Lilya 4-ever. Lilya 4 ever

Ótrúlegt en satt hafði ég aldrei heyrt um þessa mynd fyrr en í gær bara (26 jan). Vinkona mín benti mér á hana upp í videoleigu og ég skellti mér á hana. Ég hélt hún væri að djóka í mér því titillinn er eitthvað sem mér datt í hug að væri slæm B mynd. En allavega var ég opinn og þótt hún væri á rússnesku eða hvað sem þetta sem þau töluðu var. IMDB.com segir að tungumálin séu sænska og enska en ég vil bara ekki trúa að þetta sé sænska enda heyrði ég sænsku talaða seinna í mydninni. Auk þess segir maður ekki “da” og “njet” á sænsku, er það? Allavega þraukaði ég og horfði á hana og ég deplaði ekki auga yfir henni. Ég get með sanni sagt að þetta sé ein besta mynd sem ég hef séð síðustu ár.

TAKA FRAM AÐ ÞETTA ER HUGE SPOILER!

Hún var gefin út árið 2002 og framleidd í Svíþjóð, (veit ekki af hverjum). Henni var leikstýrt af Lukas Moodysson sem skrifaði einnig handritið.

Hún er um unga stúlku í Rússlandi þó ég sé raunar ekki viss. Ekki kemur fram hvar hún er búsett í byrjun eða þá að ég hafi einfaldlega misst af því. Tek fram að ég var að horfa á hana í fyrsta og eina skiptið áðan svo það gæti verið að ekki sé allt á hreinu hjá mér. Þið verðið bara að fyrirgefa mér það.

Stelpan heitir Lilya og býr hjá mömmu sinni og sambýlismanni hennar. Hún á vinkonu sem heitir Natasha og gengur í sama skóla og hún. Myndin byrjar með flottu Rammstein-lagi og Lilya er að hlaupa öll marin og í klessu. Svo er cuttað og hún heima hjá sér að pakka niður því hún er á leið til Ameríku með mömmu sinni og nýja kallinum hennar. Eða það heldur hún.

Stuttu fyrir brottför greinir mamma hennar henni frá því að hún fari ekki með til Ameríku strax heldur komi til þeirra seinna. Mamma hennar og nýi kallinn hennar fara til Ameríku og skilja Lilju eftir (ætla að nota nafnið “Lilja” hér eftir, þægilegra að beygja það). Lilja bíður eftir frænku sinni, Önnu, sem á að sjá um hana. Anna hendir Lilju hinsvegar úr íbúð mömmu sinnar og í einhverja skítakompu stuttan spöl frá. Lilja er því núna ein og yfirgefin og hefur varla efni á mat.

Eitt kvöldið fer hún í bæinn að skemmta sér með Natöshu. Natasha talar við hana á leiðinni um að selja sig en Lilja vill ekkert með það hafa. Seinna um kvöldið fer Natasha og ríður einhverjum gaur og græðir pening á því. Daginn eftir kemur hún með pabba sínum heim til Lilju og segir við hana að taka peninga sína. Hún lætur hana fá peningana sem hún fékk fyrir að sofa hjá manninum kvöldið áður. Lilja spyr seinna í skólanum hvers vegna hún hafi verið að þessu og Natasha sagði að hún hafi sagt pabba sínum að Lilja hafi riðið gaur fyrir peninga og eigi þess vegna peningana. Svo er hún búinn að segja kærastanum sínum að Lilja sé algjör hóra og þar með á einu bretti missir hún alla vini sína nema einn strák sem heitir Volodya. Hann er nokkrum árum yngri og fínasti karakter og verða þau bestu vinir.

En fljótt breytist ástandið hjá Lilju þegar tekið er rafmagnið af íbúðinni hennar og henni farið að sárvanta peninga. Þess vegna byrjar hún að selja sig. Hún selur sig tvisvar, þrisvar og svo hittir hún ungan sjentilmann sem heitir Andrei. Hún byrjar með honum og er voða ánægð með hann. Einn daginn biður hann hana hinsvegar að koma með sér til Svíþjóðar og lofar henni gull og græna skóga. Hún treystir honum vitanlega og fer með honum til Svíþjóðar en skilur Volodya eftir með loforð frá Andrei um að hann geti kannski líka reddað honum vinnu í Svíþjóð. Hún fer til Svíþjóðar sátt með sitt en þarf hins vegar að fljúga þangað ein því amma hans Andreis verður veik eða svo segir hann. Hann segir henni að stjórinn hans taki á móti henni og hún geti bara farið að vinna strax á mánudaginn.

Hún kemur til Svíþjóðar og þar tekur maður á móti henni sem hendir henni í allt í lagi íbúð og læsir hana inni. Hún er allt í einu orðin söluvaran hans hún hafði verið svikin af Andrei og send til Svíþjóðar til þess að vera seld til karla sem vilja hennar þjónustu.

Mér fannst þetta ótrúlega áhrifamikil mynd og góð í alla staði. Þetta er byggt á sannri sögu var mér sagt og á meðan ég horfði á myndina sagði pabbi mér frá því að hérna árið 2003 var þingmönnum á Íslandi sýnd þessi mynd því kvennréttindafélög og samfylkingin voru að þrýsta á samþykkt á nýju frumvarpi varðandi vændi. Sjálfstæðisflokkurinn barðist hinsvegar gegn því og felldi frumvarpið. Frumvarpið hafði það í sér að í staðinn fyrir að hafa vændi ólöglegt yrði ólöglegt að kaupa þjónustuna sem þýðir minni eftirspurn. Þetta er svona í Svíþjóð og hefur borið góðan árángur.

En ég er ekki hér til að ræða pólitík, ég er að ræða um góða mynd, mjög góða mynd. Mér fannst samt eitt skrýtið. Í byrjun þá segir mamma Lilju við kallinn sinn: “Við verðum loksins ein”. Þarna gefur hún í skyn að henni þykir ekkert vænt um Lilju og vilji hverfa frá henni enda kemur seinna í myndinni bréf frá henni um að hún vilji “afsala sér foreldrahlutverkinu”. En þegar þær kveðjast þá ber hún augljóslega miklar tilfinningar til Lilju, svo maður hugsar með sér hvort það sama hafi gerst fyrir móður hennar og gerðist svo fyrir Lilju? Maður veit aldrei og þarf ekkert endilega að vita neitt um það. Það var fátt sem mér fannst slæmt við hana en eitt slæmt fannst mér standa upp úr og það voru vængirnir sem þau báru; mér fannst það svolítið bjagað.

En allavega hef fátt meir um þessa mynd að segja en bara frábær mynd og endilega sem flestir kíkið á hana. Ótrúleg mynd í alla staði.