Útgáfuár: 2005.
Handrit: Annie Proulx (smásaga), Larry McMurtry og Diana Ossana.
Leikstjórn: Ang Lee.
Aðahlutverk: Heath Ledger, Jake Gyllenhaal, Randy Quaid, Anne Hathaway og Michelle Williams.
Sýningarstaðir: Smárabíó og Regnboginn.
Brokeback Mountain hefur vakið talsverða athygli að undanförnu. Umfjöllunarefni hennar er umdeilt og var hinn taívanski leikstjóri Ang Lee fenginn til verksins. Myndin hefur unnið fjöldann allan af verðlaunum um heim gjörvallan, m.a. Gullljónið á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum og nú í gærkvöldi vann hún fyrir bestu leikstjórn, bestu dramakvikmynd, besta frumsamda lag og besta handrit á Golden Globe hátíðinni. Þess að auki var hún tilnefnd fyrir bestu kvikmyndatónlist, besta leik í aðalhlutverki (Heath Ledger) og bestu leikkonu í aukahlutverki (Michelle Williams).
Myndin fjallar um tvo menn, Ennis Del Mar (Ledger) og Jack Twist (Gyllenhaal), sem ráða sig eitt sumar sem sauðahirðar á Brokeback-fjalli. Eitt kvöldið þegar kalt er úti býður Jack Ennis inn í tjaldið sitt og þá verður ekki aftur snúið. Þeir verða ástfangnir en þurfa sífellt að eiga við álit samfélagsins og eigin innri djöfla.
Umfjöllunarefni myndarinnar hefur augljósa skírskotun til nútímasamfélagsins. Sérstaklega kannski hérna á Íslandi þar sem réttindi samkynhneigðra hafa verið einkum mikið í umræðunni upp á síðkastið. Hún hefur verið frekar umdeild og varð meira að segja til þess að kvikmyndahúsaeigandi sem er mormónatrúar í Utah í Bandaríkjunum varð að hætta við að sýna hana í kvikmyndahúsi sínu vegna þrýstings frá mormónum. Þessi mynd hefði getað farið illa ef ekki hefði rétt verið staðið að málunum en sem betur fer er það ekki tilfellið.
Brokeback Mountain á skilið allt það lof sem hún hefur hlotið. Handritið er mjög sterkt og átti fullkomlega skilið Golden Globe verðlaunin. Hér má örugglega helst þakka Annie Proulx fyrir að skapa trúverðugar persónur sem ég segi þó án þess að hafa lesið smásöguna. Leikararnir fylgja svo góðri persónusköpun stórvel eftir. Ljóst er að hlutverkaval á aðalpersónunum tveimur skipti sköpum fyrir þessa mynd því að leikararnir þurfa virkilega að selja sambandið sín á milli. Heath Ledger stendur sig afbragðsvel sem bældur einstaklingur sem þorir ekki að sýna sitt eðli af ótta við samfélagið. Þetta má helst rekja til uppeldisins af hálfu föður hans. Hann lætur ekki sínar sönnu tilfinningar í ljós opinberlega en brýst oft á tíðum út úr innilokaðri reiði með ofbeldi. Jake Gyllenhaal stendur sig einnig afbragðsvel og er í uppáhaldi hjá mér enda fannst mér hann einnig stórkostlegur í Donnie Darko. Michelle Williams og Anne Hathaway standa sig einnig mjög vel sem eiginkonur mannanna tveggja.
Rodrigo Prieto var illa svikinn fyrir að hafa ekki fengið Golden Globe verðlaunin fyrir kvikmyndatöku, hvað þá tilnefningu. Landslagið og kvikmyndatakan eru bæði gífurlega falleg og mjög mikilvæg fyrir myndina. Tónlistin fylgir fegurðinni á skjánum vel eftir og sérstaklega er eitt lag hrífandi sem er það sem var í sýnishorninu (trailernum) fyrir myndina. Öll tæknivinna er framúrskarandi og hjálpar til við að gera myndina að því sem hún er. Í heildina tekið er Brokeback Mountain stórkostleg mynd þar sem áhrifamikil saga er studd af mjög góðum leik og gríðarlegu sjónarspili á skjánum.
****½ / *****.