Risið upp úr öskustó
-Litla og mjóa Amélie leiðir franska endurreisn-
Undanfarið ár hafa Frakkar, líkt og Bretar í gegnum árin, sýnt að þeir vilja helst láta mata sig með hraðsoðinni Hollywoodframleiðslu þegar þeir fara í bíó.
Síðastliðið ár var algjört flopp í franskri kvikmyndagerð, samdráttur varð um þriðjung í iðnaðinum og Marin Karmitz, framleiðandi litamyndanna þriggja, leikstýrðum að Krzystof Kieslowski, lýsti því yfir að frönsk kvikmyndagerð væri komin í alvarlegar kröggur. En endurreisn franskra kvikmynda virðist vera á fullu blússi og rúmlega helmingur franskra bíógesta hefur farið að sjá innlenda framleiðslu á þessu ári.
Í fararbroddi þessa nýja “endurreisnartímabils” er Le Fabuleux Destin d´Amélie Poulain (Ótrúleg örlög Amélie Poulain), eða Amelie frá Montmartre, eins og hún er verður kynnt í henni stóru veröld. Full gamalla gilda og algjör andstæða við Romance og Intimacy, þar sem Frakkar þykja orðnir klámfengnir mjög, svo ekki sé talað um Baise moi sem gengur útá fátt annað en gróft ofbeldi og kynlíf.
Amélie hefur slegið rækilega í gegn í heimalandinu og halað inn vel á fjórða milljarð króna sem er mun meir en The Mummy returns og Pearl Harbor hafa gert samanlagt, þar í landi.
frakkar í víking
Það er alltaf mikið um að vera í Edinborg í ágústmánuði. Það er menningarmánuður og Edinborgarhátíðin, með sín leikrit, óperur og tónlistaruppákomum í algleymi. Myndlistar- og ljósmyndasýningar eru einnig út um allt, ballett og alls kyns uppistand.
Edinborgar – kvikmyndahátiðin hófst þann 12. ágúst sl og var Amélie valin sem opnunarmynd hátíðarinnar. En dreifingaraðili myndarinnar, Momentum Pictures, ætlar að gera víðreist og verður myndin í áttatíu kvikmyndahúsum á Bretlandi og annað eins hefur ekki gerst með erlenda mynd í háa herrans tíð. Frakkar hafa þó sýnt fjöldan allan af myndum á Bretlandi árlega, með misjöfnum árangri. Í júli sl hófust t.a.m. sýningar á mynd Claude Chabrol, Au Coeur du mensonge (Litur lyganna). Þar sem Frakkar hyggja nú á stórfelldan útflutning mynda sinna, börðust þeir hjá Momentum Pictures hatrammlega fyrir því að Amélie yrði ekki talsett eins og upphaflega átti að gera. Það má þakka Crouching Tiger – Hidden Dragon að slíkt er á undanhaldi í enskumælandi löndum.
gamansamur fáránleiki
Þó einhverjir segi myndina bölvaða froðu og hristi hausinn, hafa Frakkar slegist um miða á Amélie og gestir kvikmyndahúsanna drekka í sig fegurð og fáránleika myndarinnar sem vissulega er bæði yndisleg og skrýtin. Móðir Amélie lætur lífið þegar hún er að skoða Notre Dame kirkjuna, er fljúgandi maður í sjálfsvígstilraun lendir á höfði hennar. Faðir hennar, sem veitir stúlkunni helst enga athygli, ákveður upp á sitt einsdæmi að hún sé veil fyrir hjarta þegar hún stressast í læknisskoðun. Neitar hann stúlkunni um að ganga í skóla og flýr hún í sína eigin draumaveröld.
Sem ung kona flyst hún til Parísar og hlotnast henni þar starf sem gengilbeina á lummulegum veitingastað. Það er ekki beint spennuþrungið líf hennar, þar til hún finnur kassa sem inniheldur gamlar eigur skólapilts nokkurs. Amélie ákveður að finna þennan dreng, hvað sem það kostar. Hún hefur fundið tilgang með lífinu og í leit sinni tekur hún upp hjá sér að hvetja, og jafnvel verðlauna, þá sem eru “góðir” en refsar þeim sem eru “vondir”. Verður svo ástfangin af sölumanni í klámmyndabúð, honum Nino, sem leikinn er af Mathieu Kassovitz (leikstjóra La Haine/Hatur). Aðaláhugamál Nino´s er klámmyndahulstrasöfnun!
hollywood í skammarkrókinn
Upphaflega átti enska leikkonan Emily Watson að leika aðalhlutverkið, en leikstjórinn, Jean-Pierre Jeunet (Delicatessen, Borg týndu barnanna, Alien:Resurrection) er einlægur aðdáandi síðan hann sá Breaking the Waves, mynd Lars von Trier frá ´96. Í fyrstu var Amélie kölluð Emily, en Watson hætti við hlutverkið og var nafninu þá örlítið breytt. Ung og lítt þekkt stúlka, Audrey Toutou, var fengin til að túlka hina litlu, pervisnu og feimnu stúlku sem allir virðast vanmeta. Gerir hún það aldeilis frábærlega.
Það að Jeunet skuli leikstýra, hefur vakið misjöfn viðbrögð. Frakkar eru á báðum áttum, hann er kominn með Hollywood stimpil eftir að hafa gert Alien:Resurrection. Margir Frakkar óttast hina svokölluðu “Franco-Hollywood” stefnu, með Luc Besson í fararbroddi sem gerði The Fifth Element í Hollywood og framleiddi Taxi –dúettinn, með tilheyrandi látum (og peningum). Frakkarnir vildu t.a.m. ekki senda Belphégor, hrollvekju í sciense/fiction stíl á hátíðina, þar sem hún var talin koma beint úr “Luc Besson skólanum”.
belja og forseti í bræðralag við úlfa
Það er styrkur Amélie að hún höfðar til allra, ekki síst fullorðinna. Nokkrar myndir hafa gengið vel að undanförnu sem eiga að höfða til fullorðins fólks, eins og gamanmyndirnar La Vérité si je mens 2 (Myndi ég skrökva að þér –2) og Le Placard (Skápurinn). Fjallar hún um mann sem er við það að missa vinnuna, þegar orðrómi um að hann sé hommi er komið af stað í þeirri von að forsvarsmenn fyrirtækisins þori ekki að segja honum upp og verði þá sakaðir um fordóma í garð samkynhneygðra.
Frakkar eru líka að verða frakkari í kvikmyndagerðinni upp á síðkastið. Þó margir fari troðnar slóðir með hefðbundnum sálfræðilegum tryllum þar sem vant fólk heldur um stjórnvölinn, halda Frakkar nú í víking með fjölbreyttan hóp mynda, eins og gamanmyndina Le Vache et le president (Beljan og forsetinn) og bardagamynd í gotneskum stíl, Le Pacte des Loups (Bræðralag Úlfanna).
Frönsk kvikmyndagerð þarf á því að halda að Amélie gangi vel utan landsins. Ekki er nóg með að Amélie litla þurfi að sanna sjálfa sig, heldur er meiningin að fjöldi mynda fylgi í kjölfarið til að sýna og sanna Evrópubúum (til að byrja með) að Frakkar eru í stórsókn í kvikmyndaiðnaðinum.
Jeunet hefur áður sýnt að hann er einstakur leikstjóri sem hefur einstaka næmni á hið fallega, sorglega og fáránlega. Eins og Jóhanna af Örk forðum, ætlar Amélie litla að berjast fyrir land sitt en nú er það líf franska kvikmyndaiðnaðarins sem er að veði.
Já, það er ekki lítið lagt á þessar smágerðu herðar.