Unforgiven Vestrar voru í lægð allan níunda áratug síðustu aldar. Þegar Heavens Gate floppaði árið 1980 og dró heilt kvikmyndaver í gjaldþrot, drógu peningamennirnir í Hollywood þá ályktun að vestrinn væri dauður og vonlaust væri að hella peningum í fleiri slíka. Vestrar á þessum áratug voru fáir og flestir low-bugdet. Enda virtust þær fáu undantekningar sem gerðar voru á þessu sanna þetta álit. Silverado og hinn vanmetni Eastwood-vestri Pale Rider komu út 1985 og hlutu báðar fremur slæma dóma og aðsókn. Smá fjörkipp mátti þó greina með Young Guns árið 1988, en hún höfðaði fyrst og fremst til unglinga.

En 1990 afsannaði Kevin Costner endanlega sögusagnir um dauða vestrans þegar Dances with Wolves sló rækilega í gegn. Ekki er ólíklegt að velgengni þeirrar myndar hafi sannfært Clint Eastwood um að gera enn einn vestra (og kannski sinn síðasta?). Útkoman varð einn allra besti vestri kvikmyndasögunnar, Unforgiven.

Söguþráðurinn er á margan hátt táknrænn. Eastwood leikur hér gamlan og afdankaðan “gunslinger” sem búinn er að leggja byssuna á hilluna fyrir löngu, og hokrar við svínabúskap í litlu koti. Vegna sinnar fyrri frægðar fær hann tilboð um að taka þátt í bara einu vígaferli í viðbót. Hann hikar, en lætur síðan slag standa, bara peninganna vegna – eða hvað?

Óþarfi er að fara nánar í söguþráðinn hér, en maður verður að nefna að auk Clints sjálfs, sýna Gene Hackman, Morgan Freeman og Richard heitinn Harris allir frábæran leik sem áhugaverðir karakterar. Margir “minni” leikarar eru einnig þrumugóðir. Þema myndarinnar er eftirsjá og samviskubit gamla byssubófans yfir fortíðinni, en ekki síður afhjúpun á gömlum goðsögnum.

Unforgiven er fyrir vestra-myndirnar hið sama og skáldsagan Gerpla var fyrir Íslendingasögurnar. Fyrir þá sem ekki vita, þá er Gerpla eftir Halldór Laxness óvægin háðsádeila á Íslendingasögurnar. Þeir sem í Íslendingasögunum eru útmálaðir sem miklar hetjur sem “stökkva hæð sína í fullum herklæðum” o.fl. eru í Gerplu afhjúpaðir sem skítugir sí-drukknir ribbaldar sem drepa saklausa menn tilviljanakennt í skapofsaköstum. Goðsögnin um ofurmannlegar garpa og fræknar hetjudáðir er rifin í tætlur, og eftir stendur kaldur og ljótur raunveruleikinn.

Vestra-sögunum amerísku hefur einmitt oft verið líkt við Íslendingasögurnar. Þetta eru sögur af frumbyggjum í nýju landi, bardögum þeirra um beitlönd og veikum tilraunum til að koma á lögum. Í vestrunum jafnt sem Íslendingasögunum má finna volduga ættarhöfingja berjast um yfirráð með tilheyrandi áratugalöngum blóðhefnda-vítahring. Einnig má í báðum finna sögur af útlögum og vígamönnum sem öðlast frægð fyrir “afrek” sín.

Hetjur Íslendingasagnanna urðu til á kálfskinni munka sem hlustuðu á munnmælasögur bændafólks. Gunnar á Hlíðarenda, Grettir Ásmundarson og Egill Skallagrímsson urðu ódauðlegar goðsagnahetjur margra kynslóða Íslendinga, en eflaust hefur sannleikurinn um fyrirmyndir þessara karaktera alls ekki verið jafn glæsilegur.

Hið sama gerðist í Bandaríkjunum. Blaðasnápar í New York og Boston færðu í letur sögurnar af Billy the Kid, Jesse James, Wyatt Earp og fleirum. Atriðið í Unforgiven þar sem lögreglustjórinn leiðréttir nokkrar villur um viðureign sem blaðasnápurinn hafði áður fært í letur, segir allt sem segja þarf.

Hefði vestri á borð við Unforgiven verið gefinn út í Bandaríkjunum á svipuðum tíma og Gerpla var gefin út hér á landi, er ég þess fullviss að viðbrögðin hefðu orðið svipuð. Höfundurinn hefði verið fordæmdur fyrir að “sverta” goðsagnahetjurnar, og grafa undan þjóðararfleifðinni.

Og hver hefði svosem verið betri í þessa slátrun á vestra-goðsagnaheiminum en einmitt sjálfur Clint Eastwood? Frábær mynd sem verður enn betri skilji maður meininguna í henni.




PS: Þessi umfjöllun er aukin og endurbætt útgáfa af annari sem ég skrifaði fyrir nokkrum árum og póstaði á kvikmyndir.is , þannig að ég vil ekki heyra neinar ásakanir um ritstuld.
_______________________