Íslenskar Kvikmyndir Sem ritgerðarefni í skólanum valdi ég að skrifa um íslenskar kvikmyndir og ég ákváð að senda ritgerðina hér inn.

Inngangur

Sem ritgerðarefni hef ég valið mér að fjalla um íslenskar kvikmyndir. Ekki einhverjar sérstakar kvikmyndir heldur sögu íslenskra kvikmynda frá upphafi 20. aldar til seinni tíma. Kvikmyndir eru eitt merkilegasta listform okkar tíma og þrátt fyrir að vera tiltölulega nýtt í samanburði við t.d. bókmenntir hefur það skapað sér sess við hliðina á virtustu listformum sögunnar. Ísland á sér töluverða kvikmyndasögu og hafa kvikmyndir verið sýndar hér á landi í yfir 100 ár. Hér eftir á ætla ég að rekja íslenska kvikmyndasögu allt frá fyrstu árum til síðari tíma.

Fyrstu ár kvikmynda á Íslandi

Íslendingar komust í fyrsta sinn í kynni við “lifandi myndir” sumarið 1903 fyrir tilstilli tveggja útlendinga sem voru á ferð um landið og sýndu slíkar myndir, þeir D. Fernander og R. Hallseth, og vakti þetta nýja fyrirbrigði mikla lukku og var uppselt á allar sýningar. Stuttu eftir heimsókn þeirra gekkst Ólafur Johnson ásamt nokkrum öðrum mönnum fyrir kaupum á tækjum til kvikmyndasýninga og stofnaði fyrsta íslenska kvikmyndafélagið, Ó. Johnson & Co. Fyrstu sýningar þeirra voru þó frekar misheppnaðar enda mennirnir algjörlega óæfðir í kvikmyndasýningum. Haustið 1904 hófust kvikmyndasýningar þó að alvöru hjá Ó. Johnson & Co. og var aðsókn mikil. Árið 1905 fjárfesti fyrirtækið í nýrri sýningarvél og lofaði betra “prógrammi” en nokkru sinni fyrr. Árið 1906 breytti þó fyrirtækið um nafn og hét nú Íslenskt Lifandi Myndafélag. Sama ár fór samkeppnin harðnandi og voru myndir sýndar á tveimur stöðum sama kvöldið. Fyrri hluta árs 1907 hætti þó fyrirtækið störfum vegna bruna og seldi eignir sínar til Vilhelm Knudsen á Akureyri.

Reykjavíkur Biograftheater

Nýtt íslenskt kvikmyndahús var tekið í notkun þann 2. nóvember 1906. Var það nefnt Reykjavíkur Biograftheater og hóf það reglubundnar kvikmyndasýningar. Reykvíkingum fannst nafnið heldur óþjált og fóru fljótlega að stytta það í “bíó” sem hefur síðan fests í málinu. Fr. Warburg, danskur stórkaupmaður átti bíóið en fyrsti útsendari hans á Íslandi var Alfred Lind sem hafði sér til aðstoðar sýningarmanninn Peter Petersen. Petersen tók svo við stjórn bíóhússins 1907 þegar Alfred Lind snéri aftur til heimkynna sinna og keypti síðan bíóið þegar Warburg lést 1913. Peter Petersen rak bíóið til 1939 en hann fluttist til fæðingarborgar sinnar 1940. Þessi maður var kallaður “Bíópetersen” og var þekktur í þjóðlífinu. Alfred Lind og Bíópetersen fóru fljótlega sjálfir að taka upp myndir og var myndin Slökkviliðsæfing í Reykjavík sýnd í desember 1906. Á milli 1907 og 1912 var af og til reynt að efna til samkeppni við Reykjavíkur Biograftheater en bíóið hélt alltaf velli og dó sú samkeppni niður jafnan.

Tilkoma Nýja Bíós og húsnæðisbreytingar

Árið 1912 urðu mikil tíðindi í kvikmyndaheimi Íslendinga en hinn 12. apríl var stofnað nýtt kvikmyndahús í Reykjavík og nefndist það Nýja bíó. Meðal þeirra manna sem stóðu að bíóhúsinu var Ólafur Johnson sem hafði látið mikið í sér heyra í íslenska bíóheiminum á árum áður. Eftir stofnun Nýja bíós var farið að kalla Reykjavíkur Biograftheater “Gamla bíó” og byrjaði það meira að segja að auglýsa sig sjálft sem “Gamla bíó” stuttu síðar. Fyrst um sinn sýndi Nýja Bíó sýningar sínar í svonefndum Austursal á Hótel Íslandi. Því var sagt upp húsnæði sínu á Hótel Íslandi 1919 og hóf þá Bjarni Jónsson (framkvæmdastjóri Nýja Bíós) strax að láta byggja nýtt kvikmyndahús. Það myndi vera staðsett við Austurstræti og hófst bygging þess 8. maí sama ár. Húsið var tekið í notkun þann 19. júlí 1920 og fyrsta myndin sem var sýnd þar nefndist Sigrún á Sunnuhvoli. Gamla Bíó hafði verið staðsett í Fjalakettinum við Aðalstræti frá byrjun en það húsnæði varð fljótlega allt of lítið fyrir starfsemina en ekki var kostur á öðru húsnæði. Peter Petersen bíóstjóri keypti lóð við Ingólfsstræti árið 1924 og var hafist handa við byggingu nýs bíóhúss þann 13. september 1925. Þann 2. ágúst 1927 var fyrsta sýningin haldin í nýja húsinu og var myndin Ben Hur frumsýnd þar.

