Spoiler viðvörun: Greinin er ætluð þeim sem hafa séð myndina en ég hvet þá mjög til að sjá myndina sem ekki hafa gert það.
Ég hef lengi ætlað að sjá Magnoliu en hafði alltaf heyrt misjafna hluti um hana. Í fyrsta lagi hélt ég að hún væri allt of löng og það var ekki fyrr en Crash kom út að ég komst að því hvað hún fjallaði raunverulega um. Magnolia hreif mig samstundis. Ég hef horft á hana tvisvar núna og mér finnst ekki vera dauður punktur í allri myndinni. Þrátt fyrir að þetta sé hrein karaktersaga og snúist í raun aðeins um sögu manneskja gerir gott handrit, skemmtilegar og áhugaverðar persónur og frábærir leikarar það að verkum að myndin heldur dampinum allan tímann. Auk þess er hún mjög djúp og froskarigningin, eitthvað einkennilegasta en um leið merkingardrýgsta atriði sem ég hef séð, sannfærði mig endanlega um að hérna væri á ferðinni einstök mynd. Ætlunin er að skoða aðeins merkingu og hugsunina bak við Magnoliu og það sem Paul Tomas Anderson vildi koma á framfæri með myndinni.
And the book says: “We may be through with the past, but the past ain’t through with us.”
Magnolia byrjar á því að sögumaður segir 3 sögur af því sem virðast vera stórkostlegar tilviljanir. Myndin nær manni strax enda óvenjuleg og áhugaverð leið til að byrja mynd og er þetta gert til að koma einu meginþema myndarinnar strax til skila. Við verðum öll fyrir því daglega að fyrir augu okkar ber stórkostlegar tilviljanir en við leiðum þær hjá okkur. Svo þegar við heyrum ótrúlegar tilviljanasögur trúum við þeim ekki því við viljum trúa því að ákveðin regal fylgi heiminum. Við viljum ekki viðurkenna hið óþekkta og ómögulega því tilhugsunin hræðir okkur.
Magnolia segir sögu af níu mismunandi persónum sem eiga það allar sameiginlegt að vera á einn eða annan hátt tengd spurningaþættinum What Do Kids Know? Persónurnar tengjast innbyrðis á þann hátt að við tryðum varla að þetta væri hægt í raunveruleikanum. Allar eiga persónurnar sameiginlegt að þær eiga við eitthvert vandamál að stríða. Claudia er í algjörri andlegri óreiðu og notar dóp; Jimmy Gator faðir hennar misnotar hana í æsku og er sjálfur að fá hjartaáfall; fyrrverandi spurningaþáttarmeistarinn Donnie Smith er í tilvistarkeppu og reynir að lifa á fornri frægð; lögreglumaðurinn Jim Kurring hefur ekki fundið neinn elskhuga í líf sitt; Frank T.J. Mackey hefur afneitað fortíð sinni og þarf að eiga við hana þegar spurningakona kemur upp um hana; Earl Partridge hefur verið slæmur faðir og liggur á dánarbeði með þá einu ósk að sættast við son sinn; Phil Pharma er hjúkrunarfræðingurinn hans sem fær það verkefni að hafa uppi á syni hans og Stanley er stjarna í What Do Kids Know? sem er orðinn þreyttur á að vera notaður af föður sínum og öðrum.
Segja má að allar persónurnar standi á einhvers konar tímamótum í lífi sínu. Eins og tilvitnunin í myndina sem er feitletruð að ofan segir eru þau kannski búin að fyrirgefa gömul mistök eða gleyma þeim en fortíðin hefur ekki gleymt þeim. Við kynnumst persónunum sem allar eru gjörólíkar og þær skapa sanna mósaík af mannlífinu. Þaðan er einmitt nafn myndarinnar dregið en magnolia er blóm samnefndrar plöntu/trés en þessi blóm eru mjög litrík. Paul Thomas Anderson reynir að sýna allt litróf mannlegs eðlis og fjölbreytileika þess eins og gefið er í skyn með titlinum. Eftir að hafa kynnst öllum persónunum og vandamálum þeirra kemur Wise Up atriðið þar sem persónurnar syngja lag um að nú sé kominn tími til að taka sér tak. Allar þurfa persónurnar að standast reikningsskil fyrir gjörðir sínar. Þær hljóta dóm; sumar þeirra fá frelsun og nýtt líf en sumar hljóta sinn dauðadóm.
When the sunshine don’t work, the good Lord bring the rain in.
Allt þetta riginingatal sem er gegnumgangandi í myndinni gæti virst skrýtið við fyrstu sýn en að sjálfsögðu er tilgangur með því eins og öllu öðru. Í byrjun myndarinnar rignir ekki en eftir því sem á hana líður rignir og verður rigningin alltaf meiri og meiri. Ég held að þetta sé eins konar undirbúningur fyrir stóru rigninguna; stóra atburðinn sem er einmitt froskarigningin. Líta má á rigninguna sem einhvers konar syndaflóð eða fyrirboða þess. Á meðan dómurinn er kveðinn yfir persónunum rignir hart en síðan styttir skyndilega upp. Þetta er eins konar logn á undan storminum því stuttu seinna kemur stóra rigningin; syndaflóðið sjálft.
