Hvað er í töskunni? Þetta er nú ekkert nýjasta umræðuefnið en ég ætla samt að skrifa aðeins um þetta.


Pulp Fiction er ábyggilega ein besta mynd sem ég hef séð. Eins og langflestir vita þá spilar skjalataska nokkur stórt hlutverk í myndinni. Hún er opnuð tvisvar en því miður fyrir okkur þá er aldrei sýnt hvað er ofan í skaðræðis töskunni. Að sjálfsögðu hafa verið miklar umræður um hvað sé í töskunni og margar forvitnilegar kenningar litið dagsins ljós. Ég ætla að fara yfir nokkrar þær helstu. Það sem við vitum um töskuna og innihald hennar er þetta: Þetta glóir og talnaröðin á töskunni er 666.

Vinsælasta kenningin er ábyggilega eftirfarandi: Í töskunni er sál Marsellusar Wallace. Marsellus er með plástur á hnakkanum og þar átti sálin að vera tekin úr honum. (Samkvæmt þeim sem ekki trúa þessari kenningu þá á Ving Rhames, sá sem leikur Marsellus, á að hafa ljótt ör og plásturinn á að hylja örið því það mátti ekki draga athyglina frá frammistöðu Rhames.) Það koma líka gulllitaðir glampar á skjáinn þegar Vincent og Jules drepa Brett og það á að vera sálin að yfirgefa líkama hans. Marsellus á að hafa selt sálu sína djöflinum og nú sé hann að reyna að fá hana aftur. Brett og vinir hans eiga að vera aðstoðarmenn djöfulsins og þess vegna er talnaröðin á töskunni 666. Þegar skotið er á Vincent og Jules þá á guð að hafa stöðvað kúlurnar því að þeir séu að reyna að bjarga sál. Sálin á að vera það fallegasta sem mannveran býr yfir og þess vegna eru allir orðlausir þegar þeir sjá það sem er í töskunni, sbr. Pumpkin finnst þetta vera óskaplega fallegt og spyr “Is that what I think it is?”. Það eru reyndar nokkrar útgáfur af þessari. Í annarri útgáfu þá er Marsellus djöfullinn næsta er Marsellus að selja djöflinum sálu sína og svo mætti áfram telja.

Að í töskunni sé hinn heilagi gral. Þegar Brett og félagar eru að borða þá eru þeir að snæða síðustu kvöldmáltíðina. Marvin sem einnig er í herberginu táknar Júdas því hann er “vinur” Vincent og Jules. Jules fer einnig með línuna frægu sem er að hluta tekin úr Biblíunni og á hún að styrkja þessa kenningu enn frekar. Mér finnst þetta bara vera hin þokkalegasta kenning.

Sumir segja að þetta sé gulllitið ljósapera. Veit ekki meira um þessa kenningu en hún er frekar þunn.

Gull/gimsteinar. Útskýrir allavega af hverju þetta glóir. Of einfalt samt.

Að þetta sé MacGuffin. MacGuffin er semsagt bara einhver hlutur sem á að auðvelda framvindu sögunnar.

Nokkrar skondnar kenningar:

Þetta er eyrað úr Reservoir Dogs.
Þetta er mannshöfuð.
Að þetta sé gulllitaði Elvis-búningurinn úr True Romence.
Að Marsellus sé að gefa Miu gjöf, stolinn Óskar. (Sem á að hafa verið rændur af Quentin Tarantino.)
Royale With Cheese. Þessi er fyndin.

Quentin Tarantino á að hafa sagt að það það er í töskunni það sem þú vilt að það sé. Hann ætlaði að hafa þetta damantana úr Reservoir Dogs en fannst það væri of einfalt. Þess vegna hafi hann ákveðið að sýna ekki ofan í töskuna heldur bara láta áhorfendur ráða hvað sé ofan í henni. Þá spyr maður bara, hvað heldur þú?