Myndir teknar á Íslandi og íslenskar kvikmyndir

Bæði bíóin reyndu að sýna innlendar kvikmyndir af fréttnæmum atburðum og framleiddu jafnvel stundum saman myndir. Gamla Bíó var þó heldur öflugra í framleiðslu mynda og eignaðist Bíópetersen sína eigin tökuvél skömmu eftir fyrri heimsstyrjöld. Áróður fyrir slæmum áhrifum kvikmynda á fólk, krakka og unglinga, er ekkert nýtt fyrirbrigði og varð þess vart á fyrstu árum kvikmyndanna að ekki voru allir sammála um gildi kvikmynda. Margir gagnrýnendur og fjölmiðlamenn lýstu yfir óánægju sinni á þessum skemmtunum og töldu þetta vera spillandi fyrir börn og ungt fólk. En þessi gagnrýni hafði þó ekki mikil áhrif á vinsældir kvikmynda hér á landi og var fljótlega farið að sýna kvikmyndir um allt land og flest stærri bæjarfélögin fjárfestu í sinni eigin sýningarvél. Það var ljóst að kvikmyndir voru komnar til að vera á Íslandi eins og í flestum öðrum löndum. Margar fyrstu “íslensku” kvikmyndirnar voru framleiddar af erlendum kvikmyndagerðamönnum og komu sumar Norðurlandaþjóðanna nokkru sinnum hingað til lands til að taka kvikmyndir. Árið 1918 var myndin Berg-Ejvind och hans hustru frumsýnd á Íslandi en hún var byggð á leikriti Jóhanns Sigurjónssonar um útlagann Fjalla-Eyvind og Höllu konu hans sem voru uppi á 18. öld. Sú mynd var framleidd af Svíum en árið 1919 kom danska kvikmyndafélagið Nordisk Film Kompagni til landsins til þess að gera kvikmynd eftir sögu Gunnars Gunnarssonar Saga Borgarættarinnar. Bretar létu sig ekki vanta og var myndin The Prodigal Son, byggð á sögu Sir Hall Caine sem gerðist að hluta til á Íslandi, tekin að hluta hér 1922. Íslenskir kvikmyndagerðamenn létu einnig í sér heyra á 3. áratugnum og gerði Loftur Guðmundsson ljósmyndari yfirgripsmikla heimildamynd um Ísland sem frumsýnd var árið 1925, Ísland í Lifandi Myndum. Leikritahöfundurinn Guðmundur Kamban hóf einnig gerð kvikmynda og stjórnaði hann upptöku tveggja kvikmynda eftir sínum eigin verkum, í sambandi við Dani um sama tíma. Það voru myndirnar Hadda Padda 1924 og Det sovende hus 1926. 1. september 1930 komu talmyndir til sögunnar á Íslandi og við lok ársins hóf Ríkisútvarpið rekstur. Á kreppuárunum dvínaði kvikmyndagerð töluvert, að minnsta kosti framan af áratugnum, en svo fór að seinna þurfti atvinnulífið á kvikmyndagerðinni að halda.