—
2. Mósebók, kafli 8, vers 1-7:
Önnur plágan: Froskar
Því næst sagði Drottinn við Móse:
Gakk fyrir Faraó og seg við hann: ,Svo segir Drottinn: Gef lýð mínum fararleyfi, að þeir megi þjóna mér. En ef þú synjar honum fararleyfis, þá skal ég þjá allt þitt land með froskum. Áin skal mora af froskum. Þeir skulu fara á land upp og skríða inn í höll þína og í svefnherbergi þitt og upp í rekkju þína, inn í hús þjóna þinna og upp á fólk þitt, í bakstursofna þína og deigtrog. Og froskarnir skulu skríða upp á þig og fólk þitt og upp á alla þjóna þína.“
Og Drottinn sagði við Móse: ”Seg við Aron: ,Rétt út hönd þína og hald staf þínum uppi yfir fljótunum, ánum og tjörnunum, og lát froska koma yfir Egyptaland.'"
Aron rétti út hönd sína yfir vötn Egyptalands. Komu þá upp froskar og huldu Egyptaland. En spásagnamennirnir gjörðu slíkt hið sama með fjölkynngi sinni og létu froska koma yfir Egyptaland.
—
Þá kemur froskarigningin. Hérna kemur í rauninni myndin saman og að þessum punkti stefnir hún allan tímann. Allar pælingar og hugmyndir í henni bindast í þennan eina atburð sem er án efa eitthvað óvæntasta og um leið stórkostlegasta atriði sem verið hefur í kvikmynd. Þetta er það albesta við Magnoliu; hún brýtur ekki lögmálið um stigmögnun. samantekt og klímax. Áhorfendur Lost þekkja það úr fyrstu seríunni að þar vantar þetta algjörlega því þar er öllum hugmyndum bara kastað fram en þær koma aldrei saman og aldrei fæst neitt klímax úr þeim. Froskarigningin gegnir þannig margþættu hlutverki. Á einum tímapunkti á meðan henni stendur er zoomað inn á setninguna: “But it did happen.” Sama hversu ótrúlegt og ósennilegt eitthvað getur virst þá er staðreyndin sú að slíkir hlutir gerast daglega og hér kemur tilviljanahugmyndin saman við dóminn yfir persónunum. Eins og sést á textanum að ofan er froskarigningin bein tilvísun í biblíuna og er skráð þar sem önnur plága.
Froskarigningin þjónar þannig tilgangi syndaflóðs og dóms yfir persónunum í myndinni. Claudia, Donnie Smith, Linda, Phil, Frank og Stanley fá öll annað tækifæri en Jimmy Gator og Earl Partridge fá sinn dauðadóm. Jim Kurring þjónar hérna hlutverki eins konar sendiboða Guðs og er eiginlega andlegur leiðbeinandi hópsins. Hann metur Lindu að verðleikum og gefur henni nýja von um leið og hann gefur Donnie Smith annað tækifæri. Þetta er ekki ósennilegt þar sem það kemur skýrt fram í upphafi myndarinnar að hann sé trúrækinn og vilji leiða gott af sér í lífinu.
It’s dangerous to confuse children with angels.
Annað sem ég tók eftir í öðru áhorfi er að allir feður í myndinni misnota börn sín á einhvern hátt. Jimmy Gator misnotaði dóttur sína kynferðislega, faðir Stanleys notar hann til að upplifa eigin drauma um frægð og ríkidæmi , Earl Partridge fór frá Frank og konu sinni þegar hann var yngri og foreldrar Donnies Smith tóku peningana frá honum þegar hann var yngri. Ekki veit ég hvað Paul Thomas Anderson er að reyna að koma til skila með þessu eða hvort þetta sé einungis tilviljun. Hins vegar kemur setningin sem er feitletruð að ofan fyrir í sögu Donnies og spurning hvort þetta séu skilaboðin. Að börnin séu englar og að það beri að fara með þau sem slíka. Hið almenna viðhorf er að það sé hættulegt að rugla þeim saman við engla en Donnie Smith segir: No, it is not dangerous to confuse children with angels. Kannski vill hann meina að börnin séu dýrmætari en heimurinn líti á þau og að þau séu sannir englar; framtíð mannkyns og von þess.
Þó má ekki skilja við myndina án þess að nefna leikarana. Þeir sem standa upp úr að mínu mati eru Phillip Seymour Hoffman, Tom Cruise og Jason Robards sem eru allir hluti af Earl Partridge – Frank T.J. Mackey sögunni sem mér finnst áhrifaríkust. Allir hinir leikararnir standa sig samt frábærlega og hrein unun að horfa á myndinni vegna þess. Magnolia er vísvitandi tekin í stíl óháðrar myndar þó að hún hafi fengið ríflegt fjármagn. Handritið er rosalega sterkt eins og kannski sést af öllu ofangreindu og tónlistin einnig afbragð. Það að láta Wise Up vera hluta af myndinni þannig að það endurspegli líf persónanna með því að þær syngi með er mjög frumlegt og flott. Klippingar milli söguþráða eru frábærar og ég elska atriðin þar sem leikarar fara með einræður á meðan við sjáum svipmyndir af því sem er að gerast hjá hinum persónunum og öll tónlistaratriðin. Allt í allt er Magnolia stórkostlega mynd; djúp, áhugaverð, gott handrit, góðir leikarar, góð tónlist, flott myndataka. Magnolia er fersk á svo marga vegu og hún breytti viðhorfi mínu til kvikmyndagerðar að miklu leyti. Er hægt að biðja um meira?