Miyazaki hefur löngum verið meðal þeirra bestu og vinsælustu innan anime-bransans. Hann getur af sér hvert meistaraverkið á fætur öðru, og nýjasta teiknimynd hans (hér á vesturlöndum a.m.k.) er tilnefnd til Óskarsverðlaunanna í ár.
Spirited Away fjallar í megindráttum um 10 ára stúlku að nafni Chihiro, sem er að flytja í lítið úthverfi með foreldrum sínum. Á leiðinni í nýja húsið finnur fjölskyldan göng og þau ákveða að kanna málið. Á hinum endanum bíður þeirra það sem virðist vera sakleysislegur en yfirgefinn skemmtigarður. Annað kemur á daginn, og brátt sogast Chihiro inn í annan heim, sem stjórnað er af nornum, öndum (hér er andi um anda…) og töfraverum af öllum stærðum og gerðum. Hún þarf að reyna á allt sitt til að komast að því hvað er í gangi og hvernig hún getur komið sér og foreldrum sínum aftur heim.
Myndin er snilldarvel gerð í alla staði. Hún er vel teiknuð, með góðum söguþræði og síðan er flottri menningu og þjóðsögum hrært með. Einhvernveginn skilur hún líka svo mikið eftir sig. Ég horfði t.d. gagntekin í tvo klukkutíma, og táraðist síðan í lokin meðan að kreditlistinn tók að rúlla. Ég er ekki að segja að hún hafi slæman enda, heldur er myndin bara svo falleg og veitti mér svo mikinn innblástur á eitthvern einkennilegan hátt, að ég bara varð fyrir hálfgerðu tilfinningasjokki. Ég hef heyrt um fleiri dæmi þessa.
Ég vildi aðeins vekja athygli á þessari frábæru teiknimynd, sem er sönn fjölskyldumynd, án þess að vera almenn Disney-slepja. Mér finnst hún ekki hafa fengið verðskuldaða athygli hjá almenningi (en jákvæða athygli þó) þrátt fyrir það að hafa hlotið Óskarinn árið 2003 fyrir bestu teiknimynd.
Þess má til gamans geta að hún er í 41. sæti yfir 250 bestu myndir allra tíma á imdb.com, með einkunnina 8.5
Takk fyrir,
Kallisto
'The entire Fleet knows that this man tried to stab me through the neck. And you missed! Butterfingers!'