Óskarsverðlaunin verða afhent 5. mars næstkomandi og því ætla ég aðeins að fara yfir þessar fimm myndir sem eru tilnefndar í flokki bestu kvikmyndar. Ég hef lítinn áhuga á því að fara spá eitthvað í af hverju þessi mynd var tilnefnd en ekki þessi og svoleiðis. Ég er löngu búinn að sætta mig við það að þessi akedemía er sérstök og þannig er það nú bara. Maður getur alltaf séð það fyrir hvaða myndir verða tilnefndar. Það sem er pirrandi við þessa akademíu er að hún tekur sjaldan sénsa og gerir oftast nákvæmlega það sem er búist við að henni. En eins og ég segi, ætla ég ekki að fara eitthvað frekar út í það. Allar myndirnar í ár nema ein gerast í fortíðinni (á sjötta til áttunda áratugnum) og þrjár af þeim segja frá sögulegum atburðum.
Myndirnar fimm eru eftirfarandi:
Brokeback Mountain, í leikstjórn Ang Lee.
Brokeback Mountain hefur fengið gríðalega mikla umfjöllun enda er það ekki á hverjum degi sem bíómynd sem fjallar um tvo ástfangna karlkyns smaladrengi kemur í bíó. Auk þess að vera rosalega umtöluð er myndin rosalega oflofuð. Hvernig fólk getur kallað þessa mynd meistaraverk er ofar mínum skilningi. Myndin er góð, ég neita því ekki, mér þykir hún bara vera hrikalega ofmetin. Söguna þekkjum við en hún er sorgleg og átakanleg og ágætlega skrifuð. Myndin sjálf er mjög róleg og tekur sinn tíma í að fara yfir söguna (enda var þetta upphaflega smásaga svo það er eðlilegt að manni finnist eins og hún sé aðeins of löng) en hún er mjög vel unnin á flestum sviðum. Kvikmyndataka er stórgóð og Ang Lee notar umhverfið á mjög skemmtilegan hátt. Leikararnir sýna líka flestir stórleik. Helst ber þar að nefna þá Jake Gyllenhaal og Heath Ledger en þeir eru báðir sterkir kandídatar fyrir að vinna verðlaun. Það er erfitt að gera upp á milli þeirra enda bæði hlutverkin erfið á mismunandi hátt en ég spái að Jake vinni í sínum flokki. Heath verður að láta tilnefninguna sína duga í þetta skiptið. Það er líka vert að minnast á Michelle Williams en hún stendur sig frábærlega og kom mjög á óvart. Sambandið á milli aðalkarakteranna tveggja er það helsta sem ég hef út á að setja varðandi myndina. Mér fannst það aldrei komast á það stig að vera trúverðugt og þrátt fyrir frábæran leik milli þeirra tveggja sá ég aldrei neina ást á milli þeirra. Þar til viðbótar fílaði ég ekki tónlistina. Þegar öllu er á botninn hvolft hefur Ang Lee búið til mjög fallega og góða mynd en nýtur kannski einum of góðs af umtalinu í kringum söguna.
***1/2 / *****
Capote, í leikstjórn Bennett Miller.
Frábær mynd. Þetta er aðeins fyrsta mynd Bennett Miller ef frá er talin heimildarmynd sem hann gerði árið 1998. Það er ekki að sjá hinsvegar þar sem myndin er vel gerð í alla staði og er sérstaklega vel leikstýrð. Myndin fjallar um hinn fræga rithöhund Truman Capote á þeim tíma (1959 - 1965 sirca, ef ég man rétt) er hann var að skrifa bókina In Cold Blood sem fjallar um hræðilegt fjöldamorð á fjölskyldu í Kansas. Myndar Truman sérstakt samband við einn af morðingjunum, Perry Smith. Philip Seymour Hoffman, sá frábæri leikari eignar sér algjörlega myndina og er bara satt að segja alveg stórkostlegur í hlutverki Capote. Það er langt síðan ég hef séð einhvern leikara túlka karakter af svona miklu öryggi og gera það svona vel. Hoffman á skilið óskarinn, engin spurning um það. Clifton Collins Jr. og Catherine Keener (fékk tilnefningu) standa sig líka vel. Þetta er ekki mynd fyrir alla enda er hún mjög róleg í uppbyggingu og fókusar fyrst og fremst á aðalkarakter myndarinnar og hversu erfitt það var fyrir hann að skrifa þessa bók. Handritið er vel skrifað og gallalaust og myndin er mjög tilfinningarík og áhrifamikil. Hugsanlega besta myndin af þessum fimm.
