*SPOILER* ATH!
Ég efast um að nokkur sem ekki hefur séð myndina hafi gaman af þessari grein og ég hvet fólk frekar til að hlaupa út á leigu að taka hana og lesa síðan greinina og láta í ljós skoðanir sínar.
Alfred Hitchcock er af mörgum talinn einn besti kvikmyndagerðarmaður allra tíma. Góður vitnisburður um álit kvikmyndaheimsins á honum er að hann á heilar 8 myndir á topp 250 listanum á notendavefnum imdb.com. Þær eru Rear Window, North by Northwest, Psycho, Vertigo, Rebecca, Strangers on a Train, Notorius, Shadow of a Doubt og The Lady Vanishes. Sjálfur hafði ég aðeins séð Rear Window og Strangers on a Train af þessum myndum en markmiðið er að rúlla þessum myndum upp á næstunni og að þessu sinni varð Vertigo fyrir valinu. Árin 1958, 1959 og 1960 voru góð fyrir Hitchcock og á þeim gerði hann þrjár af bestu myndum sínum; Vertigo, North by Northwest og að lokum Psycho. Handritið að Vertigo er skrifað eftir frönsku bókinni d’Entre les Morts eftir Pierre Boileau og Thomas Narcejac af Alec Coppel og Samuel A. Taylor. Snillingurinn James Stewart, sem má einnig sjá í Hitchcock- myndunum Rear Window og Rope, og Kim Novak leika aðalhlutverkin.
Vertigo fjallar um lögreglumanninn John “Scottie” Ferguson, sem þjáist af lofthræðslu og verður það til þess að hann hættir í lögreglunni. Eftir það fær hann óvænta upphringingu frá gömlum skólabróður sínum þar sem hann biður hann um að taka að sér eitt lögregluverkefni í viðbót fyrir sig. Hann segir honum að konan sín, Madeleine, haldi að hún sé önnur en hún er og biður Scottie um að elta hana og komast að því hvað hún sé að gera á daginn.
Ég var mjög hissa á Vertigo. Eins og nafnið gefur til kynna bjóst ég við að myndin færi fram á fjalli og fjallaði beint um lofthræðslu og stefndi einhvern veginn í áttina til hryllings. Ég held það hafi verið mjög jákvætt að ég hafi búist við öðru því það jók á spenninginn hjá mér að ég hafði ekki hugmynd um hverju ég átti von á eftir að ég sá að hún væri ekki eins og hélt. Ótrúlegt er hversu vel Vertigo stendur sem dulsaga og þryllir miðað við að hún hafi verið gerð árið 1958. Ég var allaveganna algjörlega fastur inni í allri ráðgátunni. Snilldin hjá Hitchcock felst í því að skapa hið fullkomna andrúmsloft og umhverfi fyrir ráðgátuna og handritið er einnig mjög sterkt. Ég er alls ekki sammála þeim sem segja að hún sé langdregin því að myndin náð i mér algjörlega og mér fannst mikið til söguþráðar-‘twistsins’ koma og það kom mér algjörlega að óvörum.
Byrjunin á myndinni er í fyrsta lagi mjög flott en þar sjáum við fyrst kvenmannsmunn og síðan augun hennar og úr djúpum augasteinsins birtast spíralar. Myndin er síðan gegnsýrð með spírölum í ýmis formum, t.d. í draumi Scotties, hári Madeleines o.s.frv. Spíralarnir eiga líklega að gefa duldinni aukna dýpt því að spíralarnir í eðli sínu eru mjög leyndardómsfullir. Þeir snúast einhvern veginn út í óendanleikann, þar sem veruleiki mannlegrar skynjunar endar. Það að þeir komi úr djúpum augasteinsins í byrjuninni gefur eiginlega strax tóninn um aðalumfjöllunarefni myndarinnar; það sem maðurinn ræður ekki við, skynjunarvillur, áráttur og þar af leiðandi afbökun raunveruleikans.
