Er kvikmyndagerð í Bandaríkjunum búin með allt bensínið? Nú er það orðið þannig að kvikmyndaiðnaðurinn í Bandaríkjunum er nánast hættur að framleiða bíómyndir sem eru byggðar á frumhugmyndum. Allavega er það að verða afar sjaldgæft að sjá nothæfar myndir sem eru ekki annaðhvort endurgerðir eða númer tvö eða þrjú í seríu, sem þýðir að þær eru byggðar á gömlum hugmyndum.
Ég veit ekki hvort framleiðendurnir eru orðnir svona hugmyndasnauðir eða að hugmyndabankinn sé einfaldlega þurrausinn. Miðað við magnið af kvikmyndum sem er framleitt á hverju ári, þá má telja líklegt að hið síðarnefnda sé svarið. Lausnin í dag virðist vera að gera myndir eftir teiknimyndaseríum, endurgera asískar myndir og þegar allt þrýtur þá einfaldlega endurgera bandarískar og breskar myndir.
Gallinn er bara sá að nær undantekningarlaust mistekst að gera eitthvað af viti úr endurgerðinni. Það verður þó að benda á að menn eru líka oft að endurgera myndir sem voru í upphafi bara slappar eða miðlungsmyndir í besta falli.
Þannig má nefna myndir eins og Flight of the Phoenix, Assault on Precinct 13, The Italian Job, Walking Tall, The Amtyville Terror (sem hét áður Amtyville Horror og Manchurian Candidate sem voru í upphafi ekkert sérstakar og endurgerðir þeirra bættu þær í engu. Nokkrar gæðamyndir hafa þó verið endurgerðar eins og Alfie og The Ladykillers. Alfie er fín vegna frábærs leiks Jude Law en Ladykillers er mynd sem hefði aldrei átt að endurgera.
Þá má nefna að stundum er verið að endurgera myndir sem eiga ekkert skylt við frummyndina nema nafnið eitt eins og t.a.m. Rollerball, en endurgerðin líkist á engan hátt gæðamyndinni frá 1975 þar sem James Caan fór á kostum og er eitthvað versta rusl sem sést hefur held ég.
Bandaríski kvikmyndaiðnaðurinn hefur ávallt lag á því að tæma vasa áhorfenda, oft með litlum metnaði og ég spái því að innan fárra ára verði farið að endurgera nýlegar myndir og kvikmyndaiðnaðurinn muni ná sömu flatneskjunni og er að ganga af tónlistariðnaðinum dauðum þar sem flestir eru í því núna að “taka aftur” lög sem stundum eru bara tveggja til þriggja ára gömul.
Mig langar því að spyrja hvort við munum innan fárra ára sjá endurgerð á myndum eins og Collateral? Og svo langar mig að spyrja í restina….hvernig dirfast menn að endurgera Bleika Pardusinn?? Þeir eru greinlega að færa sig upp á skaftið!!!