Síðari heimstyrjöldin og aukning á kvikmyndagerð

Síðari heimstyrjöldin hafði mikil áhrif á þjóðlíf hér á landi og á kvikmyndir og kvikmyndagerð. Eftir að Ísland var hernumið jókst bíósókn mikið, m.a. á breskar og amerískar myndir, og kom herinn upp tveimur braggakvikmyndahúsum. Einnig var stofnað nýtt kvikmyndahús á Íslandi 1942 og nefndist það Tjarnarbíó. Ekki er mikið vitað um íslenska kvikmyndagerð á þessum árum en herinn kvikmyndaði mikið og vel, einkum Bretar. Eftir stríðið styrktist íslenskur efnahagur til muna og sömuleiðis fóru menn oftar að gera íslenskar kvikmyndir. Einnig fóru ungir menn til Hollywood að leita sér menntunar en fram að þessu höfðu nær allir íslenskir kvikmyndagerðarmenn verið sjálfmenntaðir í faginu. Fjögur ný bíóhús tóku til starfa á þessum árum með stuttu millibili: Trípólibíó 1947, Austurbæjarbíó 1947, Hafnarbíó 1948 og Stjörnubíó 1950. Árið 1949 var fyrsta íslenska talmyndin í lit og fullri lengd frumsýnd þann 13. janúar í Gamla Bíó. Myndin nefndist Milli fjalls og fjöru og var leikstjóri Loftur Guðmundsson. Myndin fjallar um sveitalíf á 19. öld og segir frá samskiptum sýslumannsins og konungssonarins sem er ákærður fyrir sauðaþjófnað. Árið 1950 var frumsýnd myndin Síðasti bærinn í dalnum eftir Óskar Gíslason, leikstjóri var Ævar Kvaran og myndin var byggð á samnefndu ævintýri eftir Loft Guðmundsson. Hún var einnig í lit. Síðasti bærinn í dalnum er ein frægasta íslenska kvikmyndin (á Íslandi) og er orðin að því sem má kalla “sígilda” mynd, sagan er í anda hinna gömlu þjóðsagna og fjallar hún um krakkana í sveitinni, álfa og tröll og baráttu hins góða og illa. Stuttu seinna var kvikmyndafélagið Edda-Film stofnað og stefndi það að gerð 35mm kvikmynda í staðinn fyrir venjulega 16mm myndirnar. Félagið beitti sér einnig fyrir samstarfi við kvikmyndafélög á Norðurlöndum til að koma hugmyndum sínum í framkvæmd og framleiddi félagið myndina Sölku-Völku eftir samnefndri skáldsögu Halldórs Laxness árið 1954 í samstarfi við Svía. Félagið framleiddi einnig í samstarfi við Nordisk Film Kompagni myndina 79 af stöðinni eftir skáldsögu Indriða G. Þorsteinssonar og var sú mynd frumsýnd 1962. Tímamót urðu í íslenskri kvikmyndasögu árið 1966 við stofnun Ríkissjónvarpsins og hafði það mikil áhrif á þá hægu þróun sem hafði átt sér stað í íslenskri kvikmyndagerð.

Stofnun Kvikmyndasjóðs og upphaf kvikmyndavorsins

Á 8. áratugnum urðu stór umskipti í kvikmyndaheimi Íslendinga og má segja að áratugurinn sé einn sá mikilvægasti í íslenskri kvikmyndasögu. Árið 1972 hóf Menningarsjóður að veita styrki til kvikmyndagerðamanna eftir að þrýst hafði verið mikið á stjórnvöld að kvikmyndir nytu sömu viðurkenningar og aðrar listgreinar. Þeir styrkir voru þó í mjög litlum mæli í fyrstu og námu þeir ekki nema um tíunda hluta kostnaðar við gerð heimildarmynda. Árið 1978 markaði stór tímamót í Íslenskri kvikmyndasögu og er oft minnst sem upphaf Íslenska kvikmyndavorsins. Fyrst má nefna að Kvikmyndahátíð Reykjarvíkur var haldin í fyrsta skipti. Hún var haldin á vegum Listahátíðar og stóð yfir í tíu daga. Alls rúmlega 20.000 manns sáu þær 30 myndir sem sýndar voru, þar af 8 íslenskar. Það sem þykir þó merkilegast af því sem gerðist á þessu ári í kvikmyndaheiminum er stofnun Kvikmyndasjóðs Íslands. Það hafði verið rætt um stofnun slíks sjóðs síðan um miðjan 8. áratuginn og hafði málið verið mikið í deiglunni. Lagt var fram frumvarp árið 1975 þess efnis að stofna skyldi sérstakan kvikmyndasjóð og kvikmyndasafn. Frumvarpið var samið af Ragnari Arnalds, þingmanni Alþýðubandalagsins sem var þá í stjórnarandstöðu og flutti hann það ásamt þremur meðflutningsmönnum úr öðrum flokkum. Það olli þó ýmsum deilum og var vísað til ríkisstjórnarinnar sem átti að endursemja það og leggja fram á ný hið fyrsta. Menn áttu ekki von á því að það tæki langan tíma en þó var það ekki lagt fram fyrr en í apríl 1978. Tímabilið eftir stofnun kvikmyndasjóðs er stundum nefnt íslenska kvikmyndavorið og eru margar myndirnar frá þeim tíma taldar meðal bestu kvikmynda Íslands fyrr og síðar. Þar á meðal eru myndirnar Land og synir í leikstjórn Ágústs Guðmundssonar og Óðal feðranna eftir Hrafn Gunnlaugsson. Á síðustu árum hafa komið fram margir frábærir kvikmyndaleikstjórar s.s. Baltasar Kormákur, Dagur Kári ofl. og hefur íslensk kvikmyndagerð eflst til muna og það er öruggt að kvikmyndagerð hér á landi á eftir að eflast og dafna um ókomin ár.

Lokaorð

Kvikmyndir eru eitt áhugaverðasta viðfangsefni sem völ er á og eru íslenskar kvikmyndir engu síðri í þeim málum. Rétt eins og aðrar þjóðir höfum við Íslendingar látið mikið í okkur heyra á undanförnum árum í kvikmyndagerð og hafa margir góðir íslenskir leikarar, leikstjórar og kvikmyndagerðamenn komið fram. Það er mjög mikilvægt að Íslendingar efli þessa listgrein og að við getum horft á kvikmyndir sambærilegar útlendum eftir Íslendinga og með íslenskum leikurum.