Tengill á myndina er hér: http://www.imdb.com/title/tt0420087/
Leikstjóri myndarinnar er Robert Altman en hann hefur ekki gert ómerkari myndir en MASH og Nashville. Í seinni tíð hefur hann gert Short Cuts og Gosford Park en sú síðastnefndu ættu einhverjir að muna eftir en hún var tilnefnd til 7 Óskarsverðlauna árið 2002, þ.á.m. sem besta mynd og besti leikstjóri.
A Prairie Home Companion fjallar um samnefndan útvarpsþátt sem gekk í yfir 30 ár í Bandaríkjunum. Í rauninni fjallar myndin um síðasta útvarpsþáttinn sem var gerður frá A til Ö, frá því að þátturinn hefst og þangað til þátturinn endar. Fylgst er með útsendingunni og hvað gerist baksviðs á meðal fólksins sem kemur fram í þættinum. Útvarpsþátturinn A Prairie Home Companion var sambland af tónlist, bröndurum, sögum, spuna og auglýsingum - allt live - og var þessi útvarpsþáttur eins og leikrit. Það var selt inn þannig að áhorfendur gátu komið og séð útsendinguna á sviði.
Leikararnir eru ekki af verri endanum en það er erfitt að koma auga á hverjir er í aðalhlutverkum og hverjir eru í aukahlutverkum því nánast allir koma fram í myndinni jafn mikið. Helst má þá nefna Garrison Keillor en hann er sá sem var með þennan útvarpsþátt í 30 ár og leikur þar með sjálfan sig í myndinni. Þess má geta að hann kom til landsins í tilefni sýningarinnar ásamt John C. Reilly og fleirum. Í öðrum hlutverkum fyrir utan gæðaleikarann Reilly er Meryl Streep - sem sýnir stórleik -, Kevin Kline, Virginia Madsen, Woody Harrelson, Tommy Lee Jones og Lindsay Lohan.
A Prairie Home Companion er alveg týpísk Altman mynd; sérstök, hæg og frekar furðuleg. Myndin byggist að öllu leyti á samtölum aðstandenda útvarpsþáttarins og fyrir mitt leyti varð ég dáldið þreyttur á því, það er talað og talað og talað. Myndin er mjög kómísk, það er undirliggjandi þráður af húmor í gegnum alla myndina sem nær hámarki með tvíeykinu Lefty (Reilly) og Dusty (Harrelson) en þeir leika kúreka í myndinni sem spila dónalega tónlist og segja klúra brandara.
Ég veit eiginlega ekki hvað ég á að halda um myndina. Hún var hvorki skemmtileg né leiðinleg. Mér leiddist ekki en ég skemmti mér ekki heldur. Hún var bara furðuleg á einhvern furðulegan hátt. Hún var ekki skrítin eins og Mulholland Dr. heldur meira skrítin eins og Being John Malkovich (ef einhver skilur hvað ég á við, en ég efast um það!) Þetta er bara Robert Altman mynd. Sem slík er hún ágæt en ég hef aldrei fílað hann neitt sérstaklega. Til að mynda ældi ég yfir Gosford Park, hún er með leiðinlegri myndum sem ég hef séð.
A Prairie Home Companion er mynd sem ég get mælt með fyrir aðdáendur Robert Altmans en aðra bið ég að halda sig frá henni. Til dæmis bið ég alla 16 ára og yngri að halda sig frá henni. Ástæða: Ég held þið skiljið hana ekki. Ekki móðgast en því miður er sannleikurinn eftirfarandi: þroski ykkar er ekki nægur til að átta ykkur á myndinni. Þetta er ekki grín-, afþreyingar-, eða spennumynd.
Leikurinn er til fyrirmyndar og þá sérstaklega hjá Meryl Streep og Garrison Keillor. Það kæmi mér ekki á óvart að þessi mynd fengi nokkrar tilnefningar til Óskars á næsta ári en Altman hefur fengið ófáar tilnefningar á ferlinum. Meryl Streep hlýtur að fá tilnefningu en ég veit ekki hvort það ætti að vera aðal- eða aukahlutverk.
En allavega, ég veit ekkert hvað ég hef verið að skrifa, þetta er ömurleg gagnrýni. Niðurstaða: 6/10.
Lífið gengur út á að vera númer 1, ekki númer 2.