Útgáfuár: 2005/2006.
Leikstjóri: Eli Roth.
Handrit: Eli Roth.
Aðalleikarar: Jay Hernandez, Derek Richardson, Eyþór Guðjónsson og Barbara Nedeljakova.
Sýningarstaðir: Smárabíó, Regnboginn, Laugarásbíó, Borgarbíó Akureyri.
Sýningartímar: http://kvikmyndir.is/?v=bio
Eli Roth eyddi nokkrum mánuðum á Íslandi fyrir nokkrum árum og hreifst algjörlega af land og þjóð. Fyrsta myndin hans í fullri lengd, Cabin Fever, kom út árið 2002 og fékk ágætis viðbrögð þó að gagnrýnendur hafi kannski ekki verið hrifnir. Hugmyndina að Hostel fékk hann þegar hann sá vefsíðu þar sem fólki var boðið að myrða e-n fyrir ákveðna upphæð. Þegar Roth kom til Íslands að kynna Cabin Fever kynntist hann Eyþóri Guðjónssyni og varð svo hrifinn af honum að hann skrifaði íslenska persónu í Hostel sérstaklega fyrir hann. Eyþór hafði enga reynslu af leik svo ég viti til en þáði hlutverkið með þökkum.
Ég var svo heppinn að sjá myndina á galasýningu IIFF-hátíðarinnar. Það ætti því að athuga að álit mitt á myndinni litast svolítið af stemningunni í kringum kvöldið og í salnum. Þessi sýning var heimsfrumsýning á óklipptri ótgáfu myndarinnar en sú útgáfa sem kemur í kvikmyndahús hérlendis í dag er örugglega talsvert styttri. Myndin fjallar um tvo vini frá Bandaríkjunum sem eru á ferðalagi um Evrópu. Á ferðum sínum kynnast þeir Íslendingi en við komum að þar sem þeir þrír ferðast saman. Ferð þeirra félaga verður seint talin menningarferð en þeir skemmta sér mikið með tilheyrandi svalli. Í seinni hluta myndarinnar fara svo hlutirnir að gerast og mikið af fucked-up atriðum.
Eins og sést kannski skiptist myndin eiginlega í tvo gjörólíka hluta. Í fyrri hlutanum eru félagarnir 3 í áhyggjulausri gjálífisferð og mjög mikið er af kynlífi og nekt. Eitthvað af því verður eflaust búið að taka út í kvikmyndahúsaútgáfunni. Fyrri hlutinn er í raun svona skemmtileg „buddy“-kvikmynd og kannski sérstaklega skemmtilegur fyrir okkur Íslendinga. Íslenski karakterinn Óli er nefnilega mjög fyndinn. Hann skemmtir sér mikið og er algjörlega kynóður og hann vakti mikla kátínu í salnum.
Hryllingsmyndina er hins vegar að finna í seinni hlutanum. Þá er hryllingurinn nánast linnulaus og á meðan í öðrum myndum mundi hann örugglega vera brotinn upp með huggandi atriðum er það ekki svo í Hostel. Líkamsmeiðingarnar eru mjög grafískar og yndislega brutal og því miður á ekki allt eftir að skila sér í kvikmyndahúsaútgáfuna en ég vona að áhorfendur fái að sjá sem mest. Hins vegar verð ég að segja að mér fannst hún ekki alveg eins hryllileg og ég hafði heyrt enda var ég búinn að búa mig undir að hlaupa öskrandi út úr salnum og veifa höndunum í geðshræringu.
Sá leikari sem fær mestan skjátíma er Jay Hernandez og mér fannst hann góður. Einnig stóð Derek Richardson, sem lék hinn Bandaríkjamanninn, sig vel og Eyþór Guðjónsson var fínn. Þetta var náttúrulega fyrsta myndin hans og því ekki við að búast að hann yrði fullkominn. Öll tæknvinna var góð og útlitshönnunin og förðunin mjög góð. Í heildina tekið var þetta góð mynd sem skiptist í rauninni í tvennt. Skemmtilega strákamynd fyrri hlutann og svo mjög góða hryllingsmynd seinni hlutann. Þessi uppbygging er mjög sniðug því að í fyrri hlutanum er nóg af húmor sem lætur manni líða vel en síðan tekur myndin algjörum stakkaskiptum og skyndilega verður myndin að órofinni martröð. Það er ljóst að Eli Roth er sjúkur fjandi ef dæma á hugarástand hans af Hostel.
*** ½ / *****.