Ég elska falda gullmola…………

Einn slíkur er The Boondock Saints, mynd sem kom nýverið beint á vídeó hér á klakann. Þessi mynd var algjört flopp í bíó í Bandaríkjunum þrátt fyrir góða dóma. Sjaldan hefur ein mynd átt meiri aðsókn meira skilið. Þetta er einfaldlega besta stv (straight to video) mynd sem ég hef séð og einnig með betri myndum sem ég hef séð á þessu ári. Ég hefði frekar viljað sjá hana í bíó heldur en Titanic-wannabe, mér-er-skítt-sama-um-persónur-og-handrit bálknið Pearl Harbor.

The Boondock Saints fjallar um bræðurna Connor og Murphy MacManus. Þeir eru fluggáfaðir og strangtrúaðir kristnir menn sem vinna í kjötvinnslu. Eftir að hafa lent í útistöðum við lágtsetta menn úr rússnesku mafíunni, sem þeir enda með að drepa, ákveða þeir að uppræta hið illa og vinna sig upp mafíustigann í Boston, drepandi alla á leiðinni. Helstu leikarar eru Sean Patrick Flannery og Norman Reedus sem leika bræðurna og Willem Dafoe sem leikur FBI löggu sem rannskar glæpi þeirra.

The Boondock Saints er ekki aðeins ótrúlega flott tekin með snilldar action atriðum heldur skartar hún alveg frábæru handriti. Myndin minnir dálítið á Pulp Fiction, aðallega vegna klippingarinnar og handritsins. Handritið er einmitt fullt af frábærum svörtum húmor, góðum one-linerum og snilldar einræðum og flottum umræðum (yndisleg umræða um Charles Bronson og notkun hans á reipum í öllum myndum sínum). Leikurinn í myndinni er alveg frábær og stendur fram úr þar Willem Dafoe, sem býr til alveg ótrúlega flottan karakter og sýnir sína bestu takta (meðal annars stuttan riverdance). En myndin er ekki bara tóm action mynd um einhverja gaura í Max Payne pælingum, heldur pælir maður vel í “boðskapnum” bak við myndinni og spurningunum sem hún varpar fram.

Ég get ekki sagt annað en að þessi mynd kom mér alveg ótrúlega á óvart, bjóst aldrei við svona snilld sem færi beint á videoleiguna. Þannig að ef þið hafið ekkert betra að gera næstu kvöld, kíkið á þessa í staðinn fyrir að taka einhverja hryllilega hollywood-glansmynd sem þið nenntuð ekki á í bíó.

-bbf3
——————-