Sælir, þessi gagnrýni birtist fyrst á www.mania.stuff.is
—
Útgáfuár: 2005.
Leikstjóri: James McTeigue.
Leikarar: Hugo Weaving, Stephen Rea, John Hurt og Natalie Portman.
Handrit: Andy Wachowski og Larry Wachowski.
Lengd: 132 mín.
V For Vendetta er nýjasta útspil Wachowski-bræðra. Þeir leikstýrðu The Matrix þrennunni, og eru þær myndir í einna mestu uppáhaldi hjá mér. Þess vega hef ég beðið með eftirvæntingu eftir þessari mynd, ásamt fleirum, því allt sem bræðirnir sjá um verður að gulli og sannfærðist ég meira um það eftir þessa mynd. Þeir stóðu undir væntingum og meira en það. Bræðrunir sáu að vísu ekki um leikstjórn en James McTeigue, aðstoðarleikstjóri The Matrix myndanna, sá um þann part.
Myndin gerist í nálægri framtíð í Englandi. Stjórn Sutlers(Hurt) kanslara hefur völdin, algjör völd því einræði ríkir í landinu og gat ég ekki annað en séð að Hitler væri fyrirmyndin að þessari persónu, eða Nasistaflokkurinn að stjórn Sutlers. Byrjar myndin á að Evey(Portman) brýtur útivistarbann og kemst í hann krappan, þann 5. nóvember, þegar útsendarar Sutlers koma að henni úti eftir löglegan útivistartíma. Þegar þeir eru við það að fara að nauðga henni kemur hinn dularfulli V(Weaving) og bjargar málunum. Hann bíður henni með sér á „tónleika sem hún mun aldrei gleyma“. Þegar þau koma á staðinn, sem er húsþak, byrjar Tchaikovsky's 1812 Overture í hátalarakerfi borgarinnar. Eftir smá stund springur svo dómhúsið. Mjög flott allt saman. Svo fer Evey heim til sín og mætir til vinnu sinnar daginn eftir, sem er í ríkisrekna sjónvarpinu, og brýst V inn í bygginguna og spilar fyrir alþjóð hugsjónir sínar sem eru frjálst England. Leita Finch(Rea) og félagar að Evey, þar sem þeir vissu að hún ynni þarna og höfðu borið kennsl á hana af myndbandi af atburði gærkvöldsins, og V. Enn er 5. nóvember og snýst öll myndin um þann dag, eða frekar þá hugsjón, en fyrir þá sem eru vel að sér í sögu vita að það var þá sem Guy Fawkes ætlaði að sprengja upp þinghúsið í Englandi árið 1605. Plot-outline fyrir myndina var „People should not be afraid of their goverments. Goverments should be afraid of the people.“ og er það það sem myndin snýst um.
Ég sá ansi góðar pælingar um að kannski væri V ekkert meira en hryðjuverkamaður. Hann ber allan vott um það, enda hugsjónin sem knýr hann áfram, eins og hvern annan hryðjuverkamann. Maður sér myndina frá hans sjónarhóli og þess vegna stóð maður með honum, enda myndin byggð þannig upp. Þess vegna fór ég að spá, ef þeir hefðu sagt söguna frá sjónarhóli Sutlers kanslara hefði maður litið á hann sem hryðjuverkamann. Gaman að hugsa um svona hluti, gefur manni meiri innsýn í myndina.
Hugo Weaving fer með stórleik í myndinni, og þá meina ég það. Maðurinn hafði ekkert nema hreyfingu og rödd til að tjá sig, og hvað hann nær að koma hlutverkinu vel frá sér! Röddin var eins og sköpuð fyrir þessa mynd.
Natalie Portman stóð sig einnig vel og fátt um hana að segja en það reynir lítið á leik Stephen Rea í myndinni sem rannsóknarlögreglan Finch. John Hurt sést svona fimm sinnum í myndinni, og þá bara hausinn.
Þessi mynd er klárlega ein stærsta mynd ársins, ef ekki bara stærsta.
9/10.