Óskarsverðlaunin voru afhent í 78. skipti í Kodak-leikhúsinu í Los Angeles. Kynnir hátíðarinnar að þessu sinni var Jon Stewart, sem er hvað þekktastur fyrir þátt sinn Daily Show úti. Stewart var hress og mjög fyndinn á köflum og sérstaklega gaman að athugasemdunum um Dick Cheney og Björk og síðan setningunni: “Walk the Line is just Ray with white people,” en segja má frá því að þessi ummæli hans virtust ekki fara vel í Jouaqin Phoenix sem leikur Johnny Cash í Walk the Line.
Ath! Þeir sem ekki hafa horft á hátíðina og vilja ekki vita úrslitin ættu ekki að lesa lengra.
Þeir sem nenna ekki að lesa greinina geta scrollað neðst í hana og séð sigurvegarana í helstu flokkunum í lista.
Óskarinn var mjög dreifður þetta árið og enginn afgerandi sigurvegari. Ef velja ætti einhvern yrði þó Crash að teljast sigurvegari kvöldsins þar sem hún var valin besta myndin. Crash hlaut 3 Óskara ásamt Brokeback Mountain og King Kong. Memoirs of a Geisha hlaut 2 verðlaun og Capote, Walk the Line, Hustle & Flow, The Chronicles of Narnia og Syriana hlutu öll einn Óskar.
Kvöldið byrjaði samkvæmt hefðinni á að verðlauna besta karlleikara í aukahlutverki. Fyrirfram þóttu Paul Giamatti, George Clooney og Jake Gyllenhaal sigurstranglegastir og kannski að flestir hafi talið að Giamatti mundi vinna til þess að bæta upp fyrir það að tilnefna hann ekki fyrir American Splendor. Óskarinn fór hins vegar til George Clooney fyrir leik sinn í Syriana. Í kvennaflokkinum voru þær Rachel Weisz og Michelle Williams taldar sigurstranglegastar en Rachel Weisz var valin besta leikkonan í aukahlutverki fyrir The Constant Gardener og það kom ekki á óvart.
Tæknibrellu-, hljóðblöndunar- og hljóðklippingarverðlaunin hlutu tæknimenn King Kong og þarf það varla að koma á óvart enda vel að öllum tæknilegum þáttum hennar staðið. Ég hvet þá sem horfðu ekki í nótt að missa ekki af Ben Stiller að afhenda þessi verðlaun í endursýningunni en kynningin hans var ein af hápunktum kvöldsins. Wallace & Gromit and the Curse of the Were-Rabbit var valin besta teiknimyndin. Hún hafði áður unnið Bafta-verðlaunin í þessum flokki en ég efast ekki um að margir hefðu heldur viljað sjá Howl’s Moving Castle (Hauru no ugoku shiro) eftir Miyazaki vinna en Miyazaki hefur áður unnið Óskarinn fyrir Spirited Away (Sen to Chihiro no kamikakushi).
Búningaverðlaunin féllu í skaut Memoirs of a Geisha og sömuleiðis verðlaun fyrir listræna leikstjón. Chronicles of Narnia hlaut verðlaun fyrir bestu förðun en ég get lítið tjáð mig um það. Hins vegar kynntu Will Ferrel og Steve Carell þessi verðlaun saman og voru mjög góðir. Lagið ‘It’s Hard Out Here for a Pimp’ var valið besta lagið en það er úr myndinni Hustle & Flow með Terrence Howard. Ég verð að segja að það kom nokkuð á óvart enda kannski ekki siður Akademíunnar að veita hiphop-lagi verðlaunin. Ég hafði minn pening á In the Deep úr Crash en það lag finnst mér frábært ásamt í raun allri tónlistinni úr Crash.
Eftir því sem leið á kvöldið fóru stóru verðlaunin sífellt að nálgast. Crash hlaut verðlaun fyrir bestu klippingu í kvikmynd og ég get verið sammála því. Handritið að Crash var einnig valið besta frumsamda handritið. Engum þarf að koma á óvart að Brokeback Mountain fékk verðlaunin fyrir besta handrit byggt á áður útgefnu efni enda eiga handritshöfundar hennar þennan heiður vel skilinn. Memoirs of a Geisha hlaut Óskarinn fyrir bestu kvikmyndatökuna. Ég hef sjálfur ekki séð myndina en það sem ég hef séð af henni lítur mjög flott út. Ég get samt sagt að ég hefði viljað sjá Brokeback Mountain taka þennan flokk enda er í mínum huga einmitt kvikmyndatakan sem á stóran þátt í að gera myndina að því sem hún er.
Loksins kom svo að því að Phillip Seymour Hoffman fékk þann heiður sem hann átti skilið. Hann er búinn að eiga Óskarinn inni lengi og ég samgladdist honum þegar hann hlaut verðlaunin fyrir besta leik í aðalhlutverki fyrir túlkun sína á Truman Capote. Ég held að flestir hafi samt búist við því að Phillip væri sniðgenginn enn einu sinni og að Akademían mundi velja Heath Ledger en mjög gaman er að maðurinn uppfyllti loksins drauminn sinn. Reese Witherspoon var valin besta leikkonan í aðalhlutverki fyrir túlkun sína á June Carter í Walk the Line. Valið stóð aðallega milli hennar og Felicity Huffman en ekki þarf að koma á óvart að svona fór enda hlaut hún einnig Golden Globe verðlaunin fyrir leik sinn.
Þá eru tvö aðalverðlaunin eftir. Leikstjóraverðlaunin hlaut Ang Lee fyrir Brokeback Mountain og ég tel það vera sanngjarnt. Mér finnst persónulega að leikstjóraverðlaunin og verðlaunin fyrir bestu mynd eigi að fylgjast að enda á leikstjórinn stóran hluta í að gear myndina góða. Hins vegar var það Crash sem var valin besta mynd ársins og ég get ekki sagt annað en að það hafi komið á óvart. Þrátt fyrir ótrúlegar vinsældir Crash hefði ég aldrei búist við þessu enda örugglega flestir sem teldu að Brokeback Mountain tæki þetta. En mér finnst Crash frábær mynd og vel að þessu komin en pólitískt séð hefði ég meira átt von á að Brokeback Mountain hreppti hnossið. Því má segja að Crash hafi verið sigurvegari kvöldsins; hlaut verðlaun fyrir bestu mynd, bestu klippingu og besta frumsamda handrit sem verður að teljast nokkuð þétt þrenna.
Hér koma svo helstu verðlaun fyrir þá sem nenna ekki að lesa greinina:
Besta mynd: Crash.
Besti leikstjóri: Ang Lee (Brokeback Mountain).
Besti leikari í aðalhlutverki: Phillip Seymour Hoffman (Capote).
Besta leikkona í aðalhlutverki: Reese Witherspoon (Walk the Line).
Besti leikkari í aukahlutverki: George Clooney (Syriana).
Besta leikkona í aukahlutverki: Rachel Weisz (The Constant Gardener)
Besta klipping: Hughes Winborne (Crash).
Besta kvikmyndataka: Dion Beebe (Memoirs of a Geisha).
Besta frumsamda handrit: Paul Haggis & Bobby Moresco (Crash).
Besta handrit byggt á áður útgefnu efni: Larry McMurtry & Diana Ossana (Brokeback Mountain).
Hvað finnst ykkur?