Mig langar að taka fyrir eina upphalds hryllingsmyndina mína. En það er Hellraiser. Hryllingsmyndir verða varla mikið óhugnalegari en þessi, en er fullt af óhugnanlegum senum í þessari mynd sem hafa spannað í gegnum flest allar hryllingsmyndir sem komu út á eftir þessari. Vitnað hefur verið í þessa mynd í sjónvarpsþáttum eins og Star Trek og svo allt til hörðustu hryllingsmynda eins og Event Horizon og Cube.

Þessum miklum vinsældum Hellraiser myndarinnar má að mestu þakka aðalpersónunni og sköpunarverki Clive Barker, Pinhead. En Pinhead hefur orðið nokkurskonar táknmynd illsku og pyntinga innan kvikmyndaheimsins, og því oft vitnað í hann í bíómyndum. Reyndar eins og með öll “hryllingsmynda Icon” sem verða fræg, þá þarf að mergsjúga það og í dag eru til 8 myndir Hellraiser myndir. Og þær versna eftir því sem tölustafurinn verður hærri. Fyrstu þrjár myndirnar segja frá upphafi og falli Pinheads, en svo eru hinar fimm myndirnar allar sjálfstæðar myndir.

Hellraiser(1987)
Eink. á imdb.com – 6.6
Leikstjóri: Clive Barker.

Myndin segir frá því þegar Frank Cotton leysir kínverska kassaþraut upp á háalofti hjá bróðir sínum. Við það opnar hann vídd til helvítis og kallar á djöfla sem rífa hann í sundur og fara með hann til helvítis. Frank Cotton nær svo einn daginn að sleppa úr helvíti en þegar hann kemur til baka er hann ekkert nema skinlaus beinagrind með nokkra vöðva og líffæri. Frank þarf að nærast á öðru fólki til að klára að endurholgast svo hann getur komist í burtu af háaloftinu, áður en djöflarnir átta sig á því að Frank hafi sloppið. Frank fær fyrrum hjákonuna sína til að hjálpa sér við að drepa fólk svo að hann getur nærst á þeim, en þegar stjúpdóttir hennar, Kirsty, fattar þetta reyndir hún að koma í veg fyrir þetta. Í leiðinni leysir hún óvart kassaþrautina og við það koma djöflarnir fram. Djöflarnir átta sig á því að Frank hefur sloppið og ætla ná í hann aftur, en þeir munu ekki fara við það að taka Frank aftur, því þeir taka hvern þann sem leysir kassaþrautina með sér.

Það sem þrífst í hausnum á Clive Barker er eitthvað ómennskt. Þvílík sýn sem við fáum að sjá af helvíti, enda er ekki að ástæðu lausu að menn hafa notast við þessa mynd trekk í trekk þegar kemur af því að endurspegla helvíti og illsku í bíómyndum. Clive Barker veit alveg hvað það er sem hærðir mann, og hann veit líka hvenær á að nota splatter senurnar til að ýtta enn meira undir óhugnaðinn.
Þegar djöflarnir koma á skjáinn þá veit maður alltaf að eitthvað óhuganlegt á eftir að ske, en maður veit aldrei hvað það mun vera, eða hver mun lenda fyrir því. Reyndar tekst Barker að byggja upp það öflugt andrúmsloft í myndinni að maður vonar það allan tíman að djöflarnir munu ekki birtast.

Þessi mynd er vel gerð, og ekki kostaði hún mikið, eða um 1 milljón dollara. Þær brellur sem sjást í myndinni eru mjög góðar, og þá sérstaklega þegar Frank Cotton rís aftur upp frá Helvíti. Leikurinn er auðvita það sama og fylgir hryllingsmyndum, en ólíkt öðrum hryllingsmyndum, þá nær óhugnaðurinn og hryllingurinn að yfirgnæfa það.

Þetta mynd sem allir hryllingsmynda unnendur verða, ekki bara að sjá, heldur að eiga líka. Fær ****/****. Þetta er þungavigtamynd innan hryllingsmyndageirans og þær verða ekki mikið óhugnanlegri en þessi.
Helgi Pálsson