Það er alltaf jafn gaman að detta niður á óvænta snilld og það gerði ég svo sannarlega á dögunum. Kvikmyndin “Rosencrantz and Guildenstern are Dead” er ein besta mynd sem ég hef séð í langan tíma og hvet ég alla til að skunda sem fyrst niður í Videohöll í Lágmúlanum og leigja sér eintak.
Til að horfa á þessa mynd þyrfti maður helst að kannast við leikritið Hamlet eftir Shakespeare, maður þarf ekkert kunna það utan að, bara vita af hverju Ófelía drap sig og svoleiðis. Myndin er gerð eftir leikritinu “Rosencrantz and Guildenstern are Dead” eftir Tom Stoppard en það var frumsýnt fyrst 1967. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar og Stoppard hefur verið ötull rithöfundur og unnið til fjölda verðlauna. Hann skrifaði til að mynda handritið að “Shakespeare in Love”, “Brazil” og “Empire of the Sun” eftir bók J.G.Ballards en settist í fyrsta skiptið í leikstjórastólinn 1990 þegar kom að gerð kvikmyndarinnar “Rosencrantz and Guildenstern are dead”.
Sagan fjallar semsagt um tvo karaktera í Hamlet eftir Shakespeare, Rosencrantz og Guildenstern en þeir eru leiknir af snillingunum Tim Roth og Gary Oldman . Í Hamlet eru þeir einhverjir gæjar sem hanga aðeins í kringum Hamlet til að hressa hann við í smástund og svo ekkert meir en myndin sýnir okkur Hamlet frá þeirra sjónarhóli. Áhorfandinn fær að vita allt um það sem þeir gera þegar þeir eru ekki í Hamlet og manni líður alltaf eins og eitthvað geðveikislega merkilegt sé að gerast í næsta herbergi….Hamlet að byrla mömmu sinni eitur eða eitthvað.
Rosencrantz and Guildenstern hafa ekki hugmynd um af hverju þeir eru þarna, muna ekkert eftir að hafa verið æskuvinir Hamlets, vita ekki hvor þeirra heitir Rosencrantz og hvor Guildenstern og verða geðveikt hissa þegar þeir þylja upp setningar í samræðum við Hamlet sem þeir vita ekki einu sinni hvað snúast um. Þeir vita bara að það var sent eftir þeim. Þessi mynd er líka sérstaklega skemmtileg fyrir frábæra orðaleiki og maður verður eiginlega að sjá hana oftar en einu sinni…..og eiginlega oftar en tvisvar. Allavega fór ég strax næsta dag niður í 2001 og pantaði mér eintak. Eitt flottasta atriði myndarinnar er orðatennisinn, orðaleikur sem þeir spila á tennisvelli og er alveg viðbjóðslega fyndinn gáfumannabrandari.
Annar frábær karakter er leikinn af Richard Dreyfuss . Hann leikur leikara sem gerir sér alveg grein fyrir af hverju hann er í þessari mynd, annað en Guildenstern og Rosencrantz; “Við erum harmleikendur. Við förum eftir leiðbeiningum. Það er ekki val í spilinu.” Þetta er fyndnasta “gáfumynd” sem ég hef séð og Roth og Oldman eru ótrúlega góðir í sínum hlutverkum, smá viprur í munnvikum og augnaráð geta breytt leiðinda einræðu Hamlets í bjánalegasta brandarann. Ég hefði ekki getað ímyndað mér Gary Oldman svona fyndinn en hann er kostulega utan við sig um leið og hann er á nippinu með að uppgötva eitthvað stórkostlegt eins og þyngdarlögmálið eða flugvélar. Ég gæti blaðrað endalaust um ágæti þessarar myndar en ætla að nema staðar hér. Horfið á Hamlet…..kynnist aðeins karakterunum….og sjáið svo þessa mynd. Það er svo þess virði.