dökkhærð og náföl og miklu stærri heldur en venjuleg manneskja. Þar er hún hálfgerður risi og miklu hræðilegri, miklu illgjarnari og miklu hættulegri.
Andrew Adams, sem leikstýrði Shrek 1 og 2, leikstýrir þessari mynd og sannar að hann á miklu meira skilið en að leikstýra bara teiknimyndum (þó að sumar teiknimyndir séu mjög góðar) og ég vonast eftir að sjá fleiri myndir eftir hann á næstunni (ef ekki bara aðra Narniumynd).
Narnia er semsagt frábær ævintýramynd sem allir ættu að sjá. Ég bíð spenntur eftir næstu mynd, Prince Caspian (ef hún verður gerð), og vona að hún verði eins góð og þessi.
****/*****