****1/2 / *****
Crash, í leikstjórn Paul Haggis.
Svokölluð karaktersaga í stíl við Magnolia. Myndin gerist í Los Angeles og fjallar um mjög margar persónur sem allar tengjast á einhvern hátt. Sterkt drama sem kafar djúpt í hlutina og má þar helst nefna rangar ákvarðanir, rasisma og bílslys. Sum atriðin eru hrikalega áhrifamikil. Atriðið þegar það þarf að draga konu út úr brennandi bíl er eitt slíkt og annað atriði er þegar leikarinn Terrence Dashon Howard stígur út úr bíl sínum og heldur ræðu yfir lögreglunni sem hafði elt hann. En rétt eins og þessi atriði eru margar sögurnar áhugaverðar en sumar sögurnar eru bara hreinlega ekki nógu áhugaverðar. Einnig finnst mér tengingin á milli persóna vera oft á tíðum alltof tilviljunarkennd, í svona stórri borg og svoleiðis. Crash er stútfull af góðum leikurum (tjaa..Sandra Bullock) og standa allir fyrir sínu og fékk Matt Dillon meðal annars óskarstilnefningu. Persónulega finnst mér fyrrnefndur Terrence Dashon Howard standa sig best en hann er tilnefndur líka en það er fyrir leik í myndinni Hustle & Flow. Þetta er drullu góð mynd en í þessum flokki á hún væntanlega minnstu möguleika á að vinna.
***1/2 / *****
Good Night, and Good Luck, í leikstjórn George Clooney.
Önnur mynd George Clooney í fullri lengd og ásamt því að leika eitt aðalhlutverkið sjálfur eru David Strathairn, Robert Downey Jr., Jeff Daniels, Patricia Clarkson og Frank Langella meðal leikara í hinum hlutverkunum. Segir myndin frá því hvernig Edward R. Murrow (Strathairn) fór fyrir CBS sjónvarpstöðinni ásamt Fred Friendly (Clooney) þegar hún barðist gegn þingmanninum og kommúnistahataranum Joseph McCarthy á sjötta áratugnum. Þar sem myndin segir frá sannsögulegum atburðum tók Clooney upp á því að nota umtalsvert magn af uppteknu efni frá þessum tíma og er því enginn leikari sem túlkar McCarthy heldur eru bara notaðar upptökur af sjálfum McCarthy frá sjötta áratugnum. Kemur þetta bara frekar vel út. Myndin er í svört hvítu og er tæknilega séð frábærlega unnin. David Strathairn er frábær og er mjög töff í hlutverki Murrow's og er helsti keppinautur Hoffman ásamt Heath Ledger í flokki besta leikara í aðalhlutverki. Robert Downey Jr. og Frank Langella sýna stórgóðan leik einnig. Myndinni má síðan lýsa sem mjög kraftmiklu og pólítísku drama en það er eins og myndinni vanti eitthvað smá upp á. Þetta er nógu áhugavert umfjöllunarefni til að virka í 90 mínútur en það vantar eitthvað upp á til þess að maður sé virkilega hrifinn af sögunni eftir að myndin endar.
**** / *****
Munich, í leikstjórn Steven Spielberg.
