Það var með nokkurri eftirvæntingu sem ég gerði mér ferð í Laugarásbíó til að sjá nýjustu mynd leikstórans Sam Mendes, Jarhead. Olli myndin mér ekki vonbrigðum og tókst henni að fullnægja kvikmyndaþörf minni þetta kvöldið.
Jarhead er aðlögun á bók eftir bandaríska hermanninn Anthony Swofford sem þjónaði föðurlandi sínu í fyrra persaflóastríði. Í bókinni,sem ég hef ekki lesið, dregur Anthony saman upplifun sína í landgönguliði bandaríkjahers og ber saman bardagareynslu sína saman við reynslu föður síns og frænda sem sem börðust í Víetnam. Bókin er að sögn frekar fyndin og er sá þáttur ríkjandi í myndinni.
Myndin er uppbyggð eins og flestar þær stríðsmyndir sem ég hef séð í gegnum tíðina. Hún byrjar á þjálfuninni og síðan er hermanninum hent út í djúpu laugina, sem í þessu tilviki reynist ekki svo djúp.
Líkt og margar stríðsmyndir skartar hún litríkum karakterum sem endurspegla allt litróf þjóðfélagsins. Við erum með hinn hugsandi hermann sem efast um gildi þeirra átaka sem hann er að taka þátt í og heimskingjann sem lætur hrífast af áróðri og þjóðernisást yfirmanna sinna. Það eru fleiri þarna líka, hálf-geðveki gaurinn sem dansar stöðugt á línunni og nördinn,(iðulega með gleraugu og enga kærustu heima fyrir). Yfirmaðurinn í myndinni er steríótýpiskur harðnagli sem virkar sálarlaus í byrjun en þegar líður á myndinni birtast mannlegar hliðar á honum.
Leikurinn er fínn og það er eiginlega enginn veikur hlekkur, enginn sem fer áberandi illa með hlutverk sitt, Gyllenhaal og Foxx standa þó uppúr og Chris Cooper skilar standard performance, ekkert meira en það. Saarsgard er mjög góður í hlutverki hins harðsoðna Troy.
Margir bjuggust við því að þessi mynd yrði hörð ádeila og eintómur áróður gegn núverandi stríði Bandaríkjamanna við Íraska öfgamenn. Að mínu mati fer lítið fyrir því í myndinni en ég tek það fram að ég er mikill aðdáandi stríðsmynda og hermennsku. Myndin er meira heimildarmynd um líf hermanns. Myndin gefur okkur hugmynd um hvernig það er að ganga í herinn og taka þátt í stríði og það sálræna ástand sem því fylgir. Mendes tekst á mjög trúverðugan hátt að skapa stemningu sem maður gæti ýmindað sér að myndist á stað sem æfingabúðir og stríðssvæði eru.
Myndin fókúserar á persónu Swaffords og dregur upp mynd af þeirri sálarangist sem hann varð fyrir í Sádí Arabíu á meðan hann beið eftir að innrásin hefðist. Swofford og félagar hans undu illa þeirri óvissu im það hvort til innrásar kæmi og líkaði vistin í því limbói ekki vel. Barátta þeirra við að halda sönsum í auðninni var erfið og tók sinn toll. Myndin er áhrifamikil og fær mann til að hljægja og finna til með persónunum.
Það er sterkur punktur um aðgerðaleysi í myndinni og það að það sé betra að gera eitthvað heldur en ekki neitt. Myndin fjallar að mestu um það hvernig landgönguliðarnir styttu sér stundir meðan þeir biðu þess að hefja innrásina í Írak. Koma fram nokkuð spaugilegir punktar um sjálfsfróun og annað sem fylgir því að hafa ekki aðgang að sinni heitelskuðu.
Eins og ég sagði áður varð ég ekki fyrir vonbrigðum. Það má segja að þessi mynd sé einhvers konar tribute til gömlu stríðsmyndanna og það er greinilegt að Sam Mendes ber mikla virðingu fyrir gömlu meisturunum. Eftirminnileg sena úr myndinni er þegar hópur hermanna safnast saman til að horfa á Apocalypse Now og þegar reið valkyrjunnar hljómar geta þeir ekki setið á sér og byrja að hrópa upp yfir sig og hvetja söguhetjurnar á skjánum. Það er mjög góður punktur þegar Swofford segir í myndinni í þá mund er þyrlur fljúga yfir spilandi “Break on through” með the Doors: This is Vietnam music, why can´t we have our own music!.
Þetta er kannski útgangspunktur myndarinnar. Hún segir frá þeirri togstreitu sumra hermanna sem felst í því annars vegar að vilja upplifa alvöru stríð eins og ef til vill forfeður þeirra gerðu með öllum þeim raunum sem því fylgdu og hins vegar að lifa af og ekki þurfa að myrða og drepa. Þeir vilja reynsluna en vilja ekki ganga í gegnum hana.
Í þessari mynd líkt og Three Kings og Courage Under fire ,sem báðar fjalla um flóabardaga, er ekki mikið um epísk bardagaatriði líkt og Apocalypse Now til dæmis, Einhver sagði þó að í stríðinu sjálfu hefði heldur ekki verið mikið um “action”. Ég hefði þó viljað sjá meira til herþotna, en myndin var nú þannig gerð að saga Swoffords var rakin nákvæmlega og takmörkuð við hans upplifun á átökunum.
Þetta er ekki meistaraverk , en er sannarlega stríðsmynd okkar tíma líkt og Three Kings er. Hún er hin fínasta skemmtun og það er góður húmor í henni.
Myndatakan er óaðfinnanleg enda í höndum mikils hæfileikamanns sem hefur kvikmyndað ófáan gimsteininn. Hljóðið þarna í Laugarásbíó er sem fyrr til fyrirmyndar og sömu gegnir um myndgæðin..
Helstu leikarar eru Jake Gyllenhaal, Jamie Foxx, Peter Saarsgard og Chris Cooper. President Palmer(Dennis Haysbert) á líka skemmtilegt hlutverk í myndinni.
Ég gef myndinni 3 stjörnur af 4(gamla Moggakerfið)