Útgáfuár: 2004
Handrit: Paul Haggis og Robert Moresco
Leikstjórn: Paul Haggis
Aðalhlutverk: Don Cheadle, Jennifer Esposito, Sandra Bullock, Matt Dillon, Brendan Fraiser, Ludacris, Ryan Phillipe.
Þegar Crash var frumsýnd hér á landi í maí á árinu vissi ég ekki neitt um hana og hafði ekki mikla trú á henni. Svo hlóðust upp jákvæðu dómarnir á hana og ég hugsaði sem svo að ég yrði að sjá myndina. Paul Haggis, handritishöfundur og leikstjóri, vann sér einmitt síðast sér til frægðar að hafa skrifað handritið að mynd Eastwoods Million Dollar Baby sem ég var mjög sáttur með.
Crash gerist í L.A. og segir frá mörgum og mismunandi sögum íbúa borgarinnar. Hér á eftir kemur stutt yfirlit yfir helstu persónurnar. Svört lögga sem þarf að sjá um móður sína og á yngri bróður sem stendur í glæpum. Tveir ungir svertingjar sem hafa sína eigin sýn á samfélaginu. Saksóknarinn í L.A. og konan hans sem þurfa sífellt að fást við almannatengslavandamál. Persnesk fjölskylda sem þarf sífellt að þola kynþáttafordóma. Lögga sem á veikan föður sem hann þarf að hlúa að og kennir svertingjum um. Félagi hans er ungur og óspilltur og reynir hvað hann getur að breyta hugsun hans. Lásasmiður af spænskum uppruna sem er nýfluttur úr slæmu hverfi og þarf að hugsa um dóttur sína sem er hrædd við byssukúlur. Svartur sjónvarpsleikstjóri sem lendir ásamt konu sinni í spilltum og fordómafullum lögreglumanni.
Los Angeles er stór borg og hver og einn maður týnist í hinu gríðarlega mannflóði sem byggir hana. Allt er þetta ólíkt fólk en eiga það þó sameiginlegt á þessum eina degi sem myndin spannar tvinnast sögur þeirra saman á ólíkan hátt. Upphafssetningar myndarinnar segja margt um boðskap hennar og merkingu:
Graham: It's the sense of touch. In any real city, you walk, you know? You brush past people, people bump into you. In L.A., nobody touches you. We're always behind this metal and glass. I think we miss that touch so much, that we crash into each other, just so we can feel something.
Crash segir frá árekstri fólks í L.A. en á dýpra sviði árekstri kynþátta, hugsjóna og hugmynda. Mér fannst ótrúlega athyglisvert að fylgjast með hvernig sögur fólksins fléttust saman og ádeilunni á stereótýpur og kynþáttafordóma sem myndin inniheldur. Persónurnar eru meira eða minna stereótýpur og myndin kannar þær í samfélagi nútímans. Meðal annars má nefna hvítu lögguna sem níðst á svertingjum og svertingjana sem standa í glæpum og eru sífellt að kvarta yfir stimplun en eru svo sjálfir að taka þátt í að valda henni. Sett er út á pólitík nútímans í sögu saksóknarans þar sem menn hylma jafnvel yfir glæp framinn af svartri löggu til að tapa ekki fylgi svartra í kosningum. Myndin er þó einnig rannsókn á mannlegu eðli og í rauninni má segja að eitt af skilaboðum hennar sé að það finnist bæði gott og slæmt í okkur öllum. Þær persónur sem eru sýndar í dökku ljósi í byrjun myndarinnar verða hetjur á einn eða annan hátt undir lok myndarinnar.
Myndin ber með sér áferð óháðrar myndar og er það ekkert nema jákvætt. Crash er saga af raunverulegu fólki sem þarf að eiga við raunveruleg vandamál. Myndin náði a.m.k. til mín og samspil mjög góðra leikaraframmistaðna, fallegrar myndatöku og ótrúlega flottrar tónlistar gengur fullkomlega upp. Það hafði tvímælalaust mjög mikil áhrif á jákvætt álit mitt á myndinni að ég fékk gæsahúð af síðasta skotinu í myndinni og ég er ennþá að spila í hausnum ‘Maybe Tomorrow’ sem var spilað undir í atriðinu.
Frábær mynd, tvímælalaust með þeim betri sem ég hef séð.
**** - ****1/2 / *****