Ásamt Capote þykir mér þetta vera besta myndin. Ég held að flestir viti um hvað myndin fjalli þannig ég læt það duga að segja að myndin byggist á stærstum parti á því sem gerðist eftir hræðilegu atburðina í Munich. Þetta er langbesta mynd sem Steven Spielberg hefur gert í mörg, mörg ár og telst án nokkurs vafa með hans allra bestu myndum. Það sem Spielberg gerir líka svo vel í þetta skiptið er að hann hefur tekið alla galla sína úr fyrri myndum og látið þá hverfa (óþarfa væmni til dæmis) og hann breytir svolítið um stíl, sem er í þessu tilviki jákvætt. Það eru margar senur sem eru rosalega ó-spielberg-legar og er það vel, því þetta eru góðar senur og sumar hverjar mikilvægar senur. Mér fannst til að mynda alveg frábært hvernig hann vann með gíslatöku atriðin og hvernig hann kom þeim inn í myndina hægt og bítandi á mismunandi punktum í sögunni. Sem dæmi nefni ég kynlífsatriðið sem hann klippti inni í skotbardagann á flugvellinum, ótrúlega kúl stöff. Það þarf nú varla að vera nefna þetta en myndin er mjög vel unnin (eins og allar þessar myndir) en mér fannst kvikmyndatakan, tónlistin, klippingin, andrúmsloftið og bara heildarútlit myndarinnar sérstaklega flott hér. Einnig er Spielberg mjög sanngjarn og reynir hvorki að sýna Ísrael né Palestínu í slæmu ljósi, fer bara nokkuð fínt í þetta. Eric Bana, Daniel Craig (af hverju eru þessar áhyggjur varðandi Bond? Craig er ofur svalur) og Geoffrey Rush standa upp úr góðum leikarahópi og gaman að sjá loksins Eric Bana í svona góðu hlutverki (Chopper er örugglega það eina sem kemst næst þessu). Munich er geðveik mynd, mjög spennandi og vafalaust skemmtilegasta myndin í flokknum og jafnvel sú besta.
****1/2 / *****
Ég vona að Munich eða Capote vinni þetta. Ef Philip Seymour Hoffman vinnur Óskarinn þá væri frábært að Munich myndi vinna bestu mynd. Það sem ég held að gerist hinsvegar er að annað hvort Brokeback Mountain eða Capote vinni. Munich og Good Night, and Good Luck gætu blandað sér í baráttuna einnig en það kæmi gríðarlega á óvart ef Crash myndi sigra þetta. Maður veit aldrei þó. Ef við tökum stærstu flokkana í lokin og spáum aðeins í þá.
Besta kvikmynd:
Eins og ég sagði áðan, þá vona ég að Munich eða Capote taki þetta og held að slagurinn standi á milli þeirra og Brokeback Mountain. Það verður að segjast að sú síðastnefnda er ansi líkleg til að vinna.
Besti leikari í aðalhluverki:
Philip Seymour Hoffman (Capote) á skilið að vinna og það bendir allt til þess að hann sigri þetta. Joaquin Phoenix (Walk the Line) og Terrence Dashon Howard (Hustle&Flow) eiga litla möguleika en ég held að hinir tveir; David Strathairn (Good Night, and Good Luck) og Heath Ledger (Brokeback Mountain) eigi nokkuð betri möguleiki á að hirða styttuna.
Besta leikkona í aðalhlutverki:
Ég á erfitt með að spá hér enda hef ég ekki séð allar myndirnar í þessum flokki. Reese Witherspoon (Walk the Line) er væntanlega líklegust en ég vil sem minnst segja hér. Charlize Theron (North Country) kannski.
Besti leikari í aukahlutverki:
Jake Gyllenhaal (Brokeback Mountain) tekur þetta held ég alveg örugglega. Gaman að sjá Paul Giamatti (Cinderella Man) þarna en Jake verður da winner.
Besta leikkona í aukahlutverki:
Ég spái að Michelle Williams (Brokeback Mountain) eða Frances McDormand (North Country) vinni.
Besti leikstjóri:
Mig grunar að valið standi á milli Steven Spielberg (Munich) og Ang Lee (Brokeback Mountain) hér og er í rauninni alveg viss um það. George Clooney (Good Night, and Good Luck) gæti verið óvæntur sigurvegari en Ang Lee mun líklega vinna styttuna.
Takk fyrir mig.
Samsung Fjarstýringarsson.