Se7en (1995)
Hefur þú aldrei pælt í því hvað það væri frábært að fá að sjá myndir eins og þú værir að sjá þær í fyrsta sinn? Að upplifa snilldina sem uppáhaldsmyndirnar manns innihalda aftur en ekki eins og maður upplifði hana þegar maður var rétt skriðinn á táningsaldurinn. Ég myndi gefa margt til að fá að sjá Seven aftur í “fyrsta sinn”. Rétt eins og með The Usual Suspects. Ég sá hana tiltölulega ungur og frá því hef ég alltaf munað hvernig hún endaði, endirinn var svo eftirminnilegur. Ég man samt ekkert eftir því þegar ég sá hana fyrst. Svo sá ég hana í fyrsta sinn aftur nýlega og það er hræðilegt að vita ekkert um mynd nema endinn. Það er eins með Seven. Endirinn er örugglega það eftirminnilegasta úr myndinni og maður man alltaf eftir honum enda er þetta án efa einn sá besti sem sést hefur á hvíta tjaldinu ásamt endinum í fyrrnefndri mynd. Einn af fáum hroll-endum.
Myndin kom út árið 1995 og er af mörgum talin besta mynd leikstjórans David Fincher en ég er nokkuð viss um að það eru fleiri sem myndu greiða Fight Club atkvæði sitt enda frábær mynd þar á ferð en Seven finnst mér vera hans besta mynd. Í stuttu máli segir Seven frá tveimur lögreglumönnum, William Somerset og David Mills, sem þurfa í sameiningu að leysa hrottaleg morðmál sem byggð eru á Dauðasyndunum sjö; Ofáti, græðgi, leti, girnd, stolti, öfund og reiði. Morðin eru öll einstaklega ógnvekjandi og frumleg í leiðinni. Það eru Morgan Freeman og Brad Pitt sem leika þá félaga og eru góðir karakterar þótt það sé auðvitað einn maður sem stelur senunni og ég hugsa að þótt þeir sem ekki hafi séð Seven viti samt hver maðurinn er. Það er auðvitað ein snilldin við Seven. Uppbyggingin að þessum karakter, þessum ótrúlega kaldrifjaða morðingja, í gegnum morðin og vísbendingarnar sem Somerset og Mills fá. Maður getur ekki annað en hugsað: “Hvers konar sjúki einstaklingur gerir svona hluti?” Við viljum vita það og fræðast um hann því svona verknaðir eru ofar skilningi venjulegs fólks. Forvitnin í sambandi við morðingja hefur alltaf verið sterk, við hugsum um hvað það sé sem drífur svona menn áfram. Menn eins og Ted Bundy, Jeffrey Dahmer eða jafnvel Adolf Hitler. Geðveiki, hrein illska eða æðra máttarvald? Liðir 2 og 3 falla víst sjálfrátt undir geðveiki þannig þá er bara einn valmöguleiki eftir. Seven tekur á þessu málefni; geðveiki. Somerset og Mills ræða þónokkrum sinnum um geðveiki þegar kemur að morðingjanum eða bara daglegu lífi. Samtalið þeirra á barnum er mjög áhugavert en þar koma skoðanir þeirra á þessu bersýnilega í ljós. Jæja, ég er kominn langt frá myndinni sjálfri en þessi bið eftir morðingjanum í Seven er þess virði. Þetta er einn af mínum uppáhaldskarakterum en upphaflega stóð til að láta R. Lee Ermey (kannski þekkja hann fleiri sem Drill Sergeant-inn í Full Metal Jacket) fara með hlutverkið en hann leikur lögreglustjórann í myndinni. Það var góð ákvörðun.
Útlit myndarinnar er frekar dökkt og það er rigning meirihlutann af myndinni sem gefur henni svona “þungt” andrúmsloft. Það myndast alltaf skrýtin tilfinning í rigningu. Annars er myndin mjög útlitslega flott og ætli maður geti ekki notað orðið falleg. Myndatakan er mögnuð og sviðsmyndin er flott. Eitt flottasta skotið í myndinni er án efa fyrsta skotið sem sýnir húsið þar sem Sloth-fórnarlambið er. Snilldarskot og um leið kemur sterk nóta sem gefur manni vísbendingu um það sem á eftir að gerast þarna inni. Það er ótrúlegt atriði, ákaflega disturbing. (Spoiler framundan) Ég var að lesa þráð um myndina á imdb um daginn og þá sá ég að það voru einhverjir að halda því fram að hóran sem myrt var svo eftirminnilega í Lust-atriðinu, að hún hefði verið syndgarinn. Það er líklega útaf þessu sem John Doe segir í bílnum nærri enda myndarinnar: “And let’s not forget the disease-spreading whore” Þarna er John Doe einungis að réttlæta morðið á henni en syndgarinn sjálfur er auðvitað vesalings maðurinn enda hafði hann syndina girnd. Þessi hóra og Tracy voru bara til að fullkomna ætlunarverkið, þær höfðu í raun enga synd. Ég veit auðvitað ekkert um hvað þeir sem lesa þetta halda en vildi bara benda á þetta. (Spoiler endar)
Seven hefur frá því að hún kom út verið áhrifavaldur margra spennumynda en þar ber helst að nefna Saw sem varð mjög vinsæl. Augljósa vísun í Seven má fyrst og fremst ráða af morðunum sem hafa verið svolítið ýkt enda Saw ætluð yngri áhorfendum. Eins var eitt atriði þar sem minnst var á hnetusmjör en það er nánast tekið beint úr Seven, en Brad Pitt segir einmitt eitthvað í þessa áttina: “He´s probably walking around in his grandma’s underpants covering himself in peanut butter.” Já, karakterinn hans Brad Pitt á nokkra spretti í myndinni, skemmtilegur gaur. Brad Pitt er líka frábær í þessu hlutverki, rétt eins og allir í myndinni.
Í The Shining eftir Stanley Kubrick sést Wendy yfirfara hundruði blaðsíðna sem allar innihéldu sama frasann “All work and no play makes Jack a dull boy”, sem Jack skrifaði. Þessar 300 blaðsíður voru allar handskrifaðar, ekki prentaðar. Í Seven, þegar Somerset og Mills skoða dagbækur morðingjans var það sama gert. Menn sátu sveittir í 2 mánuði og skrifuðu og skrifuðu, tilgangurinn? Ég bara hreinlega veit það ekki því það sjást kannski 10-15 blaðsíður í allri myndinni. David Fincher er bara greinilega svona metnaðarfullur leikstjóri.
Seven er pottþétt ein besta mynd tíunda áratugarins, en ’94 og ’95 eru ótrúlega góð ár. Fullt af frábærum myndum á þessum árum, það vantar annað svona ár. Seven var tilnefnd til Óskarsverðlauna fyrir bestu klippingu en hlaut ekki. Skrýtið að það skuli hafa verið litið svona framhjá þessari mynd því hún hefur allt til brunns að bera en það verður bara að hafa það. Myndin er í mínum huga besta mynd ársins 1995 en einnig ein besta og frumlegasta spennumynd síðari ára og er orðin eins konar guide um hvernig gera eigi spennumyndir.