Hitchcock kemur á margan hátt þessu fráhvarfi frá raunveruleikanum og truflaðri skynjun frá sér. Frá því að Scottie byrjar að fylgja Madeleine eftir er eins og að myndavélin og þar með áhorfandinn verði persóna sem fer að upplifa sömu veruleikaafbökun og aðalpersónan. Þegar Scottie fylgir Madeleine fyrst eftir er líf í kringum þau; t.d. þegar hann fylgir henni í blómabúðina er fullt af fólki þar. Síðan er eins og persónan sem tökuvélin verður með áhorfandanum byrji sjálf að hljóta skynvillu því smátt og smátt verður einbeitingarsviðið takmarkaðra og allt annað en Scottie og Madeleine hverfa algjörlega úr rammanum. Gott dæmi um þetta er þegar Scottie eltir Madeleine á listasafnið þar sem er stórt torg og það er gjörsamlega mannlaust og jafnframt er enginn nema þau tvö og safnstjórinn á listasafninu. Tökuvélin fylgir hugarástandi Scotties sem verður sífellt ánetjaðri Madeleine því tökuvélin sjálf verður sífellt ánetjaðri þeim tveimur og missir sjónar á öllu öðru. Ég sé ekki að svona stór borg sé svona gjörsamlega líflaus nema að það hafi gildi fyrir merkingu myndarinnar. Síðan eftir að Madeleine er dáin og þegar hann hittir Judy og reynir að breyta henni í Madeleine fylgjum við Scottie til fullkominnar firru, svo mikið að jaðrar við geðveiki.
Eftirminnilegt er t.d. 360° kossaatriðið milli Scotties og Madeleines þar sem bakgrunnurinn breytist sífellt. Þetta er kannski til að undirstrika brenglunina sem á sér stað. Tónlist Bernard Herrmanns er frábær og hjálpar hún ótrúlega við að skapa hið dularfulla eðli myndarinnar og hún er einhvern veginn óveruleikaleg. Mér finnst hún allaveganna endurspegla þessa spíralahugsjón því sama meginþemað er gegnumgangandi í allri myndinni og heldur áfram og áfram, alltaf í aðeins breyttu formi. Hitchcock ýtir einnig undir þessa óveruleikatilfinningu með ýmsum öðrum hætti; t.d. draumi Scotties sem verður að segjast súreallískur og er notkun lita mjög mikilvæg til að ná því fram. Hin eiginlegu lofthræðsluskot sem koma nokkrum sinnum fyrir í myndinni þóttu að mér skilst bylting á sínum tíma. Þannig er að þegar Scottie finnur tilfinninguna og horfir niður upplifir hann skynjunarvilluna sem fylgir heilkenninu og jörðin fyrir neðan hann afbakast fyrir augum hans. Þessi skot voru gerð þannig að myndavélin var dregin frá viðfangsefninu um leið og zoomað var inn. Í rauninni einföld tækni en þetta þótti stórmerkilegt á sínum tíma.
Leikararnir eru frábærir í myndinni. Mér líkar mjög vel við James Stewart og fannst hann standa sig einstaklega vel í þessari mynd. Hann var einnig mjög góður í mynd Franks Capra, Mr. Smith Goes to Washington, og svo í gömlu Hitchcock-myndinni Rear Window. Kim Novak stendur sig einnig mjög vel og hennar þáttur er mikilvægur því hún þarf að leika tvær mismunandi persónur. Henni tekst einstaklega vel til við það. Stewart og Novak eru langmest áberandi í myndinni enda snýst hún meira og meira um þau eftir því sem á líður, eins og áður var rætt, en þó standa aukaleikararnir líka fyrir sínu.
Margir sem hafa búist við einhverri rosalegri lofthræðslumynd og hafa orðið fyrir vonbrigðum hafa kannski velt því fyrir sér af hverju myndin heitir þessu nafni þegar hin eiginlega lofthræðsla kemur svo lítið fyrir í henni. Ég held hins vegar að nafnið lýsi einmitt því sem hún fjallar um; áráttu, skynjunarvillu, afbökun raunveruleikans. Aðalpersónan upplifir þessar tilfinningar bæði beint í formi lofthræðslukasta en einnig þegar hann verður sífellt ánetjaðri Madeleine. Myndin verður sífellt dularfyllri og veruleikafirrtari eftir því sem skynjunarvillan verður stærri. Hægt væri að tala í allan dag um mikilvægi þessa hugtaks fyrir myndina og myndina sjálfa en ég held ég láti hér gott heita. Athygli ber að vekja á að þetta eru aðeins mínar hugrenningar um myndina og að sjálfsögðu enginn sannleikur. Endilega látið í ljós ykkar skoðanir á myndinni.
- spalinn