Cher að tæla
Óskarsverðlaunahafinn, hún Cher (Cherilyn Sarkisian LaPierre), sem orðin er 55 ára er að reyna að tæla hinn 32 ára gamla Brendan Fraser til að leika á móti sér í sinni næstu mynd. Cher er ekki feimin við að lýsa yfir aðdáun sinni á Fraser, sem elt hefur múmíur af miklum móð á undanförnum árum Myndinni ætlar hún að leikstýra sjálf, auk þess að vera í aðalhlutverki. Heitir hún The Enchanted Cottage og er þetta önnur endurgerð sögunnar sem fyrst kom út 1924. Þá sem þögul mynd, með Richard Barthelmess og May McAvoy en Robert Young og Dorothy McGuire voru í endurgerðinni 1945.
Sagan segir frá söngkonu sem lendir í slysi og getur þess vegna ekki haldið áfram að troða upp. Í vonleysi og þunglyndi kemur hún sér fyrir í litlu þorpi, hittir þar yngri mann og……………..
Af Fraser er það annars að frétta að hann tekur nú þátt í myndinni The Quiet American sem er byggð á sögu Graham Greene. Sagan fjallar um baráttu Víetnama fyrir sjálfstæði sínu frá Frökkum á sjötta áratugnum og leikur Fraser CIA mann sem sendur er til Vietnam í byrjun átakanna. Hrífst hann af ástkonu (Do Hai Yen) bandarísks blaðamanns og ópíumneytanda mikils (Michael Caine), með tilheyrandi veseni. Phillip Noyse (The Bone Collector), leikstýrir.
Númer sex
Simon West, leikstjóri Tomb Raider, ætlar ráðast í gerð myndar sem gerð er upp úr breskum sjónvarpsþáttum frá 1968 -´69, The Prisoner. Þættirnir fjölluðu um mann (upphaflega leikinn af Patrick McGoohan) sem vaknar allt í einu upp á ókunnum stað og hefur fengið nýtt og frumlegt nafn, Númer Sex. Universal kvikmyndaverið tekur verkið að sér og heyrst hefur að handritshöfundar Apaplánetunnar, hinnar nýju, þeir Lawrence Konner og Mark Rosenthal, skrifi handritið. West vill meina að myndin verði nú bara byggð á þáttunum og færð til nútímans, þar sem ýmislegt hafi nú breyst síðan ´68. Tökur hefjast væntanlega snemma næsta árs og myndin verður sýnd 2003.