Hrafninn flýgur Ég sá Hrafninn flýgur fyrst þegar hún var ný, þá var ég 13 ára gamall. Ég man að þá þótti mér myndin eitthvað það kúlasta sem ég hafði séð. Loksins var komin íslensk mynd um eitthvað sem maður skildi – Flestar af þeim fáu íslensku myndum fram að þeim tíma höfðu ýmist verið pólitískar innansveitarkrónikur ( Óðal feðranna, Land og synir), eða eitthvað ofur-listrænt og hundleiðinlegt ( Okkar á milli, Á hjara veraldar). Jú, auðvitað höfðu komið út barna- og/eða gamanmyndir sem maður hafði gaman af, myndir eins og Jón Oddur & Jón Bjarni, og að sjálfsögðu Með allt á hreinu (þó maður fattaði ekki helminginn af húmornum í þeirri mynd fyrr en löngu síðar).

Það breytti því þó ekki að mér sem kornungum kvikmyndaáhugamanni uppúr 1980 þótti vanta ALVÖRU íslenska mynd, eitthvað spennandi sem gat hrifið mann á svipaðan hátt eins og Hollywood-myndirnar. Á þessum tíma var ég þegar orðinn sögu-nörd, og því hrifinn af víkingasögum sem mér voru kenndar í skóla. Það var því mikil eftirvænting hjá mér þegar foreldar mínir leyfðu mér að koma með á Útlagann þó hún væri bönnuð innan 14 ára. Ég man að ég varð fyrir vonbrigðum, mér drepleiddist allan tímann. Það voru að vísu víkingabardagar og pínu blóðsubba, en samt fannst mér alla spennu vanta í myndina, í heildina fannst mér hún leiðinleg.

Ég bjóst því ekki við miklu, 13 ára gamall, þegar ég fór aftur með foreldrum mínum að sjá Hrafninn flýgur. En mér fannst myndin frábær! HÉR var loksins komin ALVÖRU íslensk bíómynd: Mynd með spennandi söguþræði, flottum aðal-kalli, últra flottum vondum kalli, kúl línum (“Þungur hnífur”) kúl músík undir, you name it, - loksins íslensk mynd sem virkilega hreif mann. Þegar myndin kom út á vídeó ári síðar, horfði ég þrisvar á hana áður en ég þurfti að skila henni á leiguna.

Eftir þetta sá ég myndina ekki, en hún lifði alltaf í minninguni sem þessi über-cool víkingamynd sem var breaktrough í íslenskri kvikmyndagerð. Ég sá Í skugga hrafnsins 17 ára og hugsaði “Jaá, alltílæ, en kemst ekki nálægt fyrstu myndinni. Ég sá Hvíta víkinginn tvítugur og hugsaði, “Jæja, nú er Hrafn búinn að missa það”. Það hvarflaði ekki að mér að það væri frekar minn eiginn kvikmyndasmekkur sem hefði þroskast en að kvikmyndagerðarhæfileikum Hrafns Gunnlaugssonar hefði hrakað!



Ekki fyrr en núna. Hrafninn flýgur var gefinn út á DVD, og að sjálfsögðu varð ég að kaupa mér eintak af þessum gamla gullmola sem ég hafði ekki séð í 20 ár. Ég kom mér vel fyrir með bjór og snakk, skellti disknum í spilarann, og ætlaði að endurlifa kynnin við þessa tímamótamynd. Og varð fyrir heiftarlegu sjokki.

Myndin byrjar. “Úbbs, óttalega korní eitthvað… en jæja, menn gerðu sitt besta á þessum árum”. Maður horfir áfram, og þá opna leikararnir munninn og útúr þeim streyma einhverjar þær hallærislegustu línur sem skrifaðar hafa verið á íslenska tungu, fram bornar eins og leikararnir væru í Íslandsmeistaramóti áhugaleikara í tilgerð og ofleik.

Tónlistin sem manni þótti svo kúl sem 13 ára gutti árið 1984, er pjúra eighties-syntha-hryllingur, og ekki bætir úr skák að oftast er hún spiluð yfir skotum þar sem “panað” er á menn á ríðandi hrossum fram og aftur um rammann, sem er fjaran við Dyrhólaey.

Eftir þetta sjokk ákvað ég að gefa myndinni annan séns. Það gat bara hreinlega ekki verið að þessi mynd hefði verið lofsungin í öllum erlendum fjölmiðlum, það hlaut að vera EITTHVAÐ við hana sem réttlætti þennan sess sem hún hafði í minningu manns. Ég horfði aftur á myndina, nú með ensku tali.

Og það merkilega er, að hún skánar um 150% við það! Í stað þessarar ofur-tilgerðarlegu og stirðu íslensku sem truflaði mann, er kominn nokkuð eðlilega fram borinn enskur texti, og myndin “flæðir” mun betur fyrir vikið. Það verður alveg kristaltært hvers vegna myndin var á sínum tíma prumpuð niður af gagnrýnendum hér heima, en síðan lofsungin erlendis.

Með ensku tali er þetta fyrir Íslendingi allt önnur mynd, og maður fær mun betri skilning á því hvernig myndin kemur útlendingum fyrir sjónir. Maður er ekki sífellt truflaður af hryllilegum ofleik, heldur getur fylgst betur með söguþræðinum og alveg frábærum (viljandi) ofleik Jakobs Þórs “Eastwood” og Helga heitins Skúlasonar. Sá síðarnefndi var tvímælalaust heimsklassa-vondurkall, og verst að það var ekki uppgötvað fyrr.

Maður getur því huggað sig við að Hrafninn flýgur var ekki al-slæm mynd, þó hún sé það að flestu leyti.
_______________________