Ég ætla núna að gera grein fyrir þeim 10 myndum sem mér finnst skara fram úr af þeim sem ég hef séð.
1. The Matrix
Að mínu mati er þetta hin fullkomna mynd. Hún hefur mjög þéttan söguþráð, mjög athyglisverðar og skemmtilegar pælingar, góða tónlist, geðveik bardagaatriði, framúrskarandi kvikmyndatöku og góðar tæknibrellur. Mörgum finnst hún ekkert sérstök og ég veit að seinni 2 myndirnar hafa lækkað álit margra á fyrstu myndinni. Þrátt fyrir það er þetta án efa langbesta myndin sem ég hef séð.
2. Donnie Darko
Jake Gyllenhaal á stórleik í hlutverki Donnies Darko, drungalegir og óræðilegir svipir hans passa fullkomlega við persónuna. Donnie Darko býr yfir mjög áhugaverðum pælingum um tímaflakk og ýmissi ádeilu á nútímaþjóðfélagið. Fyrir utan það er nánast hver einast rammi í myndinni gullinn; þ.e. í myndinni er frábær sviðshönnun sem mjög góð kvikmyndataka styður vel. Soundtrackið er held ég það besta sem ég hef heyrt í kvikmynd og ‘Mad World’ atriðið stendur í manni langt eftir myndina.
3. The Shawshank Redemption
Algjört meistaraverk. Mjög falleg mynd sem hefur mjög djúpt þema, vonina, og hvað hún getur gert fyrir manninn á erfiðum stað og á erfiðum tímum. Stórleikur frá öllum aðilum og atriðið þar sem Andy Dufresne baðar sig í rigningunni eftir að hann sleppur út er frelsandi eitt og sér. Tagline-ið sem fylgir myndinni segir í raun allt sem segja þarf um hana: “Fear can hold you prisoner. Hope can set you free.”
4. The Godfather
Besta glæpasaga sem hefur verið fest á filmu að mínu mati. Einvalalið leikara fylgir mjög góðu handriti vel eftir og úr verður besta mafíumynd sem gerð hefur verið.
5. Star Wars
Ævintýrasaga með minnum sem við þekkjum öll sem er sett í annan búning á öðrum stað og á öðrum tíma. Meginþemað er í raun barátta góðs og ills en út kemur mjög heillandi mynd með sterkasta illmenni í kvikmyndasögunni.
6. 2001: A Space Odyssey
Tveggja og hálfs tíma listaverk. Ég er sucker fyrir pælingamyndum og þessi veldur slíkum aðdáanda ekki vonbrigðum. Fyrri hluti myndarinnar býr yfir áhugaverðum pælingum um tilkomu siðmenningarinnar okkar. Seinni hlutinn felur svo í sér ádeilu; snilldin hjá Kubrick felst í því að hafa mennina (Poole og Bowman) mjög daufar, litlausar og óáhugaverðar persónur á meðan eitt ferskasta illmenni kvikmyndasögunnar, HAL, lýsist upp og iðar af lífi. Það hjálpar til við að búa til ákveðinn guðdómleik í kringum HAL sem ég lít á sem ádeilu á oftrú mannsins á töluvtækninni og hvað hún geti fært okkur. Í seinni hlutanum er pælingunum í fyrri hlutanum einnig fylgt eftir á ótrúlegan hátt. Loks er það algjör snilld hvað tónlistin passar vel í atriðin hjá honum; t.d. ‘An der Schönen Blauen Donau’ og ‘Also Spracht Zarathustra’.
7. The Usual Suspects
The Usual Suspects er í senn mjög góð glæpasaga og ótrúlega sniðug fléttumynd. Lokaatriðið í myndinni er eitthvað það flottasta í kvikmyndasögunni og einhver ófyrirsjáanlegasti endir sem ég hef upplifað. Snilldin við myndina sat í mér lengi eftir að hún kláraðist.
8. The Truman Show
Ég elska þessa mynd. Jim Carrey á stórleik sem Truman, sakleysið uppmálað, og vekur með áhorfandanum ýmsar siðferðislegar og þjóðfélagslegar spurningar. Gífurlega falleg mynd sem snýst um ótrúlegt ferðalag uppgötvunar sem áhorfandinn fer í með Truman. Mozart-sónatan sem spiluð er í myndinni nær svo einhvern veginn fullkomlega anda hennar. Meistaraverk.
9. Lord of the Rings: The Fellowship of the Ring
Það var ekki fyrr en ég horfði á þessa í Extended að mér fór að finnast hún svona góð. Heillandi sögu Tolkiens er búinn afbragðsbúningur á hvíta tjaldinu. Flott umhverfi, góð klipping og kvikmyndataka og búningahönnun með afbrigðum.
10. Pulp Fiction
Ótrúlega svöl mynd. Án efa besta mynd Tarantinos. Hér fléttast 3 sögur saman á skemmtilegan hátt og er hver annarri ferskari. Mjög góð tónlist eins og við má búast en það sem er best við myndina eru samræðurnar; loksins mynd þar sem fólk talar saman eins og raunverulegt fólk mundi gera það, algjörlega laus við alla tilgerð. Mjög góð persónusköpun og mjög góðir leikarar. Loks eru klippingarvinnan og myndatakan frábær.