Konungur stríða Ég fékk mér göngutúr út á videóleigu og skellti mér á myndina Lord of war(2005) sem Andrew Niccol (S1m0ne, Gattaca) bæði skrifaði og leikstýrði.

Yuri Orlov (Nicholas Cage) er úkraínskur innflytjandi sem er orðinn dauðleiður á því að vinna á matsölustað föður síns og ákveður því að fara út í að selja skotvopn. Strax eftir að hann selur fyrstu byssuna verður hann hugfanginn af þessari atvinnu og vill fá meiri viðskipti og meiri peninga.

Þessi mynd er frekar sérstök þar sem aðal “hetjan” er alls engin hetja heldur mætti frekar kalla hann nokkurs konar and-hetju þar sem hann vinnur við að útvega skotvopn fyrir hina ýmsu harðstjóra og illmenni, meðal annars Andrew Babtiste, harðstjóra í Afríku. En þrátt fyrir að persónan sem Cage leikur sé engin hetja er hann samt látinn vera viðkunnalegur.

Svo tók ég líka eftir þegar upphafs ‘credit’ listinn er að rúlla þá er alveg einstaklega skemmtileg ræma sem olli því að ég tók ekki einu sinni eftir nöfnunum á skjánum en ég ætla ekki að segja frá því það gæti eyðilagt fyrir einhverjum (þótt ég efi það, en hver veit).

Mér finnst þessi mynd vera alveg einstaklega vel skrifuð. Þegar ég fór að skoða hver hafði skrifað hana sá ég að það var Andrew Niccol sem meðal annars skrifaði The Truman show og The Terminal sem mér finnst einnig vera alveg frábærar myndir. Þesssi mynd er ekki ein af þessum fyrirsjáanlegu Hollywood myndum heldur er maður hugsandi alla myndina og maður veit aldrei hvað gerist næst. Endirinn er heldur ekki fyrirsjánlegur heldur frekar svona endir sem lætur mann pæla aðeins. Maður er ekki bara svona “djöfull vissi ég að þetta myndi gerast mar”.

Leikararnir standa sig flestir með prýði og má nefna t.d. Jaret Leto sem leikur Vitaly, kókaín-sjúka yngri bróður Yuris. Og Bridget Moynahan leikur Avu Fontaine sem er módel sem að Yuri hefur verið ástfangin af síðan hann var lítill. Mér fannst reyndar Ethan Hawke ekki passa beint inní hlutverk Jack Valentine, Interpol manns sem stóran hluta myndarinnar er á eftir Yuri en ekkert gengur hjá honum vegna þessa að Yuri hylur slóða sína svo vel og notar gloppur í lögunum.

Svo að ég ljúki þessu þá segi ég bara farið út á leigu ef þið hafið ekki séð þessa mynd og horfið á hana.

Stjörnur: ****/****

kv. Liverpool