Ég fór á eina stærstu mynd ársins í gær en það er Mission: Impossible 3. Fyrsta myndin var hágæðamynd, gott plott og flottur hasar. Ég hef ekki séð aðra myndina í langan tíma og man ekkert úr henni en hún þénaði örugglega í kassann og því varð að fullkomna trilogíuna. Í leikstjórastólnum nú situr J.J. Abrams. Nafn sem ég kannaðist við og fattaðiloks að er höfundur Lost-hringavitleysinnar en J.J. skrifar einnig M:I 3 og er þetta fyrsta myndin í fullri lengd. Ég var því með nettan fiðring í maganum er ég settist í grjóthart bíósætið í Sambíónum Álfabakka og beið eftir að myndin hæfist, ekki bara vegna J.J., heldur einnig vegna þess að trailerinn er alveg hreint magnaður. Atriðið í lokin á honum, þar sem Cruise hleypur burt frá bíl sem springur, hendist á anann bíl og síðan fljúga orrustuþotur yfir er bara töff.
En að myndinni sjálfri. Cruise er mættur sem fyrr í hlutverk Ethan Hunt. Hunt er hættur að vinna hjá IMF (Impossible Mission Force minnir mig) stofnuninni, sestur í helgan stein og er á góðri leið með að gifta sig. Hann er næstum því jafn ástfanginn í myndinni og í raunveruleikanum og þá er mikið sagt. Allt breytist þó er hann fær þau skilaboð að fyrrverandi lærlingi hans hjá IMF hafi verið rænt og að henni verði að bjarga undir eins. Hunt er ekki lengi að taka að sér verkefnið en maðurinn á bakvið ránið, auk þess að vera alþjóðlegur vopnasali og hryðjuverkamaður, er Owen Davian (Philip Seymour Hoffman). Davian hefur verið undir smásjánni hjá IMF en hann er gífurlega valdamikill og klókur og hefur þess vegna leikið lausum hala. Ég veit ekki hvað ég ætla að fara lengra með söguþráðinn hérna, þetta er fínt.
Byrjum á Philip Seymour Hoffman… hvílíkur meistari! Ég á ekki til orð, hann er svo ótrúlega góður í þessu hlutverki og greinilegt að maðurinn er að springa úr sjálfstrausti eftir að hafa fengið lof um allan heim fyrir leik sinn í Capote. Hann hefur alltaf verið góður leikari en samt tók ég aldrei almennilega eftir honum. Setningin úr trailernum er lýsandi dæmi um Davian:
“Who are you? Do you have a wife? A girlfriend? Whoever she is, I'm gonna find her. I'm gonna hurt her. And then I'm going to kill you right in front of her.”
Maður fær hroll við að heyra þetta. Svo sallarólegur og yfirvegaður, gjörsamlega sannfærður um eigin yfirburði gagnvart öllum þeim sem eru með eitthvað múður. Þetta er besti vondi-kall sem ég hef séð í langan tíma. Crusarinn er líka þéttur, verð að hrósa honum. Hann er að toppa leik sínn í fyrri myndunum í seríunni og gott betur. Hann nær loksins að fullkomna þennan gaur; Ethan Hunt og leikur hann af mun meiri innlifun en í fyrstu tveim enda búinn að fá næga æfingu. Að sjálfsögðu er líka fyndni side-kickinn er í þessu tilviki er það vísindamaðurinn hjá IMF en hann er leikinn af þeim sama og lék Shaun í Shaun of the Dead. Ving Rhames er auðvitað mættur aftur og er svalur að vanda.
Ég verð að setja aðeins út á uppbyggingu myndarinnar en hún minnir óþægilega mikið á tölvuleik. Hunt fer í mission hér, mission þar. Maður fær Mission briefing á milli missiona í leikjum. Mjög líkt hérna. Hunt fær upplýsingar um að hann eigi að redda málum í Berlín og í næsta atriði er Hunt tilbúinn með byssu í hönd í Berlín. Hunt ferðast auk þess mjög mikið en í myndinni fer hann til Róm, Berlín og Sjanghai. Ef M:I 3 leikurinn er ekki kominn þá er mjög stutt í hann get ég lofað þér og þegar hann kemur mun hann líkjast myndinni ansi mikið. Plottið er ekkert sérlega flókið í sjálfu sér en til að líkjast fyrri myndum er auðvitað stórt twist sem á að koma rosalega á óvart en er eitthvað sem maður hefur séð hundrað sinnum og kemur í raun lítið á óvart.
Stærsti plúsinn eru skiljanlega hasaratriðin en þau eru mjög löng, hávaðasöm og full af eltingarleikjum og skotbardögum. Sagði ég hávaðasöm? Ég held að ég hafi aldrei heyrt jafn mikil læti í bíó eins og á þessari mynd. Þessi hasaratriði vara meirihlutann af myndinni en koma á kostnað flóknar sögu eins og var í fyrstu myndinni. Mér er eiginlega sama, þessi atriði eru þrælmögnuð og áhrifamikil. J.J. ætti að leikstýra blockbuster-myndum árlega því miðað við að þetta er frumraun hans er þetta alveg frábært. Mission Impossible 3 er sterkasta myndin í þríleiknum þegar allt kemur til alls. Langbesta illmennið, algjört yfirburðakvikindi. Spennan er mikil undir lokin í 3 en ég held samt að fátt toppi spennuna þegar Cruise hékk í loftinu í M:I 1. Það var Brian de Palma, J.J. Abrams er tekinn við.
Skellum á hana 80/100. Skemmtiefni í hæsta gæðaflokki.