Santa’s Slay(2005) Gaman/Hryllingsmynd
Imdb.com 5.4

Ef menn eru orðnir þreittir á öllum stórmyndunum sem hafa verið í kvikmyndahúsum um jólin, þá mæli ég með þessari. Ég er nýbúinn að sjá hana, og hún kom mér vægast sagt á óvart. Ekkert stórvirki hér á ferðinni, en þessi mynd var nokkuð skemmtileg og það var ekki laust við að maður skellti uppúr á köflum.

Myndin fjallar um Jólasveininn. Jólasveininn er djöfull sem tapaði veðmáli við engil og því þarf hann að ferðast um allan heiminn á aðfangadags nótt og færa börnum gjafir og breiða út gleði um alla jörðina. Þetta þurfti hann að gera í 1000 ár, en í ár er veðmálinu lokið, svo þessi jól munu þægu börnin fá eitthvað óvænt frá Jólasveininum og engin gleði mun fylgja þessum jólum.

Ef ekki hefði verið fyrir fyrrum fjölbragðaglímukónginn í WWE, Bill Goldberg, sem gjörsamlega fer á kostum sem Jólasveinninn, með stórkostlega ýktum ofleik, þá hefði þessi mynd líklega orðið hundleiðinleg. Því það eru fáir aðrir leikarar sem sýna einhver tilþrif. Emilie de Ravin sem leikur í Lost þáttunum leikur eitt af aðalhlutverkunum í þessari mynd, og ég varð fyrir nokkrum vonbrigðum með hennar leik, ég átti von á betri leik en hún sýnir þarna. Allir aðrir sem leika í aðalhlutverkum er frekar slappir og lítið fútt í þeim.

Handritið er ekki alveg nógu gott, og hálf bjánalegt finnst mér. Ég var alltaf að bíða eftir einhverjum svaka tilþrifum frá jólasveininum eins og þeim járnsveinka sem við fengum að sjá í Futurama. En Jólasveininn var alls ekki slæmur, reyndar er hann eina persónan í myndinni sem manni finnst vera lagt eitthvað í, og er hann alveg stórskemmtilegur. En ég hefði vilja sjá meira af hrekkjabrögðum hans heldur en var í myndinni. Reyndar get ég hrósað handritshöfundinum, sem leikstýrir myndinni líka, David Steiman, fyrir skemmtileg “smátöl” í myndinni, þar sem flest allir aukaleikarar kepptustu um við að blóta öllu sem hægt er að blóta. Og þá sérstaklega gamla kellingin sem við sjáum í byrjun myndarinnar. En annar eru samræðurnar í myndinni frekar þunnar, spurning hvort ekki sé hægt að kenna slæmum leik um það.

Þær litlu brellur sem voru í myndinni voru að mestu vel gerðar.

En þegar á öllu er á botninn hvolft, þá var þetta virkilega skemmtileg mynd og allur hráleikinn í myndinni gerir hann enn skemmtilegari fyrir vikið. Ég vildi bara að ég hefði séð þessa mynd fyrir jólin, því þessi mynd kemur manni í “gott” jólaskap.

Ég gef henni því **/****.
Helgi